Eyrnamörk eða fjármörk

Eyrnamörk eða fjármörk eru skurðir í eyru á fé til að skilgreina hvaða bændur eiga hvaða kindur. Fjármörk hafa fylgt fjárrækt allt frá landnámi. Það var nauðsynlegt að merkja fé sitt vegna samnýtingar afrétta og beitilanda. Um það vitna m.a. frásagnir í fornsögunum, og ákvæði í lögum eru um þetta bæði í Grágás og Jónsbók. Að marka var eins konar listgrein og mörgum þykir með ólíkindum hvernig bændur gátu markað, oft mjög flókin mörk, með misgóðum hnífum. Mörk gengu líka oft í erfðir  jafnvel kynslóð fram að kynslóð. Töluvert af þjóðtrú tengist mörkun og hvenær átti að marka fé. Í dag er þessi hefð enn stunduð.

Mörkun á sér yfirleitt stað þegar lömb eru ung, aðeins nokkra daga gömul. Þá eru hnífur eða klippur notaðar til að marka viss form í bæði eyru lambsins. Reynt er að láta mörkunina taka fljótt af og gæta hreinlætis í kringum mörkunina. Umræða hefur verið um að leggja niður þessa hefð af ýmsum ástæðum en flestum fjárbændum þykir vænt um mörkin sín og er þetta órofa þáttur í að tengjast bústofni sínum. Í dag eru öll lömb merkt með plastmerki sem er skotið eða klemmt í gegnum eyrað en einnig mörkuð. Plastmerki geta dottið úr eða orðið ólæsileg en mark endist ævi skepnunnar. Mörkun eða merking fjár tengist ekki aðeins eignahaldi heldur einnig öryggi s.s. rakningu vegna sjúkdóma og afmörkun lands sem má nýta til beitar. Enn í dag þykir það merkilegt að eiga sitt eigið mark. Stundum eru mörk gefin öðrum í tækifærisgjöf og það þekkist að hjón eigi sitt hvort markið á sama býlinu og marki sitt fé með eigin marki. Stundum verður það tilefni til skemmtilegra umræðna að vori hvor af þeim fær fallegri lömbin mörkuð með sínu marki.

Eyrnamörk, mynstur og þjóðtrúin

Eyrnamörk eða fjármörk er sú hefð og venja að skera ákveðin mynstur í eyru kinda til að hægt sé að greina hver á féð, oftast eru notaðir hnífar en það er líka hægt að nota skæri eða aðrar klippur á sum mörk. Allir bændur eiga sitt eigið mark svo bændur á nærliggjandi bæjum sem eru með kindur á sama eða nærliggjandi landsvæði geta þekkt það. Á Íslandi eru 63 gild eyrnamarka mynstur og bera þau öll sitt heiti, þau eru:

1) Alheilt 2) Andfjaðrað 3) Biti 4) Blaðrifað* 5) Blaðstýft 6) Boðbíldur* 7) Bragð 8) Fjöður 9) Gagnbitað 10) Gagnfjaðrað 11) Gagnhangfjaðrað 12) Gagnhófbitað 13) Gagnlaggað* 14) Gagnstigað 15) Geirskorið* 16) Geirstúfrifað* 17) Geirstýft* 18) Geirsýlt* 19) Hamarrifað* 20) Hamrað 21) Hangfjöður 22) Hálftaf 23) Heilgeirað 24) Heilhamrað 25) Heilrifað 26) Hófbiti 27) Hvatrifað 28) Hvatt 29) Laufað* 30) Lögg 31) Miðhlutað 32) Miðhlutað í stúf 33) Oddfjaðrað 34) Sneiðhamrað* 35) Sneiðrifað 36) Sneitt 37) Sneitt í hálftaf* 38) Stig 39) Stúfrifað 40) Stúfrifað í hálftaf* 41) Stýft 42) Stýfthálftaf 43) Sýlhamrað 44) Sýlt 45) Sýlt í blaðstýft* 46) Sýlt í hálftaf 47) Sýlt í stúf* 48) Tvíbitað 49) Tvífjaðrað 50) Tvígagnbitað* 51) Tvíhangfjaðrað 52) Tvínumið* 53) Tvírifað í heilt 54) Tvírifað í sneitt 55) Tvírifað í stúf 56) Tvístigað 57) Tvístýft 58) Tvísýlt í stúf* 59) Vaglbiti* 60) Vaglrifað* 61) Þrífjaðrað* 62) Þrístigað* 63) Þrístýft*

