Fréttir

Sundlaugamenning á Íslandi tilnefnd til UNESCO

Nú hefur menningar-og viðskiptaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir,  tilnefnt sundlaugamenningu á Íslandi til UNESCO, á lista þeirra yfir óáþreifanlegan menningararf mannkyns. Umsóknin fór frá ráðuneytinu þann 25. mars.

Tilnefningin verður nú tekin til skoðunar hjá viðkomandi nefnd hjá UNESCO, það ferli tekur tölverðan tíma eða 18 mánuði.

Við viljum þakka innilega fyrir allan þann stuðning sem að verkefnið hefur fengið á undanförnum mánuðum. Það hefði aldrei verið hægt að klára verkefnið nema af því að svo margir lögðu því lið, sýndu stuðning sinn í verki og greiddu því leið.

Við viljum þakka þeim sem hafa tekið á móti okkur, öllum okkar góðu gestgjöfum um land allt sem leyfðu okkur að koma og segja frá og spjalla um sundlaugamenningu. Öllum þeim góðu gestum og sundlaugaunnendum, sem komu, lögðu fram sínar skoðanir og spurningar, álit og viðhorf og deildu minningum sínum um sundlaugamenningu færum við sérstakar þakkir.  Einnig viljum við þakka þeim sem hafa deilt með okkur sundlaugasögum sínum, sent okkur fallegar og eftirminnanlegar frásagnir af reynslu og viðhorfum gagnvart sundlaugamenningu. Innilegar þakkir fær starfsfólk Stofnunnar Árna Magnússonar og Þjóðminjasafns Íslands sem studdi við verkefnið í hvívetna. Þórdís Erla Ágústsdóttir, ljósmyndari fær innilegar þakkir fyrir sitt framlag. Reykjavíkurborg og starfsfólk hennar veitti ómetanlegan stuðning við tilnefninguna og við þökkum þeim innilega fyrir samstarfið. Forseta Íslands Guðna Th. Jóhannessyni og starfsfólki hans færum við sérstakar þakkir fyrir hlýhug og veittan stuðning. Sundsamband Íslands og Ungmennafélag Íslands fá þakkir fyrir  stuðning þeirra og framlag. Einnig viljum við þakka starfsmönnum menningar- og viðskiptaráðuneytisins sem lögðu sig fram við að aðstoða og leiðbeina. Og að lokum okkar dýpstu þakkir til allra þeirra sveitarfélaga, félagasamtaka, hópa og einstaklinga sem hafa stutt verkefnið, sent okkur sundlaugasögur sínar og stuðningsyfirlýsingar, spurt krefjandi spurninga og hvatt til dáða, takk fyrir! Þetta hefði ekki orðið að veruleika án ykkar.

Tilnefning hefða á yfirlitsskrá UNESCO um óáþreifanlegan menningararf mannkyns gefur hverri aðildarþjóð tækifæri til að rýna í sínar menningarerfðir. Hugsa um tilgang þeirra og hvaða merkingu þær hafa. Sundlaugamenning á Íslandi hefur ólíka merkingu fyrir þá sem hana stunda, þó eru viss lykilstef sem koma fram aftur og aftur þegar rætt er um hana t.d. samfélag, almannagæði, lýðheilsa, slökun, félagsleg heilsa, vellíðan og leikur. Tilnefning sem þessi gefur okkur tækifæri á að rýna í hvaða merkingu sundlaugamenningin hefur fyrir okkur. Vissar skyldur fylgja því að koma lifandi hefð alla leið inná yfirlitsskrá UNESCO, að við sem samfélag stöndum vel að varðveislu þessarrar lifandi hefðar til framtíðar.

Þú getur lesið þér til um samning UNESCO frá 2003 um varðveislu menningarerfða hér: https://unesco.is/wp-content/uploads/2019/12/SAMNINGUR-UM-VARÐVEISLU-MENNINGARERFÐA.pdf

 

Hópar í sundlaugum landsins

Nú stendur yfir söfnun á stuðningsyfirlýsingum sundunnenda vegna tilnefningar sundlaugamenningar á Íslandi til UNESCO, á lista yfir óáþreifanlegan menningararf mannkyns.

Allstaðar um landið má finna hópa sem koma saman í almenningslaugum landsins. Þessir hópar eru af ólíkum toga en virkni sumra þeirra snýr að hreyfingu og samveru í lauginni. Hópar sem þessir eru sérstakt einkenni á sundlaugamenningu á Íslandi.

Nú biðlum sérstaklega til þessara hópa að styðja við tilnefningu sundlaugamenningar á Íslandi til UNESCO á lista þeirra yfir óáþreifanlegan menningararf mannkyns.

Ef þú tilheyrir einum eða fleirum af þessum hópum sem eiga þátt í að ljá sundmenningu á Íslandi vissa sérstöðu þá biðlum við til þín að ræða þetta við hópinn þinn og sjá hvort að vilji sé fyrir hendi að setja saman í eina stuðningsyfirlýsingu.

Stuðningsyfirlýsing frá hóp

Skjalið sem þið útbúið má bæði vera á íslensku eða ensku, allt eftir því hvað ykkur finnst þægilegt, sé það á íslensku mun það verða þýtt yfir á ensku.

Gott er að hafa þetta sem yfirskrift:

Stuðningsyfirlýsing við tilnefningu sundlaugamenningar á Íslandi inná lista UNESCO um óáþreifanlegan menningararf mannkyns (UNESCO´s Representative List of Intangible Cultural Heritage)

Þið gætuð tekið ykkur saman og skrifað um t.d. þetta:

Hvað heitir eða kallið þið hópinn ykkar?

Hvað gerir hópurinn ykkar í sundlauginni? Hvað einkennir samveru ykkar? Hvers vegna eruð þið í þessum hópi? Hvað finnst ykkur einkenna sundlaugamenningu á Íslandi? Hvaða merkingu hefði það fyrir ykkur ef að sundlaugahefðin kæmist inná lista UNESCO?

Skrifið undir skjalið með eigin skrift, gott að hafa nafn hópsins fyrir ofan undirskriftir með prentstöfum. Ef einhver innan hópsins hefur hlutverk að vera málsvari hópsins, gegnir t.d. formannsstöðu (formlegrar eða óformlegrar) þá má hinn sami skrifa undir fyrir hönd hópsins ef upplýst umræða og munnlegt samþykki liggur fyrir hjá þeim sem eru í hópnum. Viðkomandi myndi þá skrifa undir fyrir hönd hinna (f.h. og svo nafn hópsins og síðan eiginskrift viðkomandi).

