Að syngja eða raula barnagælur og vögguvísu fyrir börn er enn í dag hluti af hversdagshefðum margra. Barnagælur og vögguvísur eru oftast sungnar eða raulaðar inni á heimili, oft í því augnamiði að hafa ofan af fyrir, róa eða svæfa börn. Margar slíkar vísurnar og gælur hafa varðveist í munnlegri geymd en þeim hefur verið safnað og þær skráðar í seinni tíð.

Skráð:

08.11.2018

Skráð af:

Birna G. Hjaltadóttir

Landfræðileg útbreiðsla:

Allt landið

Barnagælu hefur verið lýst sem stakri vísu, þulu eða kvæði, sem er mælt fram, rauðlað eða kveðið við barn til að hafa ofan af fyrir því eða til að róa það og svæfa. Kveðskapurinn er fjölbreyttur og honum hefur verið miðlað á milli kynslóða. Vísurnar og gælurnar hafa tekið breytingum í meðförum mismunandi kvæðamanna sem og á mismunandi tímum og í ólíkum aðstæðum. Barnagælur og vögguvísur eru oftast tengdar samatíma sínum og því umhverfi sem þær urðu til í og hafa þannig aðlagast samtíma sínum hverju sinni. Þar sem kvæðin og vísurnar hafa varðveist í munnlegri geymdi er oft ekki hægt að rekja þær til sérstaks höfundar eða að finna uppruna textans. Sem dæmi má nefna vísur um að róa til fiskjar og þá notaðar hreyfingar og róið með barnið eða börnin vöruð við hættum og þá sungnar vísur um Grýlu eða bola.

Megintilgangur vögguvísna er að svæfa barn. Vögguvísur geta þó án efa m.a. átt þátt í því að þroska málfærni og efla samskiptahæfni barns. Vögguvísur eru sönglaðar lágvært og í einfaldri tóntegund. Líkamshreyfingar eru einnig oft notaðar, svo sem vaggað eða róið í hægum takti. Almennt finnst ungum börnum gott og róandi að láta rugga sér sem og gaman þegar þeim er hossað. Textinn í vögguvísum er yfirleitt tekinn úr umhverfi barnsins sem það þekkir vel og fjallar t.d. um foreldra, systkini, dýr, fugla og blóm. Að raula vögguvísu fyrir barn á sér vanalega stað inni á heimilinu og þá einkum við  rúm eða rúmstæði barnsins. Oftast voru það mæður, ömmur eða fóstrur sem sungu vögguvísur fyrir börnin, þótt til séu undantekningar á því. Í dag má leiða að því líkur að jafnt mæður, feður sem og aðrir uppalendur sem svæfa börn rauli fyrir þau vögguvísur.

Fyrstu rituðu íslensku heimildirnar um vöggukvæði eru frá því um aldamótin 1600. Meðal elstu skráðra vögguvísna í íslenskum ritum er vöggukvæðið eftir séra Einar Sigurðsson í Heydölum (1538-1626) „Nóttin var sú ágæt ein“, þar sem viðlagið er „með vísnasöng ég vögguna þína hræri“. Þetta vöggukvæði er enn þann dag í dag sungið á Íslandi og þá yfirleitt sem jólalag.

Til að fræðast meira um barnagælur og vögguvísur má benda á eftirfarandi rit:

Bjarni Þorsteinsson. Íslensk þjóðlög. Safn séra Bjarna Þorsteinssonar. Siglufjörður: Siglufjarðarprentsmiðja H.F, 1906-1909.

Helga Gunnarsdóttir og Ragnheiður Gestsdóttir. Fljúga hvítu fiðrildin. Söngbók barnanna. Reykjavík: Mál og Menning, 1986.

Jón Árnason og Ólafur Davíðsson. Barnagælur og barnavísur. Í Íslenskar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur. I-IV. Kaupmannahöfn: Hið íslenska bókmenntafélag, 1887-1903.

Samsonarson. Barnagæla. Í Hugtök og heiti í bókmenntafræði. Ritstj. Jakob Benediktsson. Reykjavík: Mál og Menning, 1983.

Jón Samsonarson. Ljóðmál. Fornir þjóðlífsþættir. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar, 2002.

Rósa Þorsteinsdóttir. Einu sinni átti ég gott. Reykjavík: Smekkleysa SM ehf og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, 2006.

Símon Jóh. Ágústsson. Vísnabókin.Reykjavík: Hlaðbúð., 1946.

Myndasafn

Margar bækur með vögguvísum og barnagælum hafa verið gefnar út í gegnum tíðina.