Sundlaugamenning – Hversdagsmenning

Langflestir Íslendingar alast upp við að fara reglulega í sund. Fólk stundar sundlaugar af ólíkum ástæðum en flestir líta á almenningslaugar sem hluta af grunnþjónustu sveitarfélaga og sem verðmæt almannagæði Sundlaugaferðir geta verið afþreying fjölskyldna, eða einstaklinga, sem fara í almenningslaugar á Íslandi í leit að hreyfingu, félagsskap, vellíðan og afslöppun eða skemmtilegum leik í lauginni. Sundferðir eru hluti af hversdagsmenningu Íslendinga og teljast sundlaugarnar vera almannarými þar sem hægt er að njóta félagsskapar og nærveru við fólk á meðan aðrir leita þangað eftir ró og næði.

 

Skráð:

28.10.2023

Skráð af:

Ritstjórn

Landfræðileg útbreiðsla:

Allt landið

Fjölbreytt upplifun

Hefðin að fara í sund er stunduð allan ársins hring en mismunandi er hve oft fólk fer í sund og í hvaða tilgangi. Sumir stunda sundlaugarnar á hverjum degi á meðan aðrir fara aðeins við viss tækifæri, t.d. á ferðalögum um landið eða til að njóta samveru með fjölskyldunni. Að fara í sund felur í sér að velja sundstað, taka saman viðeigandi búnað (svo sem sundfatnað og handklæði) og koma sér á staðinn. Greitt er fyrir aðgang og síðan haldið í skiptiklefann þar sem sundgestir afklæðast og geyma fatnað sinn og tösku í læstum skáp eða á snaga. Því næst fara sundgestir í sturtu, þvo líkama sinn og klæðast sundfötum. Foreldrar sjá um að börn fari að reglum sundstaðanna og víðast í sundlaugum eru skýrar leiðbeiningar á nokkrum tungumálum um hvernig þrífa skuli líkamann áður en haldið er á sundlaugarsvæðið. Fastagestir sundlauganna eiga sér sumir sinn stað í sundklefanum, þ.e. reyna að fá sama skápinn, sömu sturtuna, eða sama snaga í hvert sinn sem þeir heimsækja sinn reglulega sundstað.

Þegar komið er út á sundlaugarsvæðið eru ýmsir möguleikar í boði fyrir sundgesti. Margir sundstaðir á Íslandi bjóða uppá sundlaug til að synda í, leiksvæði fyrir börn í formi grunnra lítilla lauga og rennibrauta, heita potta og gufu til afslöppunar, kalda potta í heilsuskyni, en einnig svæði þar sem hægt er að setjast á bekki í sólinni. Sundlaugarnar eru ólíkar og bjóða uppá fjölbreytta upplifun fyrir sundgesti, allt eftir umhverfi og hönnun laugarinnar. Að lokinni dvöl sinni í sundlaugarrýminu halda gestir aftur inn í sturtuklefanna, afklæðast sundfötunum og þvo sér, þurrka sig og klæða sig. Síðan heldur hver sundgestur sína leið.

 

Frá sundvakningu til samveru og vellíðunar

Notkun náttúrulegra heitra lauga hefur alltaf verið hluti af veruleika þeirra sem búa hér á Íslandi. Fornar heimildir geta þess að fólk hafi farið til lauga að þvo sér, skemmta sér og til að njóta hitans. Þess er getið t.d. í Landnámu, Biskupasögum, Íslendingasögum og Sturlunga sögu að þar hafi fólk „farið til laugar” eða verið „í laugu” eða farið „að laugu”. Ekkert er vitað um hve útbreiddur siður þetta var né hvenær hann verður til. Frægust þessara gömlu lauga er Snorralaug í Reykholti en talið er að hún hafi verið hlaðin á 13. öld og er kennd við Snorra Sturluson, höfund Snorra Eddu.

Í Ferðasögu Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um ferðir þeirra um Ísland á árunum 1752-1757 koma fram lýsingar heitum laugum. Þeir Eggert og Bjarni telja laugarnar vera margar, jafnvel óteljandi. Eggert og Bjarni lýsa því að laugarnar hafi verið notaðar til heilsubótar, til að baða sig, til lækninga og þæginda, en einnig hafi fólk drukkið heitt vatnið vegna trúar á mátt þess. Á nokkrum stöðum á landinu má sjá merki um heitar laugar sem nú teljast fornminjar. Frá 19. öld má finna heimildir um að fólk hafi nýtt þær laugar sem hentuðu til sundkennslu þó það hafi ekki verið almennt.