Sendu skannað eintak/pdf. af skjalinu á netfangið sigdag@hi.is. Einnig er hægt að taka mynd af skjalinu og senda hana á sigdag@hi.is.

– Stuðningsyfirlýsingin mun fylgja umsókninni til UNESCO.

Hér má lesa sér til um sundlaugamenningu á Íslandi og tilnefningu hennar til UNESCO:

https://lifandihefdir.is/sundmenning-islendinga/

 

 

Íslensk strandmenning – Málþing á Akranesi

4. mars

Við viljum vekja athygli á þessu spennandi málþingi sem haldið verður á Akranesi þann 4. mars næstkomandi. Mjög áhugavert málþing þar sem snert er á ýmsum hliðum íslenskrar strandmenningar.

Sundlaugamenning á Vestfjörðum – Lifandi hefðir

Í síðustu viku, 20.-26. nóvember, heimsótti verkefnisstýra vefsins Lifandi hefða Vestfirði til að hitta þar sundunnendur og ræða um þann undirbúning sem nú fer fram varðandi tilnefningu sundlaugamenningar á Íslandi til UNESCO, á lista yfir óáþreifanlegan menningararf mannkyns. Ljóst er að sundlaugamenningin blómstrar fyrir vestan. Við kunnum gestgjöfum okkar hinar bestu þakkir; Háskólasetri Vestfjarða, Bryggjukaffi á Flateyri og Blábankanum Þingeyri. Þessa daganna er unnið að undirbúning tilnefningu sundlaugamenningar inná lista UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf mannkyns. Hér er hægt að lesa sér til um hvernig hægt er að styðja við tilnefninguna: https://lifandihefdir.is/sundmenning-islendinga/studningur-vid-tilnefningu-sundlaugarmenningarinnar-a-islandi/

Sundlaugamenning á Íslandi skráð á vefinn Lifandi hefðir

Síðast liðinn laugardag, þann 28. október á alþjóðlegum degi sundsins var skemmtileg dagskrá í Eddu tileinkuð sundlaugamenningu á Íslandi og skráningu hennar inná vefinn Lifandi hefðir. Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson opnaði dagskránna og í kjölfarið stigu góðir gestir á stokk. Höfundar bókarinnar Sund sem kemur út núna í nóvember, Valdimar Tr. Hafstein og Katrín Snorradóttir sögðu frá efni þessarar frábæru bókar og Hildur Knútsdóttir rithöfundur flutti yndislega hugvekju um sundið. Einnig var sýnt brot úr kvikmynduðu efni úr sundlaugunum en um þessar mundir er Reykjavíkurborg í samstarfi við Lifandi hefðir að safna efni um sundlaugahefðina. Að lokum kynnti Sigurlaug Dagsdóttir, verkefnisstjóri vefsins Lifandi hefðir, skráninguna sjálfa og sagði frá því ferli. Skráningin er fyrsta skrefið í undirbúningi fyrir tilnefningu sundlaugamenningarinnar inná lista UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf mannkyns. Við erum afar þakklát þeim góðu gestum sem mættu og ræddu við okkur um sundlaugamenningu á Íslandi.

 

 

Skráning á sundlaugamenningu á Íslandi formlega sett á vefinn Lifandi hefðir

Viðburður í Eddu (fyrirlestrarsal), laugardaginn 28. október kl 13.

Laugardaginn 28. október, á alþjóðlegum degi sundsins, verður skráning á sundlaugamenningu á Íslandi formlega sett á vefinn Lifandi hefðir. Af því tilefni verður málþing um sundmenningu í Eddu. Málþingið hefst kl 13. Hér má lesa dagskrá málþingsins: 

13–13.15 Setning. Forseti Íslands hr. Guðni Th. Jóhannesson opnar dagskrá málþingsins. Sigurlaug Dagsdóttir, verkefnisstjóri vefsins Lifandi hefða kynnir efni og dagskrá málþingsins.

13.15–13.35  Sund. Sagt frá bókinni Sund eftir Valdimar Tr. Hafstein og Katrínu Snorradóttur þjóðfræðinga. Bókin kemur út hjá Forlaginu í nóvember..

13.35–13.50 Sundmenning á Íslandi fest á filmu. Stutt myndbrot um sundmenningu á Íslandi. Myndefnið er unnið af Reykjavíkurborg í samstarfi við vefinn Lifandi hefðir.

13.50–14.05 Sund fyrir þjóð – sundlaugaþrá í samkomubanni. Hildur Knútsdóttir rithöfundur flytur hugvekju.

14.05–14.20 Sundlaugamenning á Íslandi skráð formlega á vefinn Lifandi hefðir. Sigurlaug Dagsdóttir, verkefnisstjóri vefsins Lifandi hefða segir frá verkefninu.

14.20–14.40  Kaffi og umræður um sundlaugamenningu á Íslandi.

 

 

Viðburðir á norðurlandi vegna skráningar sundlaugamenningar á Íslandi

                       

Daganna 17.-19. október fóru fram þrír viðburðir á norðurlandi vegna skráningar sundlaugarmenningar á Íslandi inná vefinn Lifandi hefðir. Það var Amtsbókasafnið á Akureyri sem var fyrsti gestgafinn en þar kynnti Sigurlaug Dagsdóttir, verkefnisstýra vefsins Lifandi hefða, skráningu sundsins en nýtti einnig tækifærið til að segja frá tilgangi vefsins og ræddi við gesti um gildi óáþreifanlegs menningararfs í lífi allra. Með í för var þjóðfræðingurinn Valdimar Tr. Hafstein, annar höfunda bókarinnar Sund sem að mun koma út núna í nóvember hjá Forlaginu. Fengu gestir að hlýða á upplestur úr bókinni en einnig lýsti Valdimar efni bókarinnar og leyfði gestum að njóta hljóðdæma sem lýsa sundupplifunum Íslendinga. Næsti gestgjafi var Berg menningarhús á Dalvík. Þar mættu sundunnendur og hlýddu á Sigurlaugu og Valdimar ræða um sundhefðina frá ýmsum hliðum. Að lokum var viðburður í Safnahúsinu á Húsavík þar sem gestgjafinn var Menningarmiðstöð Þingeyinga. Þar var Sigurlaug  ein á ferð en líkt og á hinum stöðunum sköpuðust fjörugar umræður um gildi sundlaugamenningarinnar á Íslandi. Við erum afar þakklát gestgjöfum okkar sem tóku svo hlýlega á móti okkur. Við hlökkum til að heimsækja fleiri staði og ræða skráningu sundlaugamenningar inná vefinn Lifandi hefðar og undirbúning að tilnefningu hefðarinnar til UNESCO á lista yfir óáþreifanlegan mennigararf mannkyns.

