Víða um land kemur fólk saman í aðdraganda jólanna til að gera laufabrauð. Laufabrauð eru þunnar kökur sem eru myndskreyttar og steiktar upp úr feiti. Laufabrauð er þynnra en önnur hátíðarbrauð sem þekkjast í Evrópu. Flestir sem taka þátt í laufabrauðsgerð hafa gaman af því að skreyta eða skera út laufabrauðskökurnar. Fólk á öllum aldri situr saman við útskurðinn og læra börn gjarnan af þeim sem eldri eru. Jafnan skapast góður andi þegar fólk situr saman og dundar við að skreyta kökurnar listilega. Notaðir eru beittir hnífar eða sértilgerð laufabrauðsjárn til að búa til mynstur og ýmsar útgáfur eru til af þekktum mynstrum.

Skráð:

23.11.2018

Skráð af:

Dagný Davíðsdóttir

Landfræðileg útbreiðsla:

Allt landið

Fjölskyldur víða um land hafa þann sið að hittast í aðdraganda jólanna ár hvert, til að búa til laufabrauð. Laufabrauðið sjálft er fyrir mörgum einn mikilvægasti þáttur jólahátíðarinnar og geta þau ekki hugsað sér borðhaldið án þess. Þeir sem aldir eru upp við laufabrauðsgerð vilja helst ekki kaupa það tilbúið því þeim þykir það ekki bragðast jafn vel, né er það unnið af eins mikilli ást og heimagert laufabrauð.

Laufabrauð er oftast gert í heimahúsi og þá fjöldi viðstaddra í samhengi við hvað húsið tekur marga. Þegar ættin er orðin of fjölmenn til að hittast í heimahúsi skiptist hún gjarnan niður í minni fjölskyldur, sem endar svo á sama hátt nokkrum tugum ára síðar með nýrri kynslóð. Þó er það til að ættir fái sal til afnota til að að koma stórum hópum fyrir. Einnig vilja ekki allir fá lyktina af steiktu laufabrauði inn í húsið og bregða því á þetta ráð. Öðrum finnst hinsvegar tilheyra þessum tíma að fá lyktina í húsið. Nú til dags er þetta oftast gert um helgi vegna þess að fólk er upptekið alla virka daga og ekki mikið inni á heimilinu. Það getur verið notalegt að hlusta á jólatónlist á meðan skorið er út og spjallað saman. Í dag notast flestir við laufabrauðsjárn en sumir við beitta hnífa eins og í gamla daga. Laufabrauðsjárnið var dýrt og lengi erfitt að fá og átti jafnvel hver ætt einungis eitt járn. Útskurðarfólk þurfti þá að bíða eftir járninu meðan aðrir voru að nota það. Einnig var það oft lánað til annarra fjölskyldna þegar það var ekki í notkun. Þetta er vissulega enn svona í mörgum fjölskyldum en það er þó auðveldara að nálgast járn í dag þó það sé enn dýrt. Mörgum þykir það ákveðin stemning að notast einungis við eitt járn, það sé hluti af hefðinni að bíða eftir að komi að sér.

Það er rólegur og góður andi yfir svæðinu þegar verið er að skera út kökurnar. Til eru ýmis þekkt mynstur eins og t.d. rós, bóndaskurður, eik/jólatré, skammdegissól o.fl. Þetta eru þó ekki endilega þekkt nöfn meðal almennings, en sumar þekkja kannski einungis eitt þeirra. Víða spreytir fólk sig á húsum eða kirkjum, en einnig er vinsælt að gera upphafsstafi eða skammstafanir fjölskyldumeðlima. Það er þó allt leyfilegt í þessum efnum og spreytir fólk sig á því sem þeim dettur í hug að gera hverju sinni. Einhverjum finnst þó óviðeigandi að skera út eitthvað hryllilegt í kökurnar, eins og hauskúpur og annað. Margir „pikka“ kökurnar að loknum útskurði, en það felst í því að taka tannstöngul og búa til pínulítil göt á hana. Þó eru sum bakarí sem selja kökurnar í dag „for-pikkaðar“ eins og sumir orða það.