Á fyrri hluta 20. aldar átti sér stað sundvakning hér á landi. Fór þá að bera á nýjum hugmyndum um líkamlega hreysti og þrifnað. Þessar hugmyndir áttu sinn þátt í að breyta viðhorfum Íslendinga til sundsins ásamt vaxandi skilningi á mikilvægi sunds varðandi björgun mannslífa. Í kringum aldamótin 1900 var aðeins einn af hverjum 200 Íslendingum syndur en fjöldi fólks drukknaði ár hvert bæði vegna starfa á sjó en einnig vegna slysa við ár og vötn. Á sama tíma fór þéttbýli að myndast víða um land við sjávarsíðuna og nauðsyn þess að kenna sund varð Íslendingum smám saman ljós vegna þeirrar áhættu sem fólst í sjósókn. Árið 1884 var sundfélag stofnað í Reykjavík í kringum sundkennslu í Laugarnesi en fyrsta steypta laugin var tekin í gagnið í Laugarnesinu árið 1908.

Nýjar hugmyndir um líkamann voru einnig að ryðja sér til rúms og átti Ungmennahreyfingin sinn þátt í því að innleiða þær í íslenskt samfélag. Ungmennahreyfingin lagði áherslu á jarðrækt, þjóðrækni, íþróttir og listir. Ungmennafélögin vildu efla og aga líkama félagsfólks og var sundkennsla þáttur í þeirri stefnu. Ungmennafélögin sem urðu til uppúr aldamótunum 1900 stóðu að byggingu lauga um land allt, þær voru margar hverjar reistar að mestu eða öllu leyti í sjálfboðavinnu en einnig fengust styrkir úr Íþróttasjóði. Þær laugar voru miðaðar að því að kenna félögum hreyfingarinnar sund en einnig börnum í nágrenni hverrar laugar. Þessar laugar voru margar hverjar við heitar uppsprettur og var heita vatnið nýtt til að hita laugarnar. Þar sem voru köld svæði fóru sundnámskeið fram í köldu vatni, ám, vötnum og tjörnum.

Árið 1925 heimilaði Alþingi sveitarfélögum að skylda unglinga á sundnámskeið en árið 1940 var sundskylda sett á um allt land en þá varð sundið að skyldunámsgrein í skólum. Áhersla var lögð á bringusund og baksund í sundkennslunni en einnig á helstu aðferðir við björgunarsund og endurlífgun við drukknun. Ólíkar aðstæður voru til sundkennslu þessi ár, kennslan fór fram á 56 sundstöðum um land allt en þeir voru mjög misjafnir, allt frá köldum tjörnum til myndarlegra bygginga líkt og Sundhallarinnar í Reykjavík sem opnaði dyrnar sínar árið 1937. Sundhöllin var fyrsta íþróttamannvirki hér á landi sem stóðst samanburð við álíka byggingar í nágrannalöndum Íslands. Á þessum fyrstu áratugum sundkennslu á íslandi var áherslan fyrst og fremst á hreysti, íþróttaiðkun og reglur í kringum sundferðir, þar sem nemendum var kennt að þvo sér og ástunda hreinlæti í hvívetna. Um miðja 20. öldina fóru viðhorf til sunds að breytast og laugar landsins tóku mið af því, meiri áhersla var lögð á samveruna í lauginni, leikinn, vellíðan og þægindi. Þegar Vesturbæjarlaugin opnaði árið 1961 komu heitu pottarnir til sögunnar í þeirri mynd sem flestir Íslendingar þekkja. Síðar áttu eftir að bætast við busllaugar fyrir börn, gufu- og eimböð, rennibrautir og nuddstútar. Eftir að baðlónin bættust við flóru íslenskra baðstaða mátti sjá enn frekari áherslu á vellíðan og notalegheit en þau eru eftirsóknarverðir ferðamannastaðir, bæði fyrir innlenda og erlenda ferðalanga.

 

Sundlaugin sem almannarými

Stór hluti fullorðinna á Íslandi stundar sund reglulega. Þátttaka barna í hefðinni er víða mikil enda sund skyldunámsgrein í grunnskólum. Íslendingar líta flestir á sundlaugar sem almannarými sem eiga að vera öllum opin, þar sem hver og einn kemur á sínum eigin forsendum. Flest sveitarfélög reka sundlaugar og er kostnaður við sundferðir almennings niðurgreiddur og oft fá ákveðnir hópar, t.d. eldri borgarar, frítt í sund. Flestir sundgestir temja sér vissar reglur í samskiptum við aðra en það mætti kalla hinar óskráðu reglur sundlauganna. Þó nekt sé hluti af sundlaugarupplifuninni sýnir fólk líkömum annarra virðingu, sundgestir reyna að halda réttri fjarlægð við aðra líkama, horfa á fólk í augnhæð og velja sér svæði í sundlaugarýminu til vissra athafna. Leikjum barna eru t.d. ætlaðir vissir staðir eins og busllaugar og rennibrautir en heitu pottarnir eru félagslegt rými þar sem margir sitja og ræða um allt á milli himins og jarðar eða njóta þess að vera í heitu vatninu og slaka á. Sólbekkir og grunnar laugar gefa fólki síðan tækifæri til að njóta sólarinnar. Flestir sundgestir læra hinar óskráðu reglur sundlauganna af veru sinni í laugunum, sumir allt frá unga aldri. Sundlaugarnar sjálfar eru til að synda í þó margar hafi ákveðna braut ætlaða busli og leikjum.