                                 

 

 

Viðburðir tengdir skráningu á sundlaugamenningu á Íslandi um land allt

Nú á haustdögum verða viðburðir um land allt sem tengjast skráningu sundlaugamenningar á Íslandi inná vefinn Lifandi hefðir.

   

Nú þegar hafa farið fram tveir viðburðir, einn í Borgarnesi og annar í Stykkishólmi. Þar komu áhugasamir sundunnendur og kynntu sér skráningu sundhefðarinnar og fræddust um leið um vefinn Lifandi hefðir (lifandihefdir.is) og tilgang hans. Umræður og vangaveltur þeirra góðu gesta sem sóttu viðburðina voru sérlega gagnlegar fyrir verkefnið í heild sinni. Kynningarnar voru í höndum Sigurlaugar Dagsdóttur, verkefnisstjóra vefsins Lifandi hefða en í Borgarnesi var með í för góður gestur, þjóðfræðingurinn Katrín Snorradóttir. Katrín sagði frá skemmtilegri bók sem kemur út á haustdögum og ber einfaldlega heitið Sund. Katrín er annar höfunda bókarinnar ásamt Valdimar Tr. Hafstein þjóðfæðing. Við erum gestgjöfum okkar sérlega þakklát fyrir góðar móttökur en það voru Safnahús Borgarfjarðar og Norska Húsið í Stykkishólmi sem hýstu viðburðina.

 

 

Umfjöllun um verkefnið Sundlaugamenning Íslendinga til UNESCO.

Um daginn birtist umfjöllun um þetta skemmtilega verkefni á baksíðu Morgunblaðsins. Áhugasamir geta haft samband við verkefnisstjóra með því að senda póst á sigdag@hi.is

Við viljum endilega heyra í unnendum sundsins á Íslandi!

20. ágúst 2023 

Sundlaugamenning Íslendinga

Nú hefur verið í undirbúningi í nokkra mánuði að skrá sundmenningu Íslendinga inná vefinn Lifandi hefðir. Sundmenning Íslendinga er einstök hefð á margan hátt en fáar hefðir eru eins almennar og útbreiddar hér á landi eins og sú hefð „að fara í sund“.

Það sem einkennir einnig þessa sérstöku hefð er hve fjölbreytt hún er og hve ólíkar ástæður eru fyrir því að fólk stundar hana. Það er einnig það sem er svo heillandi og skemmtilegt við sundhefðina og sýnir hve margbreytilegar hefðir geta verið.

Á haustdögum munu fara af stað viðburðir tengdir skráningar- og tilnefningarferlinu sem verða auglýstir betur þegar nær dregur. Hægt er að hafa samband við verkefnastjóra vefsins lifandihefdir.is á netfangið: siddag@hi.is en verkefnisstjóri er hún Sigurlaug Dagsdóttir, þjóðfræðingur.

(Mynd: By Willem van de Poll – http://proxy.handle.net/10648/ae9dad76-d0b4-102d-bcf8-003048976d84, CC0, https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=67039807)

16. ágúst 2023 – Menningararfleifð innflytjenda

Það er margt spennandi í farvatninu hjá vefnum lifandihefdir.is. Í sumar hefur Martyna Ylfa Suszko, meistaranemi í þjóðfræði og túlkur, safnað heimildum um lifandi hefðir pólskra innflytjenda á Íslandi.

Verkefnið er styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna og er samstarfsverkefni þjóðháttadeildar Þjóðminjasafns Íslands og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Það er afar mikilvægt að heimildum sé safnað um lifandi hefðir þeirra sem fest hafa rætur hér á landi og því mjög ánægjulegt að nú sé verið að stíga slíkt skref. Það er von okkar að með slíkri heimildasöfnum aukist þekking á þeim hefðum og siðum sem hingað berast og hlutverk og virkni þeirra í íslensku samfélagi verði ljósari.

Martyna Ylfa Suszko 

Martyna Ylfa Suszko hefur búið á Íslandi síðan 2005 og er af pólskum uppruna. Hún starfar sem túlkur, hefur klárað BA nám í ensku og japönsku við Háskóla Íslands og stundar nú meistaranám í þjóðfræði. Martyna hafði þetta um verkefnið að segja:

„Þetta verkefni sem er í samstarfi með Árnastofnun og þjóðháttadeild Þjóðminjasafnsins er mjög spennandi. Menningararfur er mikilvægur partur af bæði daglega lífi og hátíðum, fyrir alla. Pólverjar er stærsti hluti innflytjenda á Íslandi, og það er því mjög áhugavert að skoða hvernig ólíkir en einnig líkir þessir menningaheimar eru. Að auki vildi ég að skoða hvernig áhrif þessir menningarheimar hafa á hvern annan, þar sem bæði pólsk menning hefur áhrif á menningu á Íslandi en einnig hvernig pólskar hefðir breytast og aðlagast sínu nýju umhverfi.“

Skráningarnar um menningararfleifð pólskra innflytjenda á Íslandi verða birtar með haustinu á vefnum lifandihefðdir.is.

 

11. apríl 2023 – Við blásum til málþings

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Þjóðminjasafn Íslands bjóða til málþings um óáþreifanlegan menningararf á Íslandi. Málþingið er öllum opið og verður haldið í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins fimmtudaginn 13. apríl kl. 14–16. Stofnanir, söfn og félagasamtök munu segja frá áhugaverðum verkefnum og vinnu við málaflokkinn. Kaffi og kleinur í lok fundar.

Nánari dagskrá má nálgast hér.

Finnið viðburðinn á Facebook hér.

 

 

 

 

 

15. desember 2021 – Súðbyrtir bátar á skrá UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf mannkyns

Smíði og notkun súðbyrtra báta, súðbyrðinga, er komin á skrá UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf. Öll Norðurlöndin stóðu saman að tilnefningunni. Vitafélagið – íslensk strandmenning hafði veg og vanda að undirbúningi tilnefningarinnar fyrir hönd Íslands í samstarfi við strandmenningarfélög á Norðurlöndunum.