(Þau markanöfn sem eru með stjörnu eru í grófari kantinum og er mælt með að nota ekki þau mörk)

Eyrnamörk skiptast í yfirmark, sem skerðir eyrnabrodd, og undirbenjar, sem skerða hliðar eyrans. Allar undirbenjar og sum yfirmörk geta verið ýmist að framan (ofan á) eða aftan (neðan á) á eyra.

Eyrnamörk eru lesin þannig að þau snúi eins og maður standi klofvega yfir kindinni og horfi aftan á hnakkann, þannig er hægra eyra (þegar horft er framan á kind) vinstra eyra þegar verið er að lesa markið. Þegar eyrnamörk eru lesin er byrjað að lesa yfirmark hægra eyra, þarnæst undirben framan á eyranu og loks undirben aftan á eyra. Eins er farið með vinstra eyra.

Eyrnamörk eru mismargir skurðir, Heilhamrað er 4 skurðir, tvístýft 3 og stýft bara 1.

Gróf eyrnamörk voru oftast kölluð „soramörk“ en einnig voru soramörk kölluð mörk sem erfitt var að lesa úr, gróf eyrnamörk voru líka sumstaðar kölluð „blóðmörk“  eða „særingarmörk“. „Glöggmark“ er mark sem þekkist úr fjarlægð. Eyrnamörk voru talin mislánsöm og það hafa verið dæmi að fólk skipti um mark ef markið sem það var með var ólánsamt til að öðlast fjárheill. Einnig þekktist svo þjóðtrú að ef lamb fæddist með mark sem ekki var í notkun að þá ætti að taka markið upp því það myndi verða afar lánsamt. Hægt var að klípa við skurðinn til að stoppa blæðinguna í eyranu en sumir núðu líka mold í sárið til að stöðva blóðið.

Sumstaðar mátti ekki marka meðan flóð stóð yfir því þá blæddi meira úr sárinu en þegar fjara var.

Lömb sem gefin voru börnum fengu oft bandspotta í gegnum eyrað. Það var gert þannig að bandspotti var dreginn í nál, stungið í gegnum eyrað og hnýtt báðum megin svo spottinn héldist, þetta kallaðist sumstaðar að „skrúðdraga“.

Sú þjóðtrú þekktist einnig að ekki mátti borða mörkuð eyru því þá gæti maður orðið féþjófur eða fé manns sjálfs yrði stolið.

Frá landnámi til dagsins í dag

Mark á fénaði hefur á Íslandi mikla þýðingu, og hefur haft frá fornöld, því á markinu byggðist oft öll eignarhelgi eigandans. Í fornsögum er oft talað um mark á fénaði, og lögin skýra frá því greinilega. Í Grágás er skipað að marka allan fénað, naut, sauði, svín, geitur, nema það sem gengur heima við bæi með móðurinni. Þar er skipað að marka þessi húsdýr á eyrum og ekki annarsstaðar. Hestar voru undanskyldir slíkri mörkun. Það getur verið að náið samband milli gæðinga og eigendans hafi haft fælandi áhrif á að blóðga hestinn eða það þótt lýti á hestinum.

