Í hverri viku eru haldnir fjölmargir saumaklúbbar víðsvegar um landið. Í saumaklúbbum koma konur saman, njóta samvista og veitinga, en allur gangur er á því hvort að hannyrðir séu stundaðar.

Skráð:

02.07.2019

Skráð af:

Íris Hlín Heiðarsdóttir / Guðný Nielsen

Landfræðileg útbreiðsla:

Allt landið

Um uppruna saumaklúbba á Íslandi er erfitt að fullyrða. Mögulega þróast saumaklúbbar útfrá hópum kvenna sem komu saman til að vinna að ákveðnum verkefnum, t.d. að vinna muni til sölu í góðgerðarskyni. Einhverjir rekja upphaf þeirra til handavinnukennslu stúlkna í skólum, þar sem stúlkur vöndust á að vinna skyldustykkin sín saman í hóp og komu oft saman utan skólatíma til að vinna heimavinnuna. Mögulega kemur heitið saumaklúbbur þaðan, þ.e.a.s. að upphaflega hafi konur hist á sameiginlegum vettvangi til að stunda handavinnu. Hvað sem líður uppruna saumaklúbba hafa þeir lifað góðu lífi hérlendis alla 20. öldina og gera enn. Klúbbar sambærilegir saumaklúbbum finnast einnig erlendis. T.d. er í Noregi talað um „syklubb“ og í Svíþjóð um „syförening“.

Í íslenskri orðabók segir að saumaklúbbur sé kvöldfundur vinkvenna sem hittast til að spjalla saman og njóta veitinga húsráðenda (upprunalega til að stunda hannyrðir). Algengast er að konur í saumaklúbbi hafi kynnst á sameiginlegum vettvangi, t.d. verið skólasystur eða æft saman íþrótt. Oft kenna klúbbarnir sig með einhverjum hætti við þann vettvang sem sameinaði þær í klúbbinn. Þannig bera margir saumaklúbbar skemmtileg nöfn.

Stærð klúbbanna er breytileg en algeng stærð er 6-12 konur. Algengast er að konur í saumaklúbbi hittist með reglulegu millibili að kvöldi til heima hjá hverri annarri. Samkoman er óformleg. Setið er og spjallað, og sumar kjósa að stunda handavinnu. Allur gangur er á því hvort að saumaklúbbar standi undir nafni, ef svo má segja. Þannig eru fjölmargir klúbbar sem við sauma eru kenndir þar sem engar hannyrðir eru stundaðar. Sumir klúbbar vilja alls ekki kenna sig við sauma.

Í saumaklúbbi eru oftast bornar fram veitingar. Upphaflega virðist sem helst hafi verið bornar fram kaffiveitingar, kökur, tertur, brauðréttir o.þ.h. Á seinni árum hefur færst í vöxt að borinn sé fram kvöldmatur og eftirréttur. Algengast er að gestgjafinn sjái um veitingarnar. Veitingar virðast vera stór partur af saumaklúbbamenningu. Þannig hafa bæði tímaritin Vikan og Gestgjafinn um árabil haldið úti árlegu „klúbbablaði“ sem er helgað saumaklúbbum og hentugum veitingum fyrir klúbbana. Oftar en ekki er talað um saumaklúbbsrétti sem þykja hentugir til að bera fram í saumaklúbbum. Ýmisr matarbloggarar merkja t.a.m. slíkar uppskriftir sem saumaklúbbsrétti.

Í saumaklúbbum myndast vinkonubönd. Dæmi eru til um saumaklúbba sem hafa verið starfandi í áratugi og sterk vináttubönd myndast. Í saumaklúbbum ræða konurnar málefni líðandi stundar sín á milli. Bæði persónuleg málefni sem og ópersónuleg eru rædd. Konurnar sækja oft stuðning hver til annarrar, ráðleggingar um uppeldi, starfsframa, matseld, hannyrðir og hvaðeina sem þeim liggur á hjarta hverju sinni.

Saumaklúbbar brjóta oft upp hefðbundna „kvöldfundi“ sína t.d. með því að hittast á veitingastað, fara saman í ferðalög, halda árshátíð eða gera sér einhvern annan dagamun. Slíkir viðburðir eiga enn frekar þátt í því að styrkja vináttuböndin og skapa sameiginlegar minningar hópsins.

Heimildir:

Anna Ólafsdóttir Björnsson. „Hið ósýnilega félagsnet kvenna“. Vera. 1. tbl. 8. árg. 1989, bls. 9-11.

Íris Hlín Heiðarsdóttir. „„Undir yfirskini hannyrða.“ Þróun saumaklúbba á Íslandi á 20. öld.“ Óbirt BA-ritgerð í þjóðfræði frá árinu 2014, aðgengileg á slóðinni: https://skemman.is/handle/1946/18547

Þórey Einarsdóttir. „Þar eru fyrst og fremst ofin vináttubönd“. Vera. 1. tbl. 8. árg. 1989, bls. 14-15.

Myndasafn

Hópur kvenna sem kynntist í námi í véla- og iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands í byrjun aldarinnar. Konurnar kalla klúbbinn Saumavélina. Mynd: GN.

Á kvöldfundum hjá Rýjunum eru stundaðar hannyrðir og veitingum í boði gestgjafa gerð góð skil. Mynd: HSH.

Kór-saumó í gönguferð. Konur sem kynntust í kór Öldutúnsskóla sem ungar stúlkur viðhalda vinskapnum í saumaklúbb. Mynd: EÞ.

Saumaklúbbur hjá bekkjarsystrum úr 6.S í Flataskóla árið 1991. F.v. Guðný Nielsen, Karitas Pálsdóttir, Auður Magnúsdóttir og Jóna Dóra Ásgeirsdóttir. Mynd: GN.