Þetta er fyrsta skráning Íslands á skrá UNESCO yfir dæmigerðar menningarerfðir mannkyns. Á vef stjórnarráðsins er haft eftir Lilju Árnadóttur menningar- og viðskiptaráðherra:

„Þetta er frábært skref fyrir Ísland og hin Norðurlöndin sem stóðu saman að tilnefningunni. Sameiginlegur menningararfur okkar lifir líka í hinu óáþreifanlega; í siðum, þekkingu, færni og tjáningu sem þróast hefur kynslóð fram af kynslóð. Þessi viðurkenning er mikilvæg hvatning til okkar að standa vörð um og miðla menningararfinum – við berum ábyrgð á honum saman. Ég vil þakka félögum í Vitafélaginu fyrir þeirra frumkvæði og elju í þessu verkefni, og fyrir að halda á lofti mikilvægi íslenskrar strandmenningar.“

Nánar má lesa um súðbyrta báta og handverkshefðina hér á vefnum lifandihefdir.is.

Á vef UNESCO má lesa nánar um hefðina og horfa á 20 mínútna heimildamynd um bátana og handverkshefðina

 

 

 

 

 

10. desember 2020 – Útvarpsviðtal um lifandihefidr.is og laufabrauð

Á dögunum hittum við Leif Hauksson í Samfélaginu á Rás 1 og áttum við hann létt spjall um vefinn lifandihefdir.is, laufabrauð og þjóðháttasöfnun Þjóðminjasafnsins. Viðtalið má nálgast hér

 

 

 

 

 

4. desember 2020 – Spurningaskrá um laufabrauðshefðir

Laufabrauðshefðir eru ómissandi hluti af jólahaldi margra landsmanna og má lesa um þær hér á vefnum okkar.

Laufabrauðsdiskur. Handmálaður af Halldóru Guðmundsdóttur (1927-2018), gjöf handa Ásmundi Kristjánssyni barnabarni hennar. Myndina tók Dagný Davíðsdóttir.

Þjóðháttadeild Þjóðminjasafns Íslands leitar nú eftir frásögnum um laufabrauðsgerð og laufabrauðshefðir. Þjóðminjasafn Íslands hefur skipulega safnað heimildum um lífshætti á Íslandi með því að semja spurningaskrár og óska eftir svörum frá fólki.

Spurningaskráin um laufabrauðshefðir er unnin í samvinnu vefsins um lifandi hefðir, þjóðháttadeildar Þjóðminjasafnsins og Dagnýjar Davíðsdóttur, meistaranema í þjóðfræði en hún hlaut styrk til verkefnisins frá Nýsköpunarsjóði námsmanna, sumarið 2020.

Við hvetjum alla áhugasama til að taka þátt og svara spurningaskránni. Með þátttökunni verður til dýrmæt þekking á laufabrauðshefðum í samtímanum.

Kynnið ykkur málið betur hér.

 

 

 

 

23. apríl 2020 – Viðtal við Sigurbjörgu Árnadóttur, formann Vitafélagsins

Í lok marsmánaðar var handverkshefðin við smíði súðbyrta báta tilnefnd á skrá UNESCO yfir dæmigerðar menningarerfðir mannkyns. Öll Norðurlöndin ásamt, sjálfstjórnarríkjunum Færeyjum og Álandseyjum standa sameiginlega að tilnefningunni. Súðbyrtir bátar eiga sér yfir tvö þúsund ára sögu og skiptu sköpum fyrir sjósókn á Norðurlöndum. Sameiginlegur þráður handverks í tengslum við bátasmíðina hefur varðveist hjá Norðurlandaþjóðunum og má segja að handverkshefðin tengi sögu og kynslóðir landanna.

Sigurbjörg Árnadóttir, formaður Vitafélagsins – íslensk strandmenning

Áður en lifandi hefð er tilnefnd á skrá UNESCO á sér stað mikil vinna. Í því sambandi er starfsemi frjálsra félagasamtaka sem láta sig lifandi hefðir varða ómetanleg. Vegna hinnar samnorrænu tilnefningar má geta þess að yfir 200 söfn og félagsamtök komu að vinnu við tilnefninguna. Í slíkum félögum býr þekking og vitneskja sem stuðlar að varðveislu hefðarinnar og ljóst að ríki geta ekki staðið að tilnefningu til UNESCO nema í samstarfi við slík félög. Hér á landi var það Vitafélagið – íslensk strandmenning sem fór í fararbroddi fyrir tilnefningunni og þeirri grunnvinnu sem þurfti að vinna áður en tilnefningin varð að veruleika.

Norrænt samstarf um strandmenningu

Sigurbjörg Árnadóttir, formaður Vitafélagsins, segir að samstarf sé almennt lykill að góðum árangri. „Ég átti sjálf frumkvæðið að stofnun norrænu strandmenningarsamtakanna, Nordisk kustkultur. Ég átti líka frumkvæðið að stofnun Vitafélagsins-íslensk strandmenning og hef verið formaður þess félags frá upphafi, en það stofnuðum við árið 2003. Síðan var það 2007 eða 2008 sem ég var beðin um að búa til siglingakeppni á Húsavík. Ég hafði hins vegar engan áhuga á því, bauð þeim þess í stað, í kjölfar efnahagshrunsins, að gera tilraun til að búa til norræna strandmenningarhátíð,  því með þann draum hafði ég gengið lengi. Ég hef sjálf búið bæði í Noregi og Finnlandi,  margsinnis heimsótt Svíþjóð, Danmörk og Færeyjar og langaði mjög til að koma á meira samstarfi, ekki síst til að við Íslendingar gætum lært af þessum þjóðum.“

Samstarfið bar giftusamlega ávöxt og árið 2011 var fyrsta norræna strandmenningarhátíðin haldin á Húsavík undir heitinu Sail Húsavík en hefur síðan þá borið heitið Nordisk kustkultur. Danir tóku við keflinu árið 2012 og héldu hátíð í Ebeltoft, árið 2013 var hátíðin haldin í Svíþjóð, Noregi árið 2014, á Álandseyjum árið 2015, í Færeyjum árið 2016. „Við ætluðum að hafa hátíðina á Grænlandi árið 2017 en það reyndist okkur ofviða fjárhagslega. Það er svo dýrt að fljúga til Grænlands og langt að sigla fyrir aðra en okkur“, segir Sigurbjörg. Árið 2018 var hátíðin aftur haldin á Íslandi, nánar tiltekið á Siglufirði.

