Brauðtertur hafa lengi átt fastan sess á veisluborði Íslendinga og mörgum þykja fagurlega skreyttar tertur, sem samanstanda af langskornu brauði með ljúffengu eggja- og majónessalati á milli, vera ómissandi í veisluna.

Skráð:

15.06.2020

Skráð af:

Andrea Diljá Edvinsdóttir

Landfræðileg útbreiðsla:

Allt landið

Flestir landsmenn þekkja og hafa bragðað, og jafnvel matreitt, brauðtertur en þær hafa notið vinsælda hér á landi í um 70 ár. Samkvæmt heimildarmönnum þjóðháttasafns Þjóðminjasafns Íslands (ÞÞ, 1996) tók brauðtertan að ryðja sér til rúms innan íslenskrar matarmenningar upp úr miðri 20. öld. Samkvæmt leit á vefnum timarit.is kom orðið „brauðterta“ fyrst fram í íslensku dagblaði árið 1953 í Fálkanum. Þann 17. desember birtist í blaðinu uppskrift að brauðtertu og var tertan sögð tilvalinn réttur á jólaborðið það árið:

Skorpan er skorin utan af formbrauði og brauðið síðan skorið í þrennt eftir endilöngu (hafið sneiðarnar ekki of þykkar). Neðsta sneiðin er smurð með smjöri og síðan er smábrytjað reykt svínslæri (skinke) blandað sinnepskrydduðu smjöri og því smurt á sneiðina. Smyrjið næstu lengju og leggið hana ofan á, smurðu hliðina niður. Smurðu einnig hina hliðina smjöri og síðan einhvers konar salati, eða mayonnaise blönduðu smábrytjuðum salatblöðum. Smyrjið síðan síðustu sneiðinga og leggið hana ofan á (1953:34).

Brauðtertuuppskriftir hafa lítið breyst í tímanna rás en uppskriftinni hér að framan svipar til þeirra fjölda uppskrifta sem finna má í íslenskum uppskriftabókum og á veraldarvefnum. Breytingar sem hafa orðið á uppskriftinni felast einkum í fjölbreyttara úrvali grænmetis sem notað er í terturnar og mismunandi útfærslum salats og skreytinga. Uppskriftir að ýmsum nýstárlegum brauðtertum má finna á vefnum í bland við hefðbundnari uppskriftir. Dæmi um nýtískulegar útfærslur af brauðtertum eru til dæmis pestó-brauðtertur (Hjördís Dögg Grímsdóttir, 2019) og  „antipasti“ brauðtertur (Þröstur Sigurðsson, 2020). Margir matgæðingar halda úti matarbloggum og brauðtertuuppskriftir eru þar vinsælar. Fyrsta uppskriftin sem kemur upp þegar „íslensk brauðterta“ er slegið inn í leitarvélina Google hljóðar svo:

Skinkubrauðterta:

1 brauðtertubrauð

2 bollar majónes

1 dl sýrður rjómi

500 gr skinka, söxuð frekar smátt

8 soðin egg

1-2 msk rjómi

1 tsk hunang

salt og pipar

krydd að eigin vali, t.d. Season all

Á hliðarnar:

1 dl sýrður rjómi

2 dl majónes

smá sítrónusafi

Skrautið: gúrkur, tómatar, egg, soðnar gulrætur, rauð og gul paprika, soðin egg, súrar gúrkur, vínber, steinselja, skinka, íslenski fáninn…

Salat: Blandið saman mæjónesi, sýrðum rjóma, skinku, söxuðum eggjum, rjóma, hunangi og kryddi.

Skerið skorpuna utan af samlokubrauðinu, leggjið sneið á stóran bakka, smyrjið salati á, svo næstu sneið, salati og svona koll af kolli. Setjið plastfilmu yfir og geymið í ísskáp yfir nótt. Bakkinn sem ég notaði er það langur að það passar að hafa eina og hálfa samlokubrauðslengju.

Á hliðarnar: Blandið saman sýrðum rjóma, mæjónesi og sítrónusafa. Smyrjið þessu á hliðarnar og ofan á brauðtertuna.

Skraut: Skerið gúrkur í þunnar sneiðar og raðið þeim á hliðarnar. Látið svo hugmyndaflugið ráða með skraut ofan á.

(Albert Eiríksson, 2020)

Uppskriftirnar samanstanda flestar af sama grunni: hvítu, skorpulausu, langskornu samlokubrauði með salati sem smurt er á milli sneiðanna. Terturnar eru svo smurðar með majónesi og skreyttar með ýmsu matarkyns. Salatið samanstendur af majónesi, sýrðum rjóma, soðnum og skornum eggjum ásamt öðrum hráefnum og kryddum, sem fara eftir smekk hvers og eins. Þær tegundir salata sem njóta mestra vinsælda eru rækju-, skinku og aspas, laxa-, og hangikjötssalat. Skreytingar á terturnar eru margs konar; skorið grænmeti, ávöxtir og álegg sem er raðað ofan á tertuna og utan um  í hin ýmsu mynstur. Mikill metnaður er jafnan lagður í skreytingu brauðterta. Sköpunargáfa, smekkur og listfengi þeirra sem terturnar gera ráða lokaútliti hennar líkt og sjá má á myndum hér að neðan. Þrátt fyrir að uppskriftirnar breytist lítið á milli ára eru skreytingar hins vegar frjálsar og engar tvær brauðtertur eru eins.