Það er gjarnan sama fólkið sem fær það hlutverk að steikja kökurnar ár hvert. Sumir vilja jafnvel frekar gera það því þeir hafa ekki eins gaman af útskurðinum. Þetta er fullorðin manneskja því verkið er hættulegt. Önnur manneskja er svo með pressuna til að gera kökurnar sléttar meðan þær eru enn heitar. Sumir kjósa þó að hafa þær eins og þær koma úr pottinum, bylgjóttar með loftbólum. Afskurðurinn er steiktur síðastur og fá viðstaddir gjarnan að smakka á honum því kökurnar sjálfar eru geymdar til jólanna. Afskurðurinn þykir mörgum algjört sælgæti.

Í Evrópu þekktist og þekkist enn skrautlegt jólabrauð og hátíðarkökur en það er þó ekki líkt laufabrauðinu því það er mun þynnra en þau fyrrnefndu. Laufabrauðið er séríslenskt fyrirbrigði. Elsta ritaða heimild um laufabrauð er frá fyrri hluta 18. aldar þar sem það er skilgreint sem sætabrauð í hugum Íslendinga, laufótt þunnt brauð sem hnoðað er úr hreinu hveiti, myndskreytt, smurt með smjöri og soðið. Hveiti var notað í laufabrauðsgerð meðal heldra fólks. Meðal almennings var sigtað rúgmjög eða fínmalað bankabygg gjarnan notað. Það er talið að ástæðan fyrir því að laufabrauð er svona þunnt sé skortur á korni sem lengi hrjáði Íslendinga. Það var því flatt svona rækilega út til að gera meira úr litlu hráefni. Enn í dag er gjarnan sagt að laufabrauðið eigi að vera það þunnt að hægt sé að sjá mynstur í gegnum það áður en það er steikt.

Þrátt fyrir þessar elstu heimildir bar ekki mikið á laufabrauði í rituðu heimildum fyrr en um miðja 19. öld. Það þýðir þó ekki að það hafi ekki verið algengt að gera og borða það, því það var heldra fólk sem skrifaði heimildirnar og því færri heimildir til um matarhætti þeirra sem höfðu minna á milli handanna. Á 19. öld er laufabrauðið bundið við Norðurland og við aðventuna. Úbreiðsla laufabrauðsins hófst þegar uppskrift var birt í Kvennafræðaranum árið 1889. Það voru einna helst kennarar sem ættaðir voru frá Norðurlandi sem kenndu nemendum sínum í húsmæðraskólum landsins að gera laufabrauð eftir aldamótin. Einnig breiddist hefðin út með fólksflutningum milli landshluta og var iðkuð á heimilum þar sem Norðlendingar bjuggu. Með tímanum breiddist hefðin út og þekkist hún nú um allt landið, sem skemmtilegur jólaundirbúningur fjölskyldna og ætta.

Fyrir tæplega hundrað árum síðan voru einhverjir hræddir um að laufabrauðsgerðin væri deyjandi hefð. Það reyndust óþarfa áhyggjur því hefðin lifir góðu lífi í dag þó margt hafi breyst með tímanum. Áður fyrr þegar fleiri bjuggu á hverjum bæ var öllum húsverkum slegið á frest þann dag sem laufabrauðsdagurinn var hafður. Mikil vinna felst í að gera laufabrauðið frá grunni. Í dag kaupa flestir tilbúnar kökur frá bakaríum, skera þær út með fjölskyldunni og steikja svo sjálfir. Þetta er á laugar- eða sunnudegi og oftast aðeins hálfur dagurinn sem fer í verkið, sumir tengja þetta við aðrar hefðir sem þeir gera alltaf sama dag. Laufabrauðsjárnið gerir útskurðinn einnig fljótlegri en að notast við hníf, en flestir nú til dags nota járn. Hefðin hefur því aðlagast nútímanum og mun líklega halda því áfram um ókomna tíð. Fólk er ekki tilbúið að sleppa hefðinni sem snýst í raun í grunninn um notalega samveru með aðstandendum, listsköpun og gómsæta matarmenningu. Einnig snýst þetta um að tilheyra hópnum og vinna saman að verkinu.

