Feitur fimmtudagur/Pólskur bolludagur
Tlusty Czwartek – Feitur fimmtudagur er síðasti fimmtudagurinn fyrir byrjun „stóru föstu“ og er haldið uppá hann í kristinni trú.
Í Póllandi er sú hefð að þennan dag er leyfilegt eða jafnvel æskilegt að borða eins mikið og hver og einn getur. Hefðbundinn „feitur fimmtudags“ matur er są pączki sem eru djúpsteiktar gerbollur með sultu fyllingu. Einnig eru svokallaðar chrusty eða faworki vinsæll matur þennan dag, en það eru djúpsteiktar sætabrauðs fléttur með sykri ofan á. Hefðin hefur flust hingað til lands með innflytjendum af pólskum uppruna og nú er hægt að fá pączki í búðum og sumum bakaríum eða fjölskyldur búa til sitt eigið pączki fyrir þennan dag. Það boðar gæfu til næsta árs að borða nóg af sætabrauði þennan dag.
Sætabrauð í tilefni dagsins
Tlusty Czwartek (Feitur fimmtudagur) eða Pólskur Bolludagur er síðasti fimmtudagurinn fyrir „stóru föstu” og er nákvæmlega 52 daga fyrir páska hátíðina í kristna dagatalinu. Feitur fimmtudagur er haldinn í tengslum við karnivaltímabilið þar sem á feitum fimmtudegi hefst síðasta vika karnivalsins. Í Póllandi má borða yfir sig þennan dag og þessi dagur er stór hátíðsdagur í pólskri menningu.
Vissar matarhefðir tengjast deginum t.d. er vinsælt að gæða sér á pączki, sem líkjast fylltum kleinuhringjum en hefðbundið pączek er aðeins öðruvísi. Hefðbundið pączek í pólskri matargerð er sætt brauð sem gert er úr gerdeigi. Það er mótað í litla flata kúlu sem passar vel í lófa og er síðan steikt í fitu. Fitan sem steikt er upp úr skiptir miklu máli en það getur verið allskonar olía, smjör eða jafnvel dýrafita. Dæmigerð fylling fyrir pączek er ávaxtasulta eða marmelaði. Í gamla daga var algengast að nota rósasultu. Í dag koma pączki í allskonar útgáfum t.d. með súkkulaðifyllingu, rjómakremi, karamellu og ýmsu öðru. Eftir steikingu er oft settur hvítur glassúr yfir pączki eða þær eru dustaðar með flórsykri. Einnig er vinsælt að setja appelsínubörk sem búið er að breyta í kandís yfir glassúrinn.
Á þessum degi eru faworki líka vinsælt sætabrauð. Faworki minnir einna helsta á íslenskar kleinur; djúpsteiktir strimlar sem minna á slaufu. Faworki er gert úr rjómadeigi sem er búið að hnoða mikið sem gefur þeim alveg sérstaka stökka áferð og einstakt bragð. Vinsælt er að strá flórsykri yfir faworki eftir steikingu.
Feitur fimmtudagur er ekki með fast setta dagsetningu heldur er hreyfanleg hátíð sem miðar að dagsetningu páska hvers árs. Í vikunni á eftir Feitum fimmtudegi hefst „stóra fasta” en það er vikan þar sem bollu- sprengju- og öskudagur eru haldnir hátíðlegir hér á Íslandi. Eftir öskudag hefst „stóra fasta” en í kristinni trú er sú hefð að undarbúa sig undir páska með því að stunda föstu þ.e. halda sig frá ákveðinni fæðu og borða ekki meira en nauðsynlegt er. Feitur fimmtudagur getur fallið á hvaða fimmtudag sem er á milli 29. janúar og 4. mars en algengast er að að hann falli á einhvern fimmtudag í febrúar. Feitur fimmtudagur er alltaf í vikunni á undan bolludegi hér á Íslandi.
Þetta er afar vinsæl hátíð í Póllandi og halda margir uppá þennan dag. Haldið er upp á daginn í skólum og á vinnustöðum þar sem fólk getur fengið sér pączek í hádegismat.
Feitur fimmtudagur er einnig dagur sem að fjölskyldur halda uppá í sameiningu, koma saman og búa til heimagert pączki. Fjölskyldur eiga sér oft sína eigin uppskrift sem gengur frá kynslóð til næstu kynslóðar. Börn læra af hinum fullorðnu hvernig á að bera sig að við að búa til pączki t.d hvernig á að undirbúa deigið og steikja. Þetta er því dagur sem eflir samveru fjölskyldunnar þegar ættliðir koma saman og undirbúa mat og njóta hans saman.