Frá norrænu strandmenningarhátíðinni í Færeyjum 2016.

Strandmenningarhátíðirnar standa í 4-6 daga. Gestir hátíðarinnar kynna og sýna strandmenningu í víðasta skilningi þess orðs. Haldnir eru fyrirlestrar, bækur kynnar, bátar sýndir, handverk eins og kaðla- og seglagerð, vefnaður, tónlistarflutningur, leiklist o.s.frv. „Á svona hátíðum kynnist þú fólki, myndar persónuleg tengsl, skiptist á skoðunum, lærir og miðlar, hittir bæði leikna og lærða og ferð heim fullt af hugmyndum og sambönd sem nýtast þér til frambúðar“ útskýrir Sigurbjörg.

Aðspurð um hvernig samstarfið um tilnefningu til UNESCO hafi komið til segir Sigurbjörg að hugmyndin hafi einmitt kviknað á undirbúningsfundi fyrir eina hátíðina. „Við sátum í Karlskrona yfir rauðvínsglasi  eftir langan fundardag og veltum vöngum yfir því hvað við ættum nú fleira sameiginlegt en að finnast franskt rauðvín déskoti gott. Um leið og þessari spurningu hafði verið varpað fram svaraði ung norsk stelpa sem er bátasmiður; handverkið við smíð súðbyrðings. Þar með fór boltinn af stað“, segir Sigurbjörg.

Umfangsmikil undirbúningsvinna

Sigurbjörg segir að undirbúningsvinnan áður en tilnefningin gat orðið að veruleika hafi verið mjög mikil. Samkvæmt UNESCO samningnum um varðveislu óáþreifanlegs menningararfs eiga aðildarríki hans að útbúa skrár yfir óáþreifanlegan menningararf sem stundaður er á yfirráðasvæði þess. Vefurinn lifandihefdir.is er yfirlitsskrá yfir óáþreifanlegan menningararf á Íslandi þar sem félagasamtökum og almenningi gefst kostur á að miðla þeim lifandi hefðum sem það þekkir og stundar. Þegar norrænu strandmenningarsamtökin hófu að kanna grundvöllinn fyrir tilnefningu á handverki súðbyrtra báta höfðu ekki öll norrænu ríkin komið sér upp slíkum skrám og vefsíðum. Hópurinn kynnti verkefnið og samstarfið í sínum heimalöndum og óskuðu að stjórnvöld uppfylltu skyldur samningsins með opnun vefgátta á borð við lifandihefdir.is. Á sama tíma hélt undirbúningsvinna hópsins áfram undir verkstjórn Norðmanna. „Við ákváðum að sækja um styrk til Norrænu ráðherranefndarinnar og þegar styrkur fékkst þá tók Kysten, systurfélag okkar í Noregi, að sér að halda utan um verkefnið. Norðmenn gera þjóða best við sín grasrótarfélög og því dæmist oft á þá meiri vinna en sanngjarnt er“, segir Sigurbjörg.

Í kjölfarið fylgdu fundahöld, fjarfundir, tölvupóstar og mikið samstarf sem hópurinn átti um verkefnið. „Við gerðum kynningarbækling um verkefnið sem við gáfum út á tíu tungumálum og Tore Friis-Olsen hjá Kysten ferðaðist á milli landanna og hélt kynningu á verkefninu ásamt heimamönnum. Við hin höfðum samband við einstaklinga, söfn og önnur félög á okkar svæði. Söfnuðum stuðningsyfirlýsingum, myndum, bæði ljósmyndum og lifandi myndefni  sem og öðrum heimildum“, segir Sigurbjörg. Þó það hafi aðallega verið stjórnarmenn í Vitafélaginu sem komu að verkefninu segir hún að miklu fleiri hafi komið að undirbúningsvinnunni við tilnefninguna með einum eða öðrum hætti. „Að sjálfsögðu þurftum við og urðum að leita til fagmanna. Ég er til dæmis ekki bátasmiður og því fékk ég oft aðstoð bátasmiða við textaskrif og önnur verkefni“, segir Sigurbjörg.

Samstarfshópurinn fundaði á Álandseyjum árið 2015.

Samstarf er gullkista

Sigurbjörg segir að í Noregi sé samstarf grasrótarsamtaka og stjórnvalda á öllum stigum mikið og til eftirbreytni. „Á 40 ára afmæli systurfélags okkar, Kysten, sagði fulltrúi norska menningarmálaráðuneytisins: „Þið eruð okkar gullkista“. Og þannig er það, samstarf er gullkista“, segir Sigurbjörg. Segja má að öflugt samstarf milli norrænu strandmenningarfélaganna annars vegar og hins vegar félaganna við stjórnvöld hafi borið þann ávöxt að nú hefur handverkið við smíði súðbyrtra báta verið tilnefnt á skrá UNESCO yfir dæmigerðar menningarerfðir mannkyns. Þetta er fyrsta samnorræna tilnefningin og einnig fyrsta tilnefningin sem Ísland er aðili að.

„Ég vona að þessi tilnefning á súðbyrðingnum, að ég tali nú ekki um ef hann verður samþykktur á listann sem ég efast ekki um, muni verða til þess að við hugum betur að okkar menningararfi. Við erum strandmenningarþjóð og eigum að hampa því. Við erum að selja okkur sem menningarþjóð og þá verðum við að reyna að standa undir því, hafa stolt til að varðveita okkar menningararfarf, vernda hann og nýta til atvinnu- og nýsköpunar komandi kynslóðum til góða“, segir Sigurbjörg að lokum.

 

 

 

31. mars 2020 – Tilnefning á skrá UNESCO

Smíði og notkun hefðbundinna norrænna báta, súðbyrðinga, hefur verið tilnefnd á skrá UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf heims. Ísland, ásamt öllum hinum Norðurlöndunum, stendur að tilnefningunni. Tilnefningin var afhent UNESCO í síðustu viku og bíður nú umfjöllunar. Mennta- og menningarmálaráðuneytið vann tilnefninguna en fjöldi fagaðila, safna og félagasamtaka á Norðurlöndum styðja tilnefninguna. Hér á landi er það Vitafélagið – íslensk strandmenning sem hefur haft forgöngu um málið í samstarfi við systurfélög á Norðurlöndunum. Mikil vinna felst í slíkri tilnefningu og er þáttur safna, félagasamtaka eins og Vitafélagsins og þeirra sem þekkja viðkomandi hefð ómetanlegur.