Eyrnamörk hafa því vafalítið borist hingað með landnámsmönnum. Fjármörk voru til á öllum Norðurlöndum og þekkjast enn, til dæmis í Færeyjum, Noregi og á Hjaltlandi. Þessi mörk eru ekki aðeins eins  og íslensku mörkin er varðar mynstur, heldur heita sömu eða svipuðum nöfnum. Gagnbitað heitir t.d. ,,gangbit“ og fjöður ,,fidder“ á Hjaltlandi.

Færeyingar hafa engin mörk sem við Íslendingar höfum ekki en þeir hafa ekki mörg af grófari mörkunum.

Það að eiga sér mark gaf til kynna ákveðna stöðu í sauðfjársamfélaginu. Sá sem átti mark var maður með mönnum. Mörkin urðu hluti byggðasögunnar. Í smalamennsku og réttum voru mörkin og markaþekkingin lykillinn að fjármennskunni. Frægur er Marka-Leifi í Skagafirði sem var með eindæmum fjárglöggur og kunni heilu markaskrárnar utanað. Elstu markaskrár sem þekktar eru hér á landi voru handskrifaðar í byrjun 19. aldar og árið 1855 komu fyrstu prentuðu markaskrárnar út.

Konur voru líka markaeigendur alveg eins og karlar, oft var það þannig að konur bænda áttu sín eigin mörk, en ef konan átti ekki mark og varð ekkja þá var það oft þannig að hún hélt áfram að nota markið sem maður hennar notaði og var skráð með það.

Kristjáns Magnússon bóndi og hreppstjóri í Skógarkoti í Þingvallasveit, sem fæddur var 1778 átti markið „sýlt, biti aftan hægra“ og „sýlt, biti aftan vinstra“. Markið er að finna í markaskránum 1830, 1835 og 1840. Hann átti átta börn með vinnukonunni Guðrúnu Þorkelsdóttur á tímabilinu 1816-1839 eftir að hafa getið sjö börn með eiginkonunni. Kristján sýndi Guðrúnu sinni ást sína á marga vegu, m.a. með því að gefa henni fjármark sem tryggðapant. Fjármarkið var nánast sama mark hann sjálfur átti. Mark hennar var,,sýlt, biti framan hægra“ og „sýlt, biti framan vinstra“. Þann tryggðapant mátti hún eiga og njóta. Þetta mark er fyrst skráð í markaskrárnar í eigu Guðrúnar árið 1830 en þá er hún á Brúsastöðum í Þingvallasveit, þar sem yfirvaldið hafði komið henni fyrir til þess að hindra fleiri hórdómsbrot þeirra Kristjáns. Árið 1837 deyr Sigríður kona Kristjáns og eftir það getur enginn meinað Guðrúnu að búa í Skógarkoti hjá Kristjáni sínum, enda er hún skráð þar í markaskránni árið 1840. Eftir lát Kristjáns 1843 flytur Guðrún til Salvarar dóttur þeirra á Fellsenda og þar er hún skráð með markið sitt bæði í skránni frá 1850 og 1855.

Fjármörk biskupsstólanna voru fremur gróf, til dæmis sýlt í stúf á báðum hjá Skálholtsstól á 18. öld. Sögur segja að enn fyrr hafi markið þar verið ,,afeyrt bæði“. Slík mörk voru kölluð soramörk eða þjófamörk. Andskotinn átti einnig sitt mark, sem margir kannast við, en það er: „Þrírifað í þrístýft og þrettán rifur ofan í hvatt.“

Fjármörkin rata líka inn í kveðskapinn. Í þjóðsögu er markinu á sauðfé fjallabúa nokkurs lýst þannig:

Mórauður, með mikinn lagð,

mænir yfir sauðakrans;

hófur, netnál, biti, bragð

báðum eyrum mark er hans.

