Um verkefnið

Á þessari vefsíðu gefst fólki kostur á að deila og miðla upplýsingum um lifandi hefðir. Þannig standa vonir til að á vefsíðuna safnist greinargóðar upplýsingar um þær fjölbreyttu hefðir sem stundaðar eru á Íslandi.

Með því að deila upplýsingum á síðunni skapast mikilvæg þekking á fjölbreyttri menningu sem fólk stundar en álítur oft hversdagslega. Þessi þekking verður ekki til nema með þátttöku fólks, þ.e. að það deili þekkingu sinni, og er þessi vefsíða vettvangur til þess.

Í starfsemi UNESCO hefur aukin þekking á ólíkum siðum og venjum fólks verið talin til þess fallin að auka gagnkvæma virðingu fyrir ólíkri menningu fólks. Samningur UNESCO frá árinu 2003 um varðveislu menningarerfða öðlaðist gildi á Íslandi árið 2006. Markmið samningsins er:

a) að varðveita menningarerfðir

b) að tryggja að menningarerfðir viðkomandi samfélaga, hópa og einstaklinga séu virtar,

c) að efla vitund, bæði á staðarvísu og á innlendum og alþjóðlegum vettvangi, um mikilvægi menningarerfða og tryggja að þær njóti gagnkvæmrar virðingar,

d) að koma á alþjóðlegri samvinnu og aðstoð.

Samningurinn fjallar um hvernig aðildarríki hans skulu stuðla að varðveislu óáþreifanlegs menningararfs á yfirráðasvæði sínu. Með varðveislu í skilningi samningsins er ekki átt við að frysta hefðir og staðla þær. Þvert á móti er með varðveislu átt við ráðstafanir sem ætlað er að tryggja að óáþreifanlegur menningararfur lifi áfram. Greining, skráning, rannsóknir, kynning, miðlun og fræðsla geta einmitt verið liður í ráðstöfunum til að tryggja að óáþreifanlegur menningararfur lifi áfram.

Með skráningum og upplýsingum á vefsíðunni er stuðlað að aukinni vitund um lifandi hefðir. Þannig eykst þekking um óáþreifanlegan menningararf og jafnframt skilningur og virðing fyrir menningu ólíkra hópa. Aukin þekking á lifandi hefðum getur orðið enn frekari grundvöllur til m.a. varðveislu eða annarra ráðstafana sem tryggja viðhald og viðgang óáþreifanlegs menningararfs.

Vonir standa til að vefsíðan muni auka við þekkingu á lifandi hefðum sem stundaðar eru á Íslandi og geti orðið grundvöllur að frekari vinnu við innleiðingu á samningi UNESCO frá árinu 2003 um varðveislu menningarerfða.