Sundlaugamenning á Íslandi

Undirbúningur að tilnefningu sundlaugamenningar á Íslandi til UNESCO

Undanfarna mánuði hefur verið unnið að skráningu á sundlaugamenningu á Íslandi inná vefinn Lifandi hefðir. Þann 28. október á alþjóðlegum degi sundsins var sú skráning sett á vefinn, hana má sjá hér:

Sundlaugamenning á Íslandi – Hefðin „að fara í sund“

 

Vefurinn Lifandi hefðir er yfirlitsskrá á Íslandi yfir óáþreifanlegan menningararf vegna aðildar að samingi UNESCO frá 2003 um varðveislu menningarerfða. Samningurinn öðlaðist gildi hér á landi 2006.  Vefnum er ætlað að vera vettvangur samfélaga og hópa til að miðla lifandi hefðum sem það hefur þekkingu á.

Menningarerfðir, lifandi hefðir, eru þær hefðir, siðir, handbragð, tjáning, þekking, færni og verkþekking sem við lærum af öðrum og oftast fer sú kennsla eða sá lærdómur fram utan opinberra stofnanna. Við lærum af einhverjum sem er okkur nákominn eða við þekkjum. Við köllum menningarerfðir óáþreifanlegan menningararf öðru nafni. Þær hefðir sem að við veljum að rækta og taka með okkur inní hversdaginn eða stunda við hátíðleg tækifæri eru okkur mikilvægar vegna þess að þær tengjast með einhverjum hætti sjálfsmynd okkar sem einstaklinga eða sem meðlims einhvers hóps t.d. fjölskyldu.

Sundlaugamenning á Íslandi er dæmi um hversdagsmenningu sem einnig er útbreidd hefð, sem margir á Íslandi stunda með einhverjum hætti í gegnum lífið en á ólíkum forsendum eftir ævitímabilum eða aðstæðum. Sundlaugahefðin gegnir misjöfnu hlutverki í lífi fólks og er ekki síst heillandi vegna þess hve fjölbreytt hún er en um leið einstaklingsbundin.

Tilgangur þess að skrá sundlaugamenningu á Íslandi inná vefinn Lifandi hefðir er ekki síst að miðla upplýsingum um hefðina, skapa umræður og auka þekkingu á henni. Einnig er þetta fyrsta skrefið í undirbúningi að tilnefningu hefðarinnar til UNESCO, á lista yfir óáþreifanlegan menningararf mannkyns. Ísland hefur þegar tekið þátt í samnorrænni tilnefningu á smíði súðbyrtra báta en það var Hið íslenska vitafélag – Íslensk strandmenning sem hélt á því ferli. Fékk sú tilnefning samþykki. Næstu rökréttu skref eru að Ísland standi að eigin tilnefningu, í því felst heilmikill lærdómur fyrir þá sem að því ferli koma, bæði verður til þekking á umsóknarferlinu sjálfu hjá þeim sem að því koma en einnig skapar slík tilnefning umræður og vonandi aukna meðvitund um óáþreifanlegan menningararf, varðveislu hans og merkingu.

Nú fer fram undirbúningur fyrir tilnefningarferlið. Í því felst t.d. að fylla út viss gögn, safna vissum gögnum saman o.s.frv. Almenningur getur stutt við tilnefninguna með því að skila inn yfirlýsingu um stuðning við tilnefninguna, upplýsingar um það má lesa hér:

https://lifandihefdir.is/sundmenning-islendinga/studningur-vid-tilnefningu-sundlaugarmenningarinnar-a-islandi/

Einnig er hægt að koma á framfæri fyrirspurnum varðandi tilnefningarferlið til Sigurlaugar Dagsdóttur, verkefnisstjóra vefsins Lifandi hefðir á netfangið sigdag@hi.is

Hér má finna á Facebook síðu verkefnisins.