Markaskrár voru til á hverjum bæ. Hver bær átti sitt mark, eitt eða fleiri. Mönnum var mikið í mun að mörkin héldust innan ættarinnar. Þeir markaglöggu þurftu lítt á markaskrám að halda og flestir þekktu helstu mörk nágrannabæjanna. Það þótti virðing að vera markaglöggur í öllu fjárragi. Sá sem ekki þekkti helstu mörk þótti heldur lítill fjármaður. Oft voru mörk löguð og einfölduð, sérstaklega ef þau voru flókin. Þau voru samt látin halda sér að mestu, kjarni marksins, yfirmarkið, var varðveitt. Mikilvægt þótti einnig að mörk væru ekki of groddaleg, særðu ekki of mikið. Margbrotin og erfið mörk urðu því oft einfaldari og snyrtilegri með árunum og nýjum kynslóðum. Mörgum fannst upphefð í að eiga mörg mörk og voru þau þá oft mismunandi útgáfur af sama kjarnanum. Þau voru þá notuð t.d. á tvílembinga, þrílembinga eða lömb sem ákveðið var að setja á, lömb sem voru undan góðum ám.

Mörkin gengu mjög oft í erfðir. Markið var fjölskylduarfur, ekki aðeins sem nytjahlutur heldur einnig ættargripur. Leiða má líkur að því að einmitt fjármörk, sem gengið hafa í arf mann fram af manni, séu elstu ættargripirnir. Mörkin fylgdu ættinni öld fram af öld í gamla bændasamfélaginu. Margir hafa varðveitt mörk forfeðranna þótt þeir séu löngu hættir að vera með fé. Mark sem var búið að vera rótgróið á jörð var hluti af ímynd jarðarinnar. Menn gátu ekki hugsað sér að það færi úr höndum ættarinnar. Sauðfjárbúskapurinn var og er undirstaða búskapar í flestum héruðum landsins og markið var eins konar einkennistákn bæjarins.

Arnór Karlsson, lengi bóndi á Bóli og markavörður í Árnessýslu, segir svo í markaskrá Árnessýslu frá 1996: „Mörgum er annt um mörk sín og líta jafnvel á þau sem ættargripi.“ Í markaskránni 2004 segir Arnór ennfremur um fjármörkin: ,,Flestir eigendur þeirra eru fjáreigendur, en margir aðrir vilja eiga mörk. Eru það bæði þeir sem lagt hafa af fjárbúskap og einnig aðrir, sem aldrei hafa átt kindur, en vilja halda við mörkum forfeðra sinna. Rík hefð virðist vera fyrir því að líta á mörkin sem ættargripi og „markið hans afa“ hefur sérstakt gildi í hugum margra.“ Algengt var að gamlir menn gæfu eftirlætisafkomanda sínum markið sitt. Arnór greinir einnig frá því að í deilum um mark, þar sem tveir aðilar áttu sama markið, kom fram að markið hafði verið skráð á forföður annars eigandans í markaskrá vestanverðrar Árnessýslu árið 1825, og var honum því dæmt markið.

Samkvæmt skrá Bændasamtakanna 2017 voru um 17.000 fjármörk í gildi í landinu.

Frá bónda til bónda

Hefðin hefur nú haldist að mestu óbreytt í gegnum aldirnar, sömu mörk eru notuð og er markaskrá yfir öll löglega skráð mörk á hverju svæði á landninu, svæðin eru 26 og minna mjög á sýslukerfið hér áður fyrr. Líkt og í gamla daga má enginn vera með sama mark á sama svæði. Markaverðir eru fyrir hvert svæði og sjá þeir um skráningu á mörkum í landsmarkaskrá og passa að engin sé með sama markið. Svo eru markaskrár gefnar út um allt land á áttunda hverju ári, þar eru skráð öll gild mörk í eigu manna.

