Á hverju sumri leggja tugir fjölskyldna land undir fót, pakka grillmat og útilegufatnaði, festa tjaldvagninn aftan í bílinn og halda á ættarmót einhvers staðar á landinu. Á ættarmótum koma stórfjölskyldur saman til að mynda og styrkja tengsl og skemmta sér.

Skráð:

12.08.2019

Skráð af:

Ingunn Jónsdóttir

Landfræðileg útbreiðsla:

Allt landið

Segja má að ættarmótahefðin hafi orðið til í kjölfar þéttbýlismyndunar hérlendis á 20. öld. Við upphaf 20. aldar bjuggu 80% landsmanna í sveitum, en um 1960 höfðu tveir af hverjum fimm sest að í höfuðborginni. Í hugum nýju borgarbúanna toguðust á tveir heimar, heimur sveitarinnar og heimur borgarinnar. Á þessum tíma voru mörg áttahagafélög stofnuð og ættir gáfu út ættartöl. Nýju borgarbúarnir fundu hjá sér þörf um að halda tengslum við heimahagana. Í kjölfar þessara samfélagsbreytinga mótaðist ættarmótahefðin. Saga ættarmóta hérlendis er ekki löng eða rúm fimmtíu ár, þó finna megi eldri dæmi.

Í frétt í Morgunblaðinu frá árinu 1989 er umfjöllun um ættarmót Uppsalaættarinnar. Uppsalaætt er ætt Ingibjargar Ástu og Jóns Jónssonar frá Uppsölum í Öngulsstaðahreppi í Eyjafirði. Sumarið 1989 hélt ættin sitt fimmtugasta ættarmót en mótin hafa verið haldin frá árinu 1939. Hafði ættin því haldið ættarmót óslitið í hálfa öld. Ekki er ólíklegt að þetta sé elsta dæmið um ættarmót sem finna má í fjölmiðlum.

Árlega eru mörg ættarmót haldin víða um land. Á hverju sumri halda fjölskyldur úr öllum landshlutum ættarmót. Upprunasveit fjölskyldunnar virðist ekki alfarið ráða vali á staðsetningu. Fjarlægðir milli landshorna virðist einnig skipta máli og að laða sem flesta að. Vinsælir staðir fyrir ættarmót eru meðal annars Laugar í Sælingsdal og Laugarbakki í Húnavatnssýslu, líklegast vegna þess að þessir staðir eru miðja vegu milli höfuðborgarsvæðis og ýmissa landshluta.

Ættarmótsnefndir eru skipaðar af fjölskyldumeðlimum. Slíkar nefndir eru vanalega skipaðar við lok ættarmóts til að sjá um skipulag og dagskrá þess næsta. Hvert og eitt ættarmót er með sínu sniði þó að vissulega séu sameiginlegir þættir með mótunum. Algengt er að ættarmót séu haldin yfir helgi. Mótin eru sett og þeim slitið með óformlegum hætti af ættarmótsnefnd. Kvöldvaka er iðulega haldin á laugardagskvöldi. Öll ættarmót hafa mismunandi þýðingarmiklar og fastmótaðar hefðir. Á meðan ættarmót stendur yfir er fortíð fjölskyldunnar í brennidepli og fólk er saman komið til að heiðra ættina og styrkja fjölskylduböndin.Frásagnir af forfeðrum, fjölskyldumeðlimum, heimasveit, sameiginlegum upplifunum og af öðrum ættarmótum eru áberandi. Gera má ráð fyrir að frásagnir eins og þessar endurspegli þörf fjölskyldunnar til að rækta sameiginlegan uppruna, sögu og minningar, jafnvel þótt fólkið eigi lítið annað sameiginlegt.

Fjölskyldur nota ýmsar leiðir til að sameina hópinn meðan á ættarmóti stendur, t.d. með myndrænu ættartréi eða ættarskrá og sumir aðgreina mismunandi ættleggi með lituðum nafnspjöldum. Þá er ýmislegt gert til skemmtunar en þátttakendur fara t.d. í leiki, spila á spil, syngja saman, kveðast á og heiðra forfeður með einhverjum hætti. Brennur virðast einnig mikilvægur þáttur í dagskrá ættarmóta. Þannig er leitast við að allir geti átt skemmtilega stund saman á ættarmótinu og farið heim með góðar minningar í farteskinu.

Íslensk borgarmenning er ung en uppruni og veruleiki sveitarinnar er enn til staðar jafnvel þótt flestir búi í þéttbýli. Miðað við önnur lönd í kringum okkur er tiltölulega stutt síðan Íslendingar yfirgáfu sveitina og fluttu á mölina. Þetta er líklega ástæðan fyrir vinsældum ættarmóta. Ættarmót eru góð vísbending um þörf landsmanna til að viðhalda tengslum við heimasveit og hópinn sinn, því án tengsla er enginn hópur. Hvað gerist í framtíðinni er ekki auðvelt að segja til um. Ættarmót gætu lagst af því fjær sem ættliðir færast sveitinni eða að ættarmótahefðin sé komin til að vera.

Heimildir:

Iðunn Jónsdóttir, „Maður fer í vinnupartý með vinnunni, bekkjarpartý með bekknum, af hverju ekki að halda partý með fjölskyldunni sinni?“ Rannsókn á ættarmótum. BA-ritgerð í þjóðfræði við Háskóla Íslands 2015, http://hdl.handle.net/1946/21676

Uppsalaætt hefur haldið ættarmót í hálfa öld. Morgunblaðið, 5. júlí 1989, bls. 26.

Myndasafn

Tjaldgestir á ættarmóti árið 2011. Mynd: SGJ

Tjaldað á ættarmóti árið 2010. Mynd: SGJ.

Ungmenni leika sér á ættarmóti sumarið 2019. Mynd: GS.

Hópur af afkomendum Sigurðar Björnssonar og Magneu Herborgar Jónsdóttur frá Sauðhaga gerir sig kláran fyrir myndatöku á ættarmóti árið 2013. Mynd: VJ.