Sundlaugamenning á Íslandi

Tilnefning sundlaugamenningar á Íslandi til UNESCO

Undanfarna mánuði hefur verið unnið að skráningu á sundlaugamenningu á Íslandi inná vefinn Lifandi hefðir. Þann 28. október 2023 á alþjóðlegum degi sundsins var sú skráning sett á vefinn, hana má sjá hér:

Sundlaugamenning – Hefðin „að fara í sund“

 

Vefurinn Lifandi hefðir er yfirlitsskrá á Íslandi yfir óáþreifanlegan menningararf vegna aðildar að samingi UNESCO frá 2003 um varðveislu menningarerfða. Samningurinn öðlaðist gildi hér á landi 2006.  Vefnum er ætlað að vera vettvangur samfélaga og hópa til að miðla lifandi hefðum sem það hefur þekkingu á.

Menningarerfðir, lifandi hefðir, eru þær hefðir, siðir, handbragð, tjáning, þekking, færni og verkþekking sem við lærum af öðrum og oftast fer sú kennsla eða sá lærdómur fram utan opinberra stofnanna. Við lærum af einhverjum sem er okkur nákominn eða við þekkjum. Við köllum menningarerfðir óáþreifanlegan menningararf öðru nafni. Þær hefðir sem að við veljum að rækta og taka með okkur inní hversdaginn eða stunda við hátíðleg tækifæri eru okkur mikilvægar vegna þess að þær tengjast með einhverjum hætti sjálfsmynd okkar sem einstaklinga eða sem meðlims einhvers hóps t.d. fjölskyldu.

Sundlaugamenning á Íslandi er dæmi um hversdagsmenningu sem einnig er útbreidd hefð, sem margir á Íslandi stunda með einhverjum hætti í gegnum lífið en á ólíkum forsendum eftir ævitímabilum eða aðstæðum. Sundlaugahefðin gegnir misjöfnu hlutverki í lífi fólks og er ekki síst heillandi vegna þess hve fjölbreytt hún er en um leið einstaklingsbundin.

Nú hefur menningar-og viðskiptaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir,  tilnefnt sundlaugamenningu á Íslandi til UNESCO, á lista þeirra yfir óáþreifanlegan menningararf mannkyns. Umsóknin fór frá ráðuneytinu þann 25. mars.

Tilnefningin verður nú tekin til skoðunar hjá viðkomandi nefnd hjá UNESCO, það ferli tekur tölverðan tíma eða 18 mánuði.

Við viljum þakka innilega fyrir allan þann stuðning sem að verkefnið hefur fengið á undanförnum mánuðum. Það hefði aldrei verið hægt að klára verkefnið nema af því að svo margir lögðu því lið, sýndu stuðning sinn í verki og greiddu því leið.

Við viljum þakka þeim sem hafa tekið á móti okkur, öllum okkar góðu gestgjöfum um land allt sem leyfðu okkur að koma og segja frá og spjalla um sundlaugamenningu. Öllum þeim góðu gestum og sundlaugaunnendum, sem komu, lögðu fram sínar skoðanir og spurningar, álit og viðhorf og deildu minningum sínum um sundlaugamenningu færum við sérstakar þakkir.  Einnig viljum við þakka þeim sem hafa deilt með okkur sundlaugasögum sínum, sent okkur fallegar og eftirminnanlegar frásagnir af reynslu og viðhorfum gagnvart sundlaugamenningu. Innilegar þakkir fær starfsfólk Stofnunnar Árna Magnússonar og Þjóðminjasafns Íslands sem studdi við verkefnið í hvívetna. Þórdís Erla Ágústsdóttir, ljósmyndari fær innilegar þakkir fyrir sitt framlag. Reykjavíkurborg og starfsfólk hennar veitti ómetanlegan stuðning við tilnefninguna og við þökkum þeim innilega fyrir samstarfið. Forseta Íslands Guðna Th. Jóhannessyni og starfsfólki hans færum við sérstakar þakkir fyrir hlýhug og veittan stuðning. Sundsamband Íslands og Ungmennafélag Íslands fá þakkir fyrir  stuðning þeirra og framlag. Einnig viljum við þakka starfsmönnum menningar- og viðskiptaráðuneytisins sem lögðu sig fram við að aðstoða og leiðbeina. Og að lokum okkar dýpstu þakkir til allra þeirra sveitarfélaga, félagasamtaka, hópa og einstaklinga sem hafa stutt verkefnið, sent okkur sundlaugasögur sínar og stuðningsyfirlýsingar, spurt krefjandi spurninga og hvatt til dáða, takk fyrir! Þetta hefði ekki orðið að veruleika án ykkar.

Tilnefning hefða á yfirlitsskrá UNESCO um óáþreifanlegan menningararf mannkyns gefur hverri aðildarþjóð tækifæri til að rýna í sínar menningarerfðir. Hugsa um tilgang þeirra og hvaða merkingu þær hafa. Sundlaugamenning á Íslandi hefur ólíka merkingu fyrir þá sem hana stunda, þó eru viss lykilstef sem koma fram aftur og aftur þegar rætt er um hana t.d. samfélag, almannagæði, lýðheilsa, slökun, félagsleg heilsa, vellíðan og leikur. Tilnefning sem þessi gefur okkur tækifæri á að rýna í hvaða merkingu sundlaugamenningin hefur fyrir okkur. Vissar skyldur fylgja því að koma lifandi hefð alla leið inná yfirlitsskrá UNESCO, að við sem samfélag stöndum vel að varðveislu þessarrar lifandi hefðar til framtíðar.

Þú getur lesið þér til um samning UNESCO frá 2003 um varðveislu menningarerfða hér: https://unesco.is/wp-content/uploads/2019/12/SAMNINGUR-UM-VARÐVEISLU-MENNINGARERFÐA.pdf

Hér má finna á Facebook síðu verkefnisins.