Þó eyrnamörkin séu aðeins farin að dvína og hefur í sumum tilvikum verið skipt út fyrir eyrnaspjöld er hefðin samt ekki nálægt því að vera í hættu. Mörg eiga mörk en ekki kindur, önnur marka fé sitt í stað spjalds og enn önnur nota bæði mörk og spjald. Margir bændur hafa tileinkað sér mismunandi hefðir tengdar mörkum og því þegar fé er markað. Bændur geta til dæmis haft sterkar skoðanir á því hvenær sé best að marka, hvað lömbin eiga að vera gömul og eins hvernig sé best að bera sig að við mörkunina. Oft tengist þetta áratuga reynslu bænda sem og því sem þau hafa lært af þeim sem eldri eru.

Flestir sem stunda fjárbúskap taka þátt í hefðinni og margir sem eru afkomendur bænda og/eða bændur sem hætt eru búskap eiga mark, í raun má segja að flest sem tengjast fjárbúskap með einhverjum hætti taki þátt í hefðinni. Mörk eru oft viðfangsefni Bændasamtakanna en „Landsmarkaskrá“ heldur utan um öll mörk og er í raun höfuðstöð hefðarinnar að vissu marki.

Enn er aragrúi af bændum sem eiga eyrnamark og nota og oft eiga þessi mörk sér merka sögu. Þessi saga gengur bónda fram af bónda því ríkari sögu sem markið hefur á bakvið sig því meiri líkur eru á því að það muni erfast og haldast áfram í notkun.

Til fróðleiks um mörkun  

Spurningaskrá um fráfærur hjá Þjóðháttasafni Þjóðminjasafni Íslands, þar er meðal annars spurt um mörkun lamba: 

https://sarpur.is/Spurningaskra.aspx?ID=531257

Sagnaþættir Guðfinnu eftir Guðfinnu S. Ragnarsdóttur. Gefin út af Forlaginu árið 2017. 

Svar um mörkun búfjár frá Vísindavefnum: 

 https://www.visindavefur.is/svar.php?id=6598

Landmarkaskrá:

https://www.landsmarkaskra.is/index.jsp

Mörk og merkingar búfjár e. Halldór Guðmundsson:

https://www.bbl.is/skodun/lesendaryni/um-mork-og-merkingar-bufjar

Skráning eyrnamarka og útgáfa markaskráa e. Ólaf R. Dýrmundsson og Guðlaugu Eyþórsdóttur:

https://www.bbl.is/skodun/a-faglegum-notum/skraning-eyrnamarka-og-utgafa-markaskraa

Landsbókasafnið varðveitir eintök af flestum markaskrám, alveg frá upphafi.

Myndasafn

Reynisrétt á Akranesi í kringum aldamótin 1900. Áður fyrr voru eyrnamörk eina örugga leiðin til að tryggja eignarhald á búfé. Hér má sjá réttir áður fyrr þar sem ekki hefur veitt af því að vera minnugur á mörk til að þekkja sitt fé.

Alheilt hægra og hamrað vinstra. Mynd frá Dórótheu Sigríði.

Sneitt framan hægra og hálftaf framan vinstra. Mynd frá Soffíu Sóleyju Árnadóttur.

Þessi hrútur er með sýlt, biti framan hægra (bitin sést ekki skýrt) og blaðstýft aftan vinstra Þessi mynd er frá Gróu Jóhannsdóttur.

Sýlt hægra og sýlt vinstra Mynd frá Árna Davíð Haraldssyni.

Hveragerðisrétt, myndin gæti verið tekin um miðja 20. öld. Eina leiðin til að þekkja sitt fé var að vera fjárglöggur og að þekkja sitt mark.

Sýlt og stig aftan hægra eyra og tvístíft framan i vinstra. Mynd frá Dóratheu Sigríði.

Sýlt og stig aftan hægra eyra og tvístíft framan i vinstra. Mynd frá Dóratheu Sigríði.

Brot úr sögu marksins hjá Hreimsstaðaættinni

Sneitt aftan, hófbiti framan og alheilt. Mynd frá Sigurlaugu Dagsdóttur.

Eyrnamörk og markaheiti

Sneitt aftan, hófbiti framan og alheilt vinstra. Mynd frá Sigurlaugu Dagsdóttur.