Í Bolungarvík er ár hvert haldið þorrablót. Þar bjóða konur mökum sínum til skemmtunar og blóts. Blótið skipar stóran sess í bæjarlífinu. Mikið er um dýrðir, en konurnar leggja mikinn metnað og vinnu í skipulag blótsins og skemmtiatriði.

Skráð:

01.04.2019

Skráð af:

Auður Hanna Ragnarsdóttir

Landfræðileg útbreiðsla:

Vestfirðir

Bolvíska þorrablótið var fyrst haldið í gamla samkomuhúsinu á fyrsta degi þorra árið1944 eða þann 21. janúar. Á blótinu voru milli 50 og 60 manns, konur í íslenska búningnum og karlar í dökkum jakkafötum.

Í Bolungarvík hafði verið starfræktur hjónaklúbbur um nokkurt skeið þegar konurnar ákváðu að halda þorrablót og bjóða til þess mökum sínum. Nokkrar konur tóku að sér fyrsta þorrablótið. Þær ákváðu að ganga í hús og bjóða til blótsins þeim konum sem giftar voru í Víkinni og þeirra mökum. Konur áttu að mæta í íslenska búningnum en karlar í dökkum jakkafötum og maturinn að vera í trogum þar sem tvö eða fleiri pör sameinuðust um trogin. Á ballinu var svo boðið upp á kaffi en fólk kom með bakkelsi fyrir sig og sína. Nefndarkonur fundu atriði sem þær settu upp til skemmtunar til að hafa á meðan borðhaldi stóð. Það voru ýmist söngur eða leikþættir.

Strax komust á ákveðnar hefðir á þorrablótið sem hafa haldið sér allt fram til dagsins í dag. Leikþættir og gamanvísur sungnar, fjöldasöngur undir borðhaldi og þakkir fluttar til nefndarkvenna.

Þakkirnar flytur einn karlanna úr gestahópnum og hefur sá sem þakkirnar flytur fengið annan til að tala á næsta blóti en mikil leynd hvílir á því hver talar á hverju blóti. Þegar ræðu karls er lokið standa karlarnir upp og syngja lagið „Fóstur landsins Freyja“ og konurnar svara til baka og syngja til karlanna sinna lagið „Táp og fjör.“

Fyrstu árin var boðið upp á kaffi á ballinu en því var hætt árið 1978. Í lok dagskrár er lesin upp næsta nefnd, en mikil leynd hvílir á því hvaða konur fá þann starfa. Frá upphafi hefur efsta konan á nefndarlista verið nefndarformaður þeirra nefndar.

En hvernig er valið í næstu nefnd? Þar er að ýmsu að hyggja þegar valið er í nefndina. Hvað er langt síðan konan var í síðustu nefnd, er þetta fyrsta nefndin, í hvaða trogi er konan og svo mætti lengi telja. Því reynt er að hafa ekki nema eina konu úr hverju trogi í nefnd í einu. Konur sem eru að fara í sína fyrstu nefnd mega eiga von á því að vera kjörnar eftir þrjú til sex ár á blóti en eftir það eru það svona sex til tíu ár á milli nefnda. Passað er upp á að það séu ekki fleiri en þrjár til fjórar nýjar í hverri nefnd svo verklag blótsins skili sér til þeirra. Þær reyndu kenna þeim óreyndari. Fljótlega eftir að farið var að halda þorrablótið var farið að halda skráningu um það hverjar fóru á blótið, konurnar skráðu sig í bók sem lá í verslunum nokkrum dögum fyrir blótið og nefndarkonur gátu þá séð hve margir kæmu á blótið og hvar hver átti að sitja í salnum. En margir hafa setið á sama stað í langan tíma, jafnvel frá því að þau byrjuðu að fara á blót.

Aðgagnseyrir á þorrablótið var borgaður eftir á í mörg ár. Þegar allir reikningar höfðu verið fram lagðir, var upphæðinni deilt á þorrablótsgesti og þeir rukkaðir. Fyrirkomulag blótsins hefur verið þannig að í aðdraganda blótsins hefur nefndin komið saman í desember árið á undan til að skoða hvað ætti að taka til sýninga á næsta blóti en seinna varð það þannig að skemmtiatriðum var snúið upp á samborgarana og þá var skoðað hvað var efst á baugi í samfélaginu okkar á árinu sem nýliðið var. Þegar það var komið á blað var byrjað að semja vísur eða leikþætti sem þykja með spaugilegra móti. Ýmist eru það nefndarkonur sem semja eða fengnir eru aðrir til að semja þær vísur eða leikþætti sem á að nota. Fyrstu árin var leitað að stuttum leikþáttum, til að setja upp, sem líka þóttu vera skemmtilegir og mátulega langir. Á blótinu 1961 var fléttað gamanvísum um hreppsnefndina inn í atriðin. Nokkrum árum síðar eða upp úr 1967 fór að örla á því að ýmsir góðborgara í bænum voru teknir fyrir og einnig ýmsir atburðir liðins árs sem þótti vert að taka á blótinu. Á þessum árum var sjónvarpið komið til sögunnar og skaupið að stíga sín fyrstu skref þannig að leiða má að því líkum að þegar sjónvarp allra landsmanna hóf að gera grín að samborgurunum og líðandi stund hafi nefndarkonur séð sér leik á borði og farið að gera það sama, eða var það öfugt? Síðustu árin hafa nefndarkonur eða þeir sem þær leita til samið megnið af því sem sýnt er á blótunum.