Það þekkja flestir ef ekki allir landsmenn laufabrauð, enda löngu orðið stór partur af jólahaldi Íslendinga. Þrátt fyrir það eru ekki allir sem gera laufabrauðið, það er helst til bundið við hefðir innan fjölskyldna og ætta. Þó það sé ekki algengt þá er hægt að byrja sjálfur því nóg er af upplýsingum, skref fyrir skref, hvernig skuli búa það til. Algengast er að fjölskyldur norðan heiða búi til laufabrauð þó svo það sé orðið útbreitt um land allt. Sumir kaupa tilbúið laufabrauð fyrir jólin, en þeir sem taka hefðina hvað alvarlegast senda heimagert laufabrauð í bauk til brottfluttra fjölskyldumeðlima, innanlands sem og utan.

Myndir og mynstur af laufabrauði þekkjast sem jólaskraut, til dæmis skraut á tré, á dúkum, svuntum og fleiru. Stór laufabrauð úr við prýða girðingar Jólagarðsins í Eyjafirði, svo dæmi sé nefnt. Laufabrauð kemur einnig fyrir í jólalögum, t.d. laginu Kósíheit par exelansmeð hljómsveitinni Baggalút. Ýmsar útfærslur af brauðinu hafa einnig verið gerðar og seldar í kjörbúðum landsins. Nýjasta dæmið um nútímalega útgáfu af laufabrauði í matargerð er svo pizza með hangikjöti og laufabrauði, á veitingastaðnum Shake&Pizza í Reykjavík. Fólki þykir gjarnan afar dýrmætt að eignast handmálaðan laufabrauðsdisk, oftar en ekki málaðan af eldri ættingja. Diskurinn er fyrir mörgum einn af uppáhalds efnislegu hlutum jólahaldsins.

Til fróðleiks og frekari upplýsingar má benda á eftirfarandi vefsíður og rit:

http://timarit.is/view_page_init.jsp?gegnirId=000543442

http://www.thjodminjasafn.is/jol/jolamatur/

http://islensk.is/hugmyndin

Árni Björnsson. (1993). Saga Daganna. Reykjavík: Almenna bókafélagið.

Árni Björnsson. (1963). Jól á Íslandi. (Gefið út í samvinnu við Sögufélagið). Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja H.f.

Elsa E. Guðjónsson. (1986). Um laufabrauð. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags, 83. árg, bls. 103-115.

Jóhannes Friðlaugsson. (1931). Laufabrauð. Hlín, 15. árgangur, bls. 44-51.

Myndasafn

Laufabrauðsdiskur. Handmálaður af Halldóru Guðmundsdóttur (1927-2018), gjöf handa Ásmundi Kristjánssyni barnabarni hennar. Myndina tók Dagný Davíðsdóttir.

Tilbúnar laufabrauðskökur kólna. Búið að skera úr ýmis mynstur, steikja og pressa. Myndina tók Jóhanna Bárðardóttir í Lundi II í Fnjóskadal, 10. september 2018.

Setið við útskurð í Lundi II í Fnjóskadal. Á myndinni sjást þrír ættliðir og eru meðlimir í fjórða ættlið að horfa á sjónvarpið bakvið. Bjarki Þór Guðnason, Kristbjörg Þóroddsdóttir, Margrét Þóroddsdóttir og Herdís Þórhallsdóttir. Myndina tók Jóhanna Bárðardóttir 10. nóvember 2018.