 

Áður en slík tilnefning til UNESCO getur orðið að veruleika er forsenda að hefðin sé skráð á skrár viðkomandi aðildarríkja yfir menningararfleifð þeirra. Um notkun og smíði súðbyrtra báta hér á landi má einmitt lesa hér á vefnum okkar. Súðbyrtir bátar eiga sér um tvö þúsund ára sögu og skiptu sköpum fyrir sjósókn á Norðurlöndum. Enn er handverksþekkingu og verkkunnáttunni viðhaldið hérlendis m.a. af bátasmiðum og félagasamtökum og jafnframt eru haldin námskeið um bátasmíðina. Nánar má kynna sér hefðina hér.

Á skrá UNESCO kennir ýmissa grasa yfir fjölbreyttar hefðir og lifandi menningararfleifð ólíkra ríkja. Á næsta ári mun koma í ljós hvort að norræni súðbyrðingurinn sigli fleyi sínu í örugga höfn á skrá UNESCO yfir dæmigerðar menningarerfðir heimsins. Hann væri vel að því kominn en hér má kynna sér fjölbreyttar lifandi hefðir víða um heim.

Nánar má lesa um tilnefninguna á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Nánar má lesa um smíði og notkun súðbyrtra báta á hinum Norðurlöndunum hér:

Noregur

Danmörk

Svíþjóð

Færeyjar

 

 

 

 

 

17. janúar 2020 – Þegar hnígur húm að Þorra…

Þá er nýtt ár gengið í garð og þorrinn á næsta leyti. Þorri var fjórði mánuður vetrar og markaði bóndadagur upphaf hans en þorraþræll lok hans. Ýmsar hefðir tengjast þorranum og gera margir sér glaðan dag t.d. með því að skunda á þorrablót sem haldin eru víðsvegar um landið. Þorrablót njóta mikilla vinsælda um þessar mundir en í Bolungarvík er haldið vinsælt blót sem lesa má um á vefnum okkar. Langar þig að miðla þekkingu þinni um þorrablót eða hefðir tengdar þorranum? Hafðu samband við okkur hér.

Árið 2018 kom út bókin Bolvíska blótið eftir Auði Hönnu Ragnarsdóttur þar sem saga blótanna er rakin.

Fyrir þá sem vilja kynna sér hefðir tengdar þorranum má til gamans benda á fyrirlestur Kristins Schram, þjóðfræðings sem haldinn verður miðvikudaginn 29. janúar 2020 í Bókasafni Kópavogs. Nánar má lesa um viðburðinn hér.

 

 

 

 

 

21. desember 2019 – Fjölbreyttar jólahefðir landsmanna

Nú er aðventan gengin í garð og sannarlega margar lifandi hefðir sem tengjast jólahaldi landsmanna. Á vefnum okkar má lesa um nokkrar af þessum hefðum. Eflaust þekkja allir jólasveinana enda eru þeir sívinsælir. Árni Björnsson þjóðháttafræðingur deildi fróðleik á vefnum okkar og hér má lesa um jólasveina fyrr og nú.

Víða má sækja sér fróðleik um jólahald og hefðir tengdar jólum og áramótum. Ekki er úr vegi að minna á bókina Saga jólanna eftir Árna Björnsson þjóðháttafræðing sem kom út árið 2006. Í bókinni, sem er ríkulega myndskreytt, er fjallað á aðgengilegan hátt um alls kyns hefðir tengdar jólahaldi. Fróðleiksfúsir geta t.d. lesið um jólakveðjur og jólakort.

Laufabrauð skipar sérstakan sess á veisluborðum landsmanna á jólum. Laufabrauðsgerðin og útskurðurinn er ekki síður skemmtileg hefð sem margir þekkja. Dagný Davíðsdóttir þjóðfræðingur deildi sinni þekkingu á laufabrauðsgerð og um hana má lesa hér. Dagný er nú í meistaranámi í þjóðfræði og ætlar að rannsaka betur laufabrauðshefðina. Hún sagði frá áhuga sínum og rannsókn sinni á laufabrauði í viðtali á sjónvarpsstöðinni N4.

Af mörgu er að taka í tengslum við lifandi hefðir í kringum jól og áramót. Við hvetjum lesendur til að setja sig í samband við okkur og miðla skemmtilegum hefðum.

Að lokum viljum við óska lesendum gleðilegra jóla og þakka samfylgdina á líðandi ári.

 

10. desember 2019 – Kvæðamannafélagið Iðunn 90 ára

Félagasamtök gegna oft mikilvægu hlutverki þegar kemur að varðveislu hefða og menningararfs. Um þessar mundir fagnar Kvæðamannafélagið Iðunn 90 ára afmæli sínu. Í tilefni þess var í sjónvarpsþættinum Landanum skemmtileg umfjöllun um starfsemi félagsins. Félagið hefur m.a. verið virkt í útgáfu og samið kennsluefni auk þess að halda reglulega kvæðakvöld en öll þessi starfsemi á þátt í því að viðhalda og miðla kveðskaparhefðinni áfram til yngri kynslóða. Kvæðamannafélagið Iðunn hefur einnig ritað fróðlega færslu á vefinn okkar um kveðskaparhefðina sem lesa má um hér. Á meðfylgjandi mynd má sjá Báru Grímsdóttur formann Kvæðamannafélagsins Iðunnar ásamt Chris Foster.

 

27. nóvember 2019 – Önnur heimsókn í Háskóla þriðja æviskeiðsins

Það var fjölmennt í Háskóla þriðja æviskeiðsins þegar við mættum aftur til leiks 12. nóvember sl. og kynntum lifandi hefðir og möguleika fólks til þátttöku. Líflegar umræður sköpuðust og komu fram ýmis sjónarmið um tillögur að hefðum sem gaman væri að miðla á vefnum.

 

 

 

 

 

 

Þátttakendur skráðu niður ólíkar lifandi hefðir sem ættu heima á vefnum og veltu fyrir sér möguleikum Íslands til tilnefningar á lista UNESCO yfir dæmigerðar menningarerfðir heims. Við bendum áhugasömum á að hægt er að senda okkur skilaboð hér. Hafið endilega samband ef þið viljið koma að ábendingum eða fá kynningu á verkefninu fyrir hópinn ykkar.

 

8. nóvember 2019 – Hvernig er lifandi menning varðveitt?