Brauðtertan sem við Íslendingar þekkjum virðist vera séríslenskt fyrirbæri. Tertan á þó náið skyldmenni í hinni sænsku Smörgåstårta, sem svipar mjög til íslenskra brauðterta. Sænsku terturnar innihalda þó gjarnan önnur hráefni en hinar hefðbundnu íslensku tertur. Matreiðslumeistarinn Sigurður Lárus Hall lýsir hinni íslensku brauðtertu þannig:

Svíar eiga sko smörgåstårta sem er ekki alveg það sama. Svo veit ég líka að okkar kæru frændur, Færeyingarnir, eru mjög miklir brauðtertumenn. Og það getur kannski og líklega verið komið frá Íslandi. Þessi sérstaka brauðterta, ég held hún sé íslensk svona með rækjusalatinu, eða með skinku og aspassalati og svo er hangikjötið náttúrlega bara séríslenskt og svo framvegis (Þórarinn Þórarinsson, 2019).

Íslenska brauðtertan hefur í tugi ára notið mismikilla vinsælda á meðal landsmanna en brauðtertuhefðin hefur á undanförnum árum gengið í endurnýjun lífdaga. Í samtímanum hafa samfélagsmiðlar átt þátt í þeirri þróun og auðveldað matarbloggurum að koma uppskriftum sínum á framfæri sem og áhugafólki sem gerir brauðtertur bæði fyrir veislur og sér til dægrastyttingar. Þegar þetta er skrifað eru 11,568 manns meðlimir í hóp á samfélagsmiðlinum Facebook, sem ber nafnið Brauðtertufélag Erlu og Erlu. Í hópnum birtast fjölmargar myndir af margvíslegum útfærslum af brauðtertum, bæði hefðbundnum og nýstárlegum. Algengustu tegundir brauðterta sem þar má finna eru rækjubrauðtertur, skinkubrauðtertu og laxabrauðtertur. Í kjölfar vinsælda hópsins var í ágúst 2019 haldin keppni í Listasafni Reykjavíkur þar sem þátttakendur kepptu um titlana bragðbestu, frumlegustu og fallegustu brauðtertuna. Í viðtali við RÚV sagði Erla Hlynsdóttir, annar stofnandi Brauðtertufélagsins og einn dómari keppninnar, brauðtertugerð vera „þjóðaríþrótt sem hefur verið í gangi frá örófi alda.. […] Þetta er bara mikil menningararfleifð, þessi brauðtertugerð.“. Hefðbundin íslensk brauðtertugerð hefur í gegnum tíðina öðlast mikilvægan sess í matargerð Íslendinga og lifir góðu lífi í samtímanum í íslenskri matarmenningu.

Heimildir:

Á jólaborðið. (1953, 17. desember). Fálkinn, bls. 34.

Hjördís Dögg Grímsdóttir. (2019, 3. mars). Mbl.is. Sjá hér.

Kristján Freyr Halldórsson. (21. maí, 2019). Fólk sameinast í brauðtertugleðinni. RÚV. Sjá hér.

Þjóðháttasafn Þjóðminjasafns Íslands. (1996). Spurningaskrá 90a, svör nr. 12333;

Þórarinn Þórarinsson. (2019, 27. ágúst). Brauðtertan er enginn viðbjóður. Fréttablaðið. Sjá hér.

Þröstur Sigurðsson. (2020, 4. maí). Antipasti brauðterta. Töddi brasar, sjá hér.

Myndir:

Eygló Gísladóttir. (2017, 6. apríl). Listagyðjan Óli Stef fékk jakka. Vísir. Sjá  hér.

Erla María Vilhjálmsdóttir. (2020). Mynd í vörslu höfundar.

Guðmunda Ingimundardóttir. (2020). Mynd í vörslu höfundar.

Svanhildur Auður Diego. (2020). Mynd í vörslu höfundar.

Myndasafn

Mynd úr tímaritinu Húsfreyjunni árið 1960.

Brauðterta skreytt af miklu listfengi. Mynd: Svanhildur Auður Diego, 2020.

Fagurlega skreytt brauðterta. Mynd: Guðmunda Ingimarsdóttir, 2020.

Hefðbundin rækjubrauðterta. Mynd: Myllan, 2020.

Veisluborð hlaðið brauðtertum og kræsingum. Mynd: Erla María Vilhjálmsdóttir.

Sundbolur og handklæði sem Tanja Levý Huld Guðmundsdóttir hannaði. Mynd: Eygló Gísladóttir.

Sigurterta Brauðtertukeppninnar 2019. Mynd: Helga Pálína Brynjólfsdóttir.