Eins mikið og þú getur í þig látið
Upphaf Feita fimmtudagsins má leita aftur fyrir tíma kristni. Fólk sem bjó á þessum slóðum er sagt hafa átt sér svipaðan hátíðisdag þar sem vorbyrjun var fagnað og því að lífið var að vakna aftur eftir veturinn. Fólk gæddi sér á feitum mat t.d. kjöti og smjöri. Sætabrauðið sem tengdist þessum degi var upphaflega gert úr brauðdeigi og í staðinn fyrir ávaxtasultu var það fyllt með svínafitu. Siðurinn að borða sætt pączki kom talsvert seinna til sögunnar eða um 16. öld.
Samkvæmt þjóðtrú Pólverka hefur sá fjöldi af pączki sem borðaður er á feita fimmtudeginum áhrif á það hvort að næsta ár verði farsælt eða ekki. Það að borða marga pączki er trygging til góðs þ.e. að næsta ár verði gott. Það boðar hins vegar ógæfu að borða ekki pączki á feita fimmtudeginum.
„Hvað hefur þú borðað marga pączki í dag?”
Feitur fimmtudagur er ein af vinsælustu hátíðum Pólverja hvort sem það er í Póllandi eða annars staðar. Það er hægt að finna pączki víða í búðum en ólíkt því sem áður var er sætabrauðið nú í ótal útgáfum. Allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi hvort sem það eru klassískar pączki með hvítum glassúr og rósasultu eða pączki með allskonar fyllingum sem henta fyrir grænmetisætur og fyrir fólk með glútenóþol.
Fjölskyldur er líka enn að baka pączki saman, kynslóðir hittast og njóta þess að búa til pączki og borða saman. Feitur fimmtudagur er ekki eingöngu hluti af matarmenningu Pólverja heldur viðheldur þessi dagur einnig verkþekkingu og er fjölskylduviðburður.
Vinsælt er að halda uppá daginn á vinnustöðum og borða pączki hvort sem að einhver kemur með pączki sem viðkomandi keypti í búðinni eða heimatilbúið.
Á seinustu árum hefur Feitur fimmtudagur notið meiri og meiri vinsælda hérna á Íslandi. Pólverjar eru stærsti hópur innflytjenda á Íslandi og á íslenskum vinnumarkaði. Þessi hópur hefur flutt með sér hefðina hingað til lands. Lengi vel var aðeins hægt að fá pączki í pólskum búðum en núna er sætabrauðið einnig fáanlegt í mörgum bakaríum á Feitum fimmtudegi.
Feitur fimmtudagur er mjög vinsæl hátíð enda finnst flestum pączki smakkast mjög vel. Líklega halda flestir Pólverjar hér á landi uppá hátíðina með einhverjum hætti. Sumir hafa tök á því að hafa smá viðhöfn á þessum degi, koma saman og baka pączki. Aðrir fá sér bara eina pączek til að halda í hefðina eða eitthvað sem getur talist góður staðgengill. Það getur verið auðveldara fyrir fólk að nálgast pączki í þéttbýli sérstaklega þar sem búa margir Pólverjar. Íslendingar hafa sumir kynnst þessarri hefð í gegnum þá Pólverja sem þeir þekkja og sumstaðar hefur verið haldið uppá daginn á vinnustöðum þar sem allir borða pączki þennan dag.
Feitur fimmtudagur er vel þekkt hátíð og stór partur af Pólskri menningu. Ein aðal spurning og umræðuefni þessa dags er venjulega „Hvað hefur þú borðað marga pączki í dag?”.
Til fróðleiks um Feitan fimmtudag
Główka, Natalia. “Tłusty Czwartek i Odwieczne Pytanie Ile Pączków Można Zjeść?” Puls.Edu.Pl, Uniwersytet Przyrodniczy w Poznaniu, puls.edu.pl/nauka-i-badania-materia-y-prasowe/t-usty-czwartek-i-odwieczne-pytanie-ile-p-czk-w-mo-na-zje. Accessed 18 Aug. 2023.
Myndasafn
Mynd frá 2017. Þegar ekki hægt er að finna pólska pączek þá láta margir sig hafa að gæða sig á venjulegum kleinuhringi sem staðgengli.
Bakki með pączki, mynd tekin í Varsjá, dagsett sirka 1969 til 1978. Höfundur er Grażyna Rutowska og heimild National Digital Archives í Póllandi (Narodowe Archiwum Cyfrowe)