Allur janúarmánuður er svo undirlagður í undirbúning og æfingar og segja má að konurnar í nefndinni fari vart heim til sín á milli æfinga. Með þessu fyrirkomulagi má segja að konurnar í bænum kynnist á annan hátt og mörg vinkvennasambönd hafa orðið til. Á föstudegi fyrir blót er svo generalprufan. Nefndarkonur bjóða bæjarbúum að koma að sjá skemmtiatriðin sem taka á fyrir á blótinu og í lokin er fólk beðið um að segja ekki frá því sem þar kom fram.

Að hafa sig til fyrir blót er skemmtun mikil. Þær konur sem bjóða körlum sínum á blótið eru í trogfélagi við aðrar konur, en oftast eru tvö til fjögur pör í trogi. Í byrjun janúar myndast stemmning í bænum hjá þeim sem ætla sér að fara á blótið. Hvernig gengur að varka þorramatinn og hver á að koma með hvað í trogið. Trogfélagar hittast nokkrum dögum fyrir blót til að allir viti hver eigi að koma með hvaða mat og ekki má gleyma eftirréttinum. Einnig þarf að panta sér klippingu og litun í tíma því allar vilja jú líta vel út. Það er því í mörg horn að líta áður en farið er á blótið. Hjá flestum er ekki síðra að taka til matföngin í trogið eins og að hafa sig til fyrir blótið. Á blótsdaginn koma trogfélagar saman heima hjá einni til að setja í trogið og fara með það í Félagsheimilið.

Í hverju skyldi nefndin vera í dag? Jú, nefndarkonur klæðast í sérstaka búninga sem gefa fyrirheit um það sem koma skal um kvöldið. Þegar búið er að fara með trogið í Félagsheimilið er hægt að slappa af og þá er tilvalið fyrir hópinn að fara í sauna eða heita pottinn og þá er komin tími til að fara að hafa sig til. Trogfélagar hittast oft heima hjá einhverjum úr hópnum fyrir blótið. Konurnar hjálpast að, ef þarf að hjálpa einhverri, við að klára að klæða sig í íslenska búninginn, myndir eru oft teknar af hópnum og gleðin er við völd. Nú fer spennan að nálgast hámark, blótið fer að byrja.

Þegar komið er í Félagsheimilið tekur nefndin oftast á móti gestum og býður þá velkomna á blót. Vinir og ættingjar heilsast og eftirvæntingin lýsir úr hverju andliti. Stundvíslega klukkan átta lætur nefndin sig hverfa bakvið enda flestir komnir í hús. Átta núll fimm er tjaldið dregið frá og nefndin komin á svið. Oft byrjar nefndin að syngja lag sem samið hefur verið um það helsta sem gerðist í bænum á liðnu ári eða einhvern annan söng tengdum þorra. Nefndarformaður stígur þá fram og heldur smá tölu og biður einhvern í salnum að stjórna fjöldasöngnum og að því loknu býður hann öllum að gera svo vel, blótið er sett. Gestir taka nú til matar síns og skvaldur og hlátrasköll hljóma um salinn. Eftir þrjátíu mínútur eða svo, er fyrsta atriðið, leikþáttur eða söngur sem heimfærður hefur verið á ákveðna bæjarbúa og svona heldur blótið áfram. Blótsgestir borða á milli atriða og svo er sungið á milli í salnum. Ein skemmtileg hefð í söng er þegar karlar syngja Þorraþræl en konur syngja Upp á himins bláum boga. Þarna takast karlar og konur á í söng og hver syngur eins og hann getur.

Þegar líður að lokum blótsins og nefndarkonur eru komnar fram á íslenska búningnum þá eru nefndarkvennavísur sungnar. Eftir það stendur einn karl upp og talar til kvenna í salnum. Hann þakkar fyrir sig og aðra karla og biður svo karla að rísa á fætur og syngja Fóstur landsins Freyja. Þegar þeir hafa lokið söngnum biður nefndarformaður konur að rísa á fætur og syngja Táp og fjör til heiðurs körlum sínum. Þá er komið að hápunkti kvöldsins þegar formaður les upp næstu nefnd. Formaður þeirra nefndar kemur og tekur við keflinu og þakkar fyrir sína nefnd. Að því loknu er blótinu slitið og eiginmenn nefndarkvenna eru beðnir um hjálp við að ryðja salinn þ.e. færa borð og stóla úr salnum til að dansinn geti hafist. Dansinn hefst og dansað er fram á rauða nótt við ljúfa tóna vestfirskra tónlistarmanna. Enn einu stórkostlegu blóti er að ljúka.

Heimildir:

Auður Hanna Ragnarsdóttir. Bolvíska blótið. Dýrafirði: Vestfirska forlagið, 2018.

Myndasafn

Á blótinu er mikið lagt uppúr skemmtiatriðum.

Þorrablótsnefndin árið 2017.

Prúðbúnir gestir á blótinu árið 2017.

Leikþættir og önnur skemmtiatriði skipa stóran sess í skemmtuninni. Oftast eru það nefndarkonur sjálfar sem semja og leika leikþætti.

Eftir að formlegri dagskrá lýkur tekur dansinn við.

Þétt setið í félagsheimilinu.

Söngurinn er ómissandi hluti af skemmtuninni og vel tekið undir.

Þakkir fluttar til kvennanna.

Hér má sjá fjóra ættliði saman komna sem skemmtu sér á þorrablótinu árið 1987.