Víða um land eru starfandi hlaupahópar þar sem fólk kemur saman á tilteknum tíma nokkrum sinnum í viku og hleypur saman sér til heilsubótar og skemmtunar.

 

Skráð:

09.10.2018

Skráð af:

Vilhelmína Jónsdóttir

Landfræðileg útbreiðsla:

Allt landið

Fjölmargir stunda reglulega útihlaup sér til heilsubótar og ánægju. Margir kjósa að hlaupa í félagsskap með öðru fólki á vettvangi hlaupahópa. Um er að ræða s.k. almenningshlaupahópa þar sem ástundun heilbrigðrar hreyfingar og samfélags er iðkað. Þessir hópar eru ýmist kenndir við hlaup, skokk eða trimm.

Margir sem stunda hlaup í hlaupahópum er afreksfólk í íþróttum eða á að baki feril í afreksíþróttum en aðrir hafa engan bakgrunn í íþróttum. Að jafnaði er markmið flestra hlaupahópa samfélag um reglulega hlaupaiðkun umfram kapp. Félagar í hlaupahópum eru af öllum kynjum og á öllum aldri (þó ekki börn), með ólíkan bakgrunn og þjóðfélagsstöðu en eiga það sameiginlegt að vilja koma saman og hlaupa í félagsskap fólks. Hlaupahópar eru misfjölmennir, allt frá fáum einstaklingum upp í fleiri tugi félaga í hópnum.

Hlaupahópar eru starfræktir víða um land. Margir af þeim hafa orðið til í tengslum við starfandi íþróttafélög en einnig hafa þeir orðið til á öðrum vettvangi. Hlaupahópar geta bæði verið formleg félagasamtök þar sem kosin er stjórn og greitt félagsgjald (sem m.a. stendur straum af launakostnaði þjálfara) eða óformlegri félagsskapur.

Margir hlaupahópar hafa á að skipa þjálfara sem stýrir æfingum og setur upp æfingaplön. Slík æfingaplön miða oft að mögulegri þátttöku hlaupafélaga í almenningshlaupum. Þegar ekki er þjálfari í hlaupahóp getur einn félagi í hópnum stýrt æfingu eða að félagar skiptast á að stýra æfingum.

Hlaupahópar stunda vanalega sínar reglulegu æfingar í sinni heimabyggð, þ.e. á stígum í borgar- eða bæjarlandinu. Margir hlaupahópar stunda einnig, til tilbreytingar eða að staðaldri, s.k. utanvegahlaup eða náttúruhlaup þar sem hlaupið er um stíga eða troðninga í náttúrunni.

Þó að tilgangur hlaupahópa sé iðkun hlaupaíþróttarinnar þá er félagsleg samvera ekki síður mikilvægur þáttur í starfsemi hlaupahópa og stór þáttur í því hvers vegna hlaupahópar njóta vinsælda hjá fólki. Í hlaupahópi á fólk möguleika á því að finna sér félaga (einn eða fleiri) sem eru af svipuðu getustigi til að hlaupa með. Þannig eiga hlaupafélagar samfélag við annað fólk á meðan það iðkar hlaupin sér til heilsubótar. Þetta samfélag leiðir í mörgum tilfellum til þess að á vettvangi margra hlaupahópa er jafnframt stunduð annars konar félagsleg samskipti, eins og t.d. skipulögð þátttaka í almenningshlaupum hérlendis eða erlendis, árshátíðir o.fl.

Þátttaka í skipulögðum almenningshlaupum og keppnishlaupum er nátengd starfsemi hlaupahópa. Þannig setja félagar sér oft markmið í tengslum við hlaupaiðkunina sem felur í sér þátttöku í ákveðnu almenninshlaupi. Miðast þá æfingar og æfingaákefð hlaupafélaga við að ná sem bestum árangri í viðkomandi almenningshlaupi, þó aðrir kjósi að líta framhjá íþróttalegum árangri og hafi önnur markmið með iðkun sinni.