Á dögunum var haldin ráðstefna sem skipulögð var af Finnish Heritage Agency um lifandi hefðir á Norðurlöndunum. Á ráðstefnunni var fólk frá öllum Norðurlöndunum og Eystrasaltslöndunum. Þátttakendur voru með fjölbreyttan bakgrunn og komu jafnt frá opinberum menningarstofnunum sem og félagasamtökum sem starfa með lifandi hefðir.

Ljóst er að mikil gróska er í grasrótarsamtökum sem vilja stuðla að varðveislu og útbreiðslu þekkingar um lifandi hefðir. Félagasamtök og hópar sjá mikil tækifæri í samningnum til að efla og styðja við starfsemi sína. Þá eru mörg ríkjanna að vinna að tilnefningum á lista UNESCO ásamt því að vinna öflugt starf til að auka þekkingu og vitund um mikilvægi lifandi hefða.

Við bendum áhugasömum á fróðlegar vefsíður hjá t.d. NoregiDanmörku, Svíþjóð og Finnlandi þar sem lesa má um ýmis áhugaverð verkefni í tengslum við lifandi hefðir og samning UNESCO frá árinu 2003. Þá eru Færeyingar að stíga sín fyrstu skref og hafa opnað vef um lifandi menningu.

Við hvetjum lesendur til að taka þátt í þessu verkefni með okkur. Við tökum fagnandi á móti hugmyndum og samstarfi. Vertu með.

 

29. október 2019 – Er hrekkjavaka lifandi hefð á Íslandi?

Á undanförnum árum hefur færst í vöxt að fólk haldi upp á hrekkjavöku hér á landi. Á morgun verður haldinn áhugaverður fyrirlestur í Bókasafni Kópavogs þar sem Björk Bjarnadóttir ætlar að fjalla um sögu hrekkjavökunnar. Nánari upplýsingar um viðburðinn má nálgast hér.

 

 

 

23. október 2019 – Heimsókn í Háskóla þriðja æviskeiðsins 

Í síðustu viku heimsóttum við Háskóla þriðja æviskeiðsins (U3A Reykjavík). U3A, ásamt félagasamtökum í Pólandi, Króatíu og á Spáni, tekur nú þátt í verkefni sem kallast Heritage in Motion (HeiM). Verkefnið gengur m.a. út á að þátttakendur fá fræðslu um menningararf og finna leiðir að menningararfi sem henta þeim sem eldri eru. Verkefnið er styrkt af Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins. Í tengslum við þátttökuna í verkefninu er haldið metnaðarfullt 30 klukkustunda námskeið sem fjallar um menningararf vítt og breitt. Á námskeiðinu var m.a. kynning um óáþreifanlegan menningararf og samning UNESCO um varðveislu hans og vefsíðuna lifandihefdir.is. Fjörugar og gagnlegar umræður sköpuðust um lifandi hefðir og menningararf og var fróðlegt að heyra sjónarmið þátttakenda.

Allir geta tekið þátt í að skrá lifandi hefðir á vefinn, hvort sem þeir eru ungir eða aldnir eða einhvers staðar þar á milli. Við viljum heyra sjónarmið sem flestra. Endilega takið þátt.

 

10. október 2019 – Saumaklúbbar eru lifandi hefð

Á vef Fréttablaðsins segir frá konu nokkurri sem varð fyrir því óláni að bjóða um þriðjungi landsmanna í saumaklúbb. Þegar hún hugðist senda klúbbskonum skilaboð á Facebook vildi ekki betur til en svo að hún birti skilaboðin í hópnum „Gefins, allt gefins“ sem telur ríflega hundrað þúsund manns. Skilaboðin voru:

„Eigum við ekki að fara að hittast? Mér finnst alveg kominn tími á saumaklúbb, Dóra María hélt síðast. Viljum við halda okkur við stafrófið eða vill einhver sjálfboðaliði hafa næsta klúbb?“

Mikil umræða skapaðist um málið í Facebook-hópnum þar sem góðlátlegt grín var gert að mistökunum. Í viðtali við Fréttablaðið, þar sem konan tjáir sig nánar um atvikið, segir hún að saumaklúbburinn hennar hafi fyrst komið saman fyrir 30 árum, en allar séu þær hjúkrunarfræðingar.

Fjölmargir saumaklúbbar eru haldnir vikulega um land allt og er Facebook gagnlegur vettvangur þar sem hóparnir ákveða næsta klúbb. Eins og sjá má af skilaboðunum er stundum farin stafrófsröð þegar ákveðið er hverjar skuli halda næsta klúbb. Lesa má nánar um saumaklúbbahefðina hér á vefnum.

 

16. september 2019 – Samráðs- og kynningarfundur um starfsemi UNESCO á Íslandi

 - myndÁ dögunum var haldinn fundur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu þar sem um 20 aðilar kynntu verkefni og starfsemi sem unnin er í tengslum við UNESCO hérlendis. Verkefnin eru afar fjölbreytt og varða m.a. vernd náttúru- og menningarminja, samstarf í vísinda- og menntamálum auk annarra menningarverkefna. Þá voru heimsmarkmiðin kynnt og framboð Íslands til setu í framkvæmdastjórn UNESCO.

Vefurinn um lifandi hefðir á Íslandi er einmitt hluti af innleiðingu á samningi UNESCO frá árinu 2003 um varðveislu óáþreifanlegs menningararfs. Að viðhalda og varðveita þekkingu um lifandi hefðir er álitinn mikilvægur þáttur í því að stuðla að menningarlegri fjölbreytni og sjálfbærri þróun, m.a. í því augnamiði að auka gagnkvæma virðingu og skilning milli ólíkra hópa og þar með stuðla að friðvænlegri heimi.

Nánar má lesa um fundinn hér.

 

27. júní 2019 – Blessuð sauðkindin

Víða um land eru starfandi félög, hópar og söfn sem vinna að því að safna, viðhalda og miðla þekkingu á lifandi hefðum. Sauðkindin hefur fylgt þjóðinni frá landnámi og gegnt mikilvægu hlutverki í lífi landsmanna. Mikil þekking er tengd sauðfé og sauðfjárbúskap. Á vefsíðu Sauðfjárssetursins á Ströndum er að finna skemmtilega fróðleikskistu með upplýsingum um allt sem viðkemur sauðfé, allt frá búskap og ræktun yfir í þær nytjar sem hafðar eru af sauðfénu. Fróðleiksfúsum er bent á að kynna sér vefsíðuna hér.

