Sölvaskerið Hásteinar vestan Ölfusárósa fyrir landi Hrauns í Ölfusi

Hásteinar er sker fyrir utan Óseyrartanga rétt vestan við Ölfusárósa. Á skeri þessu hafa verið tínd söl um aldir.  Söl (Palmaria palmata) hafa verið nýtt til manneldis frá upphafi byggðar á landinu og finna má heimildir um sölvaneyslu m.a. í Egilssögu. Sölin festa sig á steina í skerjum og fjörum víða um land. Þau taka næringu í gegnum blöðin og vaxa helst á sumrin, eru ljós fyrrihluta sumars en dökkna með auknum vexti þegar líður á sumarið.

Frá skeri til fjöru

Sölvatekja hefur verið stunduð á Hrauni frá alda öðli. Farið er í sölvafjöru eins og sölvatínslan er kölluð seinnipart sumars þegar saman fer stórstreymisfjara og brimleysi. Sölvatínslan fer þannig fram að farið er á bátum út í skerið og þá er tekið til við að reyta sölin af sæbörðum steinum skersins og þau sett í poka meðan á fjörunni stendur, en oftasr er ekki hægt að týna nema 2.5 – 3 tíma. Sölin eru  í skjóli við steina í skerinu og oftast mest af þeim við fjöruborð stórstraumsfjörunnar. Í lok tínslunnar er sölvapokum safnað saman í bátana og og siglt undan flóðinu í land.  Eftir tínslu eru sölin flutt úr fjörunni og þurrkuð á klöppum rétt vestan Ölfusár ef veður leyfir, en sé tíðarfar óhagstætt eru þau vélþurrkuð. Blaut söl geymast illa og skemmast ef þau eru ekki þurrkuð fljótlega.

Matur og hollusta

Í upphafi voru sölin höfð til matar heima fyrir og í skiptum fyrir önnur nyt sem ekki voru fyrir hendi á Hrauni. Algengt var að jarðir án sölvafjöru ættu ítök í sölvafjörum. Bændur inn til landsins sóttu oft um langan veg til að kaupa söl, oft í vöruskiptum.

Neysla á sölvum hefur verið að aukast síðustu árin eftir verulegan samdrátt um miðbik síðustu aldar. Samdrátturinn var reyndar svo mikill um tíma að neyslan lagðist nánast alveg af. Áhugi fyrir þeim hefur svo vaknað aftur síðustu áratugina vegna vaxandi áhuga fólks á hollum og ómenguðum náttúruafurðum.

Í dag er söl aðallega borðuð sem snakk og notuð í ýmiskonar matargerð, brauðbakstur, marineringu, o.fl.

Árni Magnússon og Páll Vídalín (um 1700), telja að 270 lögbýli hafi einhverja sölvatekju. Í Íslenskum sjávarháttum greinir Lúðvík Kristjánsson frá því að um 1800 hafi árlega fengist 721 vætt af þurrsölvum í Árnessýslu (29.000 kg) og að verðmæti þeirra hafi samsvarað 56 kýrverðum, en sölvasvæðin í Árnessýslu komu næst á eftir Saurbæjarfjöru í Breiðafirði að stærð.

Myndasafn

Tínsla á sölvum

Tínsla

Frá sölvatínslu

Pökkun í geymslusekki

Flutningur á fólki og sölvum í land

Bóndinn Sigríður að bera í land.

Söl þurrkuð í sól