Landið býr yfir ýmsum gæðum sem hafa í gegnum tíðina skipt fólk máli eða verið því til ánægju. Bústin bláber, krækiber eða hrútaber eru kærkomin tilbreyting í mataræði fólks og ómissandi hjá mörgum að komast í berjamó að hausti.

Landið býr yfir ýmsum gæðum, m.a. nokkrum tegundum að berjalyngi. Berin hafa í gegnum tíðina m.a. verið nýtt til átu, lækninga og litunar. Eftir sumarið eru berin vanalega orðin fullþroskuð og tilbúin til átu. Þá eru margir sem nýta tækifærið og fara til berja, eða í berjamó, og nýta svo afraksturinn með einhverjum hætti. Algengast er að í berjamó tíni fólk bláber, aðalbláber, krækiber og hrútaber.

Bláberjalyng (Vaccinium uliginosum) er mjög algent um allt land, frá láglendi og upp í 800 m hæð. Það vex í lyngmóum og hlíðum, bollum og stundum á mýraþúfum. Berin þykja ljúffeng og er mjög algengt að þau séu nýtt, bæði fersk og í saft og sultu.

Aðalbláberjalyng (Vaccinium myrtillus) er algengt þar sem örugg snjóalög hlífa á vetrum. Lyngið finnst í hlíðarbollum, mólendi og kjarri á svæðum sem eru almennt snjóþung. Í snjóléttari svæðum finnst aðalbláberjalyngið venjulega ekki á láglendi en er þá oft í snjódældadrögum ofar í hlíðum. Aðalbláberjalyngið líkist helst bláberjalyngi en þekkist best á hinum grænu, hvassstrendu greinum og tenntu blöðum en einnig á lögun blómanna.

Krækilyng (Empetrum nigrum) er ein af algengari jurtum landsins og finnst um nær allt land. Það vex fremur á berangri en á skjólríkum stöðum.

Hrútaber (Rubus saxatilis) er algengt á láglendi um allt land og vex í frjósömum brekkum og bollum, sem og í skógarbotnum. Berin eru góð til átu, jafnt fersk sem í sultu.

Í dag fer fólk almennt ekki til berja af nauðsyn heldur sér til skemmtunar og afþreygingar. Að fara í berjamó er skemmtileg samvera og margar fjölskyldur njóta þess að fara saman í berjamó á haustin. Mörgum finnst ómissandi að komast í góðan berjamó og tína ber til eigin nota.

Þegar haldið er í berjamó þarf að klæða sig eftir veðri. Ekki er verra að hafa með sér kaffibrúsa og nesti því fátt er notalegra en að hressa sig við úti í móa við hlið vænnar berjaþúfu. Þá er líka vissara að vita hvert skal halda. Eins og að framan greinir eru bláberjalyng og krækiberjalyng algeng um allt land. Því ætti ekki að þurfa að leita lengi til að finna svæði þar sem hentugt er að tína ber. Margir eiga sér sína uppáhalds berjatínslustaði eða berjalönd sem þeir sækja ár eftir ár. Sumir eru svo metnaðarfullir í berjatínslunni að þeir neita að greina öðrum frá góðum berjalöndum. Þegar haldið er í berjamó þarf að hafa í huga að almenningi er heimil för um óræktað land og heimilt að tína ber. Almenningi er einnig heimil berjatínsla á afréttum og þjóðlendum. Ef ætlunin er að tína ber í miklu magni á eignarlandi skal fá leyfi landeiganda.

Í berjamó er nauðsynlegt er að hafa hentug ílát til að safna berjunum. Plastbox með víðu opi eru létt og þægileg meðferðar. Það fer eftir metnaði og markmið hvers og eins hversu stór ílátin þurfa að vera. Gott er að hafa lítið hentugt ílát við hendina, tína í það og þegar það er fullt safna afrakstrinum í stærra ílát, en halda svo áfram að nota minna ílátið. Best er að hafa sérstakt ílát fyrir hverja berjategund sem fólk ætlar sér að tína. Stórtækt berjatínslufólk vill sumt nota berjatínur sem fá má í ýmsum verslunum. Slík verkfæri auka vissulega afköstin. Öðrum finnst betra að handtína berin.

Þegar heim er komið þarf að meðhöndla berin. Ber geta geymst í nokkra daga í ískáp eða kaldri geymslu. Sé ætlunin að geyma þau lengur þarf að gera sérstakar ráðstafanir, t.d. með því að hreinsa þau og frysta.

Margir hreinsa ber og frysta í litlum skömmtum. Nota svo berin út á grauta, í þeytinga, eftirrétti o.s.frv.

Ber eru tilvalin til sultugerðar. Þá eru berin hreinsuð strax eftir að þau eru týnd.

Margir búa einnig til saft úr berjum sem þeir tína. Saftina má t.d. nota út á grauta eða eftirrétti. Áhugafólk bruggar einnig krækiberjavín.

Í matreiðslubókum og á uppskriftavefjum má finna fjöldann allan af uppskriftum þar sem ber eru notuð. Möguleikar til að nýta ber við matargerð eru óteljandi en margir eiga uppáhaldsuppskriftir.

Heimildir og frekari upplýsingar:

Sjá upplýsingar um berjalyng eftir Hörð Kristinsson á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands:

https://www.ni.is

Sjá upplýsingar um almannarétt á vef Umhverfisstofnunar:

https://www.ust.is/nattura/nattura-islands/almannarettur/

Sjá upplýsingar um meðhöndlun berja á vef Leiðbeiningastöðvar heimilanna:

https://www.leidbeiningastod.is/leidbeiningar-og-rad/item/berjatidh?category_id=60

 

Myndasafn

Krækiber. Mynd: VJ.

Hrútaber eru ljúffeng. Mynd: VJ.

Eru bláber með rjóma fæða guðanna? Sumir telja svo vera. Ekki amaleg laun í lok dags að loknum góðum berjamó. Mynd: VJ.

Í berjamó með ílát fyrir annars vegar bláber og hins vegar hrútaber. Mynd: VJ.