Til að stunda hlaup í hlaupahóp þarf ekki sérstakan útbúnað annan en þægilegan klæðnað sem hentar til útiveru og íþróttaiðkunnar. Flestir telja að góðir hlaupaskór séu ómissandi við hlaupaiðkun. Margir hlauparar kjósa að klæðast litríkum og áberandi fatnaði þegar þeir fara út að hlaupa. Þetta er oftar en ekki gert í öryggisskyni, þ.e. til að vekja frekar athygli akandi umferðar og annarra vegfarenda. Þetta er ekki hvað síst mikilvægt í skammdeginu. Margir kjósa að klæðast fatnaði með endurskini. Margir hlauparar notast við hlaupaúr sem mæla hraða og vegalengd eða nota snjallsíma til hins sama. Á veturna setja margir gorma eða nagla undir hlaupaskóna til að varast hálku.

Hlaup í hlaupahóp eru stunduð utandyra allan ársins hring. Hlaupafélagar klæða sig eftir veðri og aðlaga hlaupaleiðir að aðstæðum. Það þekkist að hlaupahópar stundi hluta af skipulögðum æfingum innandyra í frjálsíþróttahúsum yfir vetrartímann.

Hlaupahópar starfa víða um land og eru ýmist formleg félagasamtök eða hópur án formlegs skipulags. Á vefsíðunni hlaup.is er (27. júní 2018) að finna eftirfarandi lista yfir starfandi hlaupahópa á Íslandi en þó má gera ráð fyrir því að listinn sé ekki tæmandi og að ýmsir hópar séu starfræktir sem ekki hafa ratað á þennan lista. Litinn sýnir þó vel hversu útbreidd iðkun hlaupa í hópi er.

Akranes – Skagaskokkarar

Akureyri – UFA Eyrarskokk

Álftanes – Skokkhópur Álftanes

Borgarnes – Hlaupahópurinn Flandri

Dalvík – Skokkhópurinn ÓÓÓ

Egilsstaðir – Hlaupahérarnir

Garðabær – Hlaupahópur Stjörnunnar

Grindavík – Skokkhópurinn Eldvörp

Hafnarfjörður – Hlaupahópur FH

Hafnarfjörður – Skokkhópur Hauka

Húsavík – Hlaupahópurinn Skokki

Hveragerði – Skokkhópur Hamars

Ísafjörður – Riddarar Rósu

Kópavogur – Hlaupahópur Breiðabliks

Kópavogur – Hlaupahópur HK

Kópavogur – Snælandsskokkhópurinn

Mosfellsbær – Mosóskokk

Norðfjörður – Skokkhópurinn Hlaupið í skarðið

Reykjavík – Árbæjarskokk

Reykjavík – Hádegisskokk frá Grafarvogslaug

Reykjavík – Hlaupahópur Ármanns

Reykjavík – Hlaupahópur Fjölnis Grafarvogi

Reykjavík – ÍR-skokk

Reykjavík – KR-skokk

Reykjavík – Laugaskokk

Reykjavík – Mikkeller Running Club Reykjavík

Reykjavík – Skokkhópur Fram, Grafarholti

Reykjavík – Skokkhópur Víkings

Reykjavík – Skokkklúbbur Icelandair

Reykjavík – Valur Skokk

Reykjavík – Vesturbæjarhópurinn/Hlaupasamtök Lýðveldisins

Reykjavík – Vinir Gullu

Reykjavík – ÖL hópurinn

Sauðárkrókur – Skokkhópur Sauðárkróks

Selfoss – Frískir Flóamenn

Seltjarnarnes – Trimmklúbbur Seltjarnarness (TKS)

Suðurland – Skokkhópur Úthlíðar

Vopnafjörður – Skokkhópurinn Drekinn

Myndasafn

Ljósmynd: Gísli Guðmundsson.

Ljósmynd: Guðni Gíslason.

Ljósmynd: Gísli Guðmundsson.