Við hvetjum áhugasama um allt land til að setja sig í samband við okkur til að miðla fróðleik í tengslum við lifandi hefðir. Sendið okkur skilaboð með því að smella hér.

 

20. maí 2019 – Ekki allar hefðir lifa

Í frétt sem birtist á vefmiðlinum Vísi í dag er fjallað um að ríkissáttasemjari ætli að hætta að baka vöfflur þegar kjarasamningar nást. Í fréttinni er haft eftir Elísabetu S. Ólafsdóttur, skrifstofustjóra embættisins, sem byrjaði vöfflubaksturinn á sínum tíma að hefðin sé ríflega 20 ára:

„Það var fyrir rúmlega 20 árum síðan og þá stóð aldrei til að þetta yrði einhver hefð. Við gerðum þetta einu sinni því það var löng og ströng lota að baki. Svo vildi næsti hópur fá vöfflur og svo gekk þetta þannig að við gátum ekki komið okkur út úr þessu fyrr en eftir 20 ár.“

Bryndís Hlöðversdóttir, ríkissáttasemjari, segist vilja nýta krafta starfsfólksins í annað aðspurð um ástæður þess að vöfflubakstrinum sé hætt.

Þessi hversdagslega frétt lætur e.t.v. lítið yfir sér en hún opinberar engu að síður síbreytilegt eðli hefðanna og hvernig þær verða til við endurtekningu. Hvernig hefðir verða til, þær umskapaðar og þeim viðhaldið segir mikið um gildi samfélags, hvernig þau breytast og hefðirnar með.

Vefurinn um lifandi hefðir á Íslandi hefur það markmið að skapa þekkingu á lifandi hefðum sem stundaðar eru hérlendis. Á flestum vinnustöðum eru ákveðnar hefðir í heiðri hafðar sem skipta mikilvægan sess í lífi fólks eins og t.d. „föstudagskaffið“ sem margir kannast við. Við hvetjum lesendur til að miðla sinni þekkingu á vinnustaðahefðum með því að senda okkur skilaboð.

 

2. mars 2019 – Lifandi hefðir á Háskóladeginum

Laugardaginn 2. mars sl. var Háskóladagurinn. Þá stóðu allir háskólar landsins fyrir kynningu á háskólanámi sem í boði er hérlendis. Í Háskóla Íslands var áhugaverð dagskrá í boði auk þess sem námsleiðir við skólann voru kynntar. Á deginum fór fram málstofan Samfélagið nær og fjær – sýnishorn úr kennslu og rannsóknum. Það voru námsleiðir í félagsfræði, fötlunarfræði, mannfræði, náms- og starfsráðgjöf og síðast en ekki síst þjóðfræði sem stóðu að málstofunni. Vefgáttin um lifandi hefðir hefur átt gott og gjöfult samstarf við þjóðfræðideild Háskóla Íslands. Í málstofunni fór fram kynning á vefnum um lifandi hefðir á Íslandi, forsendum hans og framkvæmd. Vefurinn er prýðilegt dæmi um að rannsóknir og fræði þurfa að mynda traustar undirstöður fyrir hagnýta útfærslu á vefgátt fyrir almenning. Þá getur vefurinn og verkefnið orðið nýjum nemendum uppspretta rannsókna og annarra hagnýtingarverkefna.

 

Félagar úr Kvæðamannafélaginu Iðunni. Mynd: Chris Foster og birtist hún í Fréttablaðinu.

27. febrúar 2019 – Rímnakveðskapur dýrmæt lifandi hefð

Skemmtilegt er þegar fjölmiðlar fjalla um lifandi hefðir. Í dag fjallar Fréttablaðið um kvæðakvöld sem Kvæðamannafélagið Iðunn stendur fyrir, þann 27. febrúar 2019. Í fréttinni er rætt við Báru Grímsdóttur formann félagsins þar sem hún segir frá því hvernig kveðskaparhefðin hefur borist mann fram af manni og sé enn lifandi í samfélaginu.

Á vefnum okkar er hægt að lesa nánar um kveðskaparhefðina.

Hægt er að kynna sér viðburðinn nánar hér og hér má lesa umfjöllun Fréttablaðsins.

 

 

4. febrúar 2019 – Lifandi hefðir og fótbolti

Þann 4. febrúar sl. fengu nemendur Háskóla Íslands í námskeiðinu Ekki bara leikur: Fótbolti frá mann-, félags- og þjóðfræðilegu sjónarhorni kynningu og fræðslu um vefinn um lifandi hefðir. Í tímanum sköpuðust líflegar umræður m.a. um hvort að Húh-ið væri lifandi hefð og hvort að skráning um það ætti heima á vefnum.

 

 

 

27. janúar 2019 – Umfjöllun Landans um lifandi hefðir

Hinn vinsæli sjónarvarpsþáttur Landinn fjallaði um vefinn um lifandi hefðir í fyrsta þætti ársins 2019. Horfa má á umfjöllunina hér.

 

 

 

21. desember 2018 – Umfjöllun um vefinn á Rás 1

Hinn góðkunni útvarpsmaður Leifur Hauksson gerði vefinn um lifandi hefðir að umfjöllunarefni í þættinum Samfélagið á Rás 1 þann 21. desember sl. Hér má hlusta á umfjöllunina.

 

 

 

19. desember 2018 – Vefur um lifandi hefðir á Íslandi opnaður í mennta- og menningarmálaráðuneytinu

Þann 19. desember sl. var vefurinn um lifandi hefðir á Íslandi opnaður. Við það tilefni sagði Lilja Alferðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra m.a.:

„Lifandi hefðir skipa mikilvægan sess í hugum okkar flestra þó við leiðum oft ekki hugann að þeim dagsdaglega – þær virka stundum eins og sjálfsagðar en að baki þeim býr oft forvitnileg og mikilvæg saga. Þeim viljum við safna og halda á lofti með þessu skemmtilega verkefni.”

Ráðherra gerði nýrri hefðir einnig að umtalsefni og sagði: „Meðal nýrri hefða sem vakið hafa talsverða athygli er hið landskunna HÚH! – hvatningarklapp Tólfunnar en mig langar af þessu tilefni að skora á stuðningsmannafélag íslensku landsliðanna í fótbolta að senda inn skráningu á síðuna um þá frábæru hefð.“

Fréttir af opnuninni má lesa hér og hér.