Sundlaugar á Íslandi eru um margt sérstakt almannarými þar sem ólíkir hópar hittast, allt frá eldri borgurum til barna og hver og einn hópur er talinn eiga jafnan rétt til að vera þar eins og hver annar. Samskipti, félagskapur og vellíðan eru oft þáttur í því að fólk sækir í sund. Veran í lauginni veitir bæði líkamlega og andlega upplifun, tilfinningu fyrir einveru en einnig samveru með öðrum í þessu upphitaða og sérstæða almannarými.

Hópar sem stunda saman sund eru hluti af sundlaugamenningu. Hópar eldri borgara sækja sundlaugar um allt land en þar er komið saman til hreyfingar og samveru. Börn koma eftir skóla með eða án forráðamanna (eftir 10 ára aldur) í leit að skemmtun og leik með öðrum börnum og fullorðnir koma saman í sundlauginni til að rækta vinskapinn og ástina, fara á stefnumót, sýna sig og sjá aðra, ræða lífið og tilveruna, og slaka á heitu vatninu eftir langan vinnudag. Margir stunda sundlaugarnar sem þátt í daglegri hreyfingu og synda sér til heilsubótar. Erlendir ferðamenn sækja einnig laugarnar heim og eru þátttakendur í þessu almannarými. Íslendingar telja þá sem sjálfsagða þátttakendur og flestir ferðamenn upplifa það sem jákvæða reynslu að fara í sund á Íslandi þó að krafan um nekt í sturtuklefum lauganna geti reynst ferðamönnum erfið. Því eru sumar sundlaugar farnar að bjóða uppá einkaklefa fyrir þá sem ekki telja sér fært að afklæðast fyrir framan aðra sundgesti.

 

Á eigin forsendum

Hefðin að fara í sund er stunduð um land allt eða þar sem almenningslaugar eru til staðar og opnar öllum. Um 120 almenningslaugar og baðstaðir eru á Íslandi og ástundun hefðarinnar er útbreidd. Ungbarnasund er í boði fyrir ungabörn og foreldra þeirra og víða er einnig í boði sundleikfimi fyrir eldri borgara. Grunnskólabörn eru í sundkennslu á sínum skólatíma. Íþróttafélög um land allt eru með sérstakar deildir tileinkaðar sundinu þar sem æfðar eru ólíkar keppnisgreinar sundsins. Langflestir sækja þó sund á sínum eigin forsendum, vegna hreyfingar, vellíðunar eða félagsskapar. Sumstaðar standa laugar opnar öllum sem þangað koma án endurgjalds (jafnvel allan sólarhringinn og án gæslu) en þessar laugar eru oft á tíðum með elstu laugum landsins og voru reistar af Ungmennafélögum á fyrri hluta 20. aldar. Þær endurspegla gamla tíma en eru um leið kærar Íslendingum sem áminning um það þrekvirki sem unnið var af forfeðrum og mæðrum þeirra við upphaf 20. aldar í kjölfar sundvakningarinnar.

 

Heimildir

Katrín Snorradóttir og Valdimar Tr. Hafstein (2023). Sund. Reykjavík: Mál og menning.

Katrín Dröfn Guðmundsdóttir (2017). Áhrif sundlauga: Líðan, upplifun, hegðun. Óbirt BA‒ritgerð: Háskóli Íslands, Félagsvísindasvið.

Ólafur Ingibergsson (2018). Baðhús og borgaralegt siðgæði: Félagslegar umbætur eða dulbúið vald? Óbirt BA‒ritgerð: Háskóli Íslands, Félagsvísindasvið.

Örn Daníel Jónsson, Ólafur Rastrick (2017). „Enjoying the outdoor pool in a cold climate“. Geotherm Energy, 5:2.

Örn Daníel Jónsson (2009). Geothermal living. Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Katrín Snorradóttir (2021). Læra, leika, njóta: Þróun og einkenni sundlaugamenningar. Óbirt MA‒ritgerð: Háskóli Íslands, Félagsvísindasvið.

Katrín Snorradóttir (2013). „Það er bara andlegt og líkamlegt meðal að fara í sund.“ Upplifun sundgesta af laugarferðum og samanburður á einka- og almenningslaugum. Óbirt BA‒ritgerð: Háskóli Íslands, Félagsvísindasvið.

Þjóðminjasafn Íslands, Þjóðháttasafn (2013). Þjóðhættir. Spurningaskrá 119. Sundlaugamenning á Íslandi