Fjallkonan; nýstúdentar, mætar konur og leikkonan
Fjallkonan hefur birst landsmönnum á þjóðhátíðardaginn, 17. júní, ár hvert frá árinu 1947 í Reykjavík. Í dag má sjá fjölda fjallkvenna um land allt, klæddar skautbúningum, kyrtlum eða öðrum þjóðbúningum, fara með ljóð eða flytja ræðu. Oft eru fjallkonur á landsbyggðinni nýstúdentar en einnig konur sem hafa unnið í þágu samfélagsins eða verið áberandi innan sveitarfélagsins á einhvern hátt. Í Reykjavík hefur ávalt tíðkast að leikkona bregði sér í hlutverk fjallkonunnar.
Fyrsta fjallkonan á mynd
Fjallkonan birtist fyrst í mynd á forsíðu annarar útgáfu þjóðsagnasafns Jóns Árnasonar þegar það var þýtt á ensku og útgefið undir heitinu Icelandic Legends árið 1866. Sú fjallkona sem birtist þar er harla ólík þeirri sem Íslendingar áttu eftir að venjast, en þýski listamaðurinn J. B. Zwecker teiknaði fjallkonuna með kórónu, sverð og fugla sér við hlið. Fjallkonan hafði einnig birst í ýmsum ljóðum á 19. öld.
Fjallkonan líkömnuð
Árið 1924 birtist fjallkonan fyrst líkömnuð, þegar Sigrún Líndal kom fram í hlutverki hennar á Íslendingadegi í Kanada, tuttugu árum áður en Ísland varð lýðveldi. Sú hefð hefur haldist í Kanada að kona sem hefur verið áberandi í Íslendinga-samfélaginu sé valin sem fjallkona. Hægt er að senda tilnefningar til valnefndar áður en boðað er til sérstaks Fjallkonu-dögurðar um vorið þar sem tilkynnt er um val á fjallkonu þess árs. Á Íslendingadeginum í ágúst hvert ár er fjallkonan síðan heiðruð.
Fyrsta fjallkona sjálfstæðs lands
Þann 17. júní árið 1944 þegar Lýðveldið Ísland var stofnað á Þingvöllum hafði ung stúlka, Kristjana Milla Thorsteinsson, barnabarn Hannesar Hafstein, verið fengin í hlutverk fjallkonu, fyrstu fjallkonu sjálfstæðs lands. Hún fékk skautbúning að láni og ferðaðist til Þingvalla deginum fyrir hátíðarhöldin. Eins og frægt er varð ofsa úrkoma þennan fyrsta þjóðhátíðardag Íslendinga og dagskránni var hliðrað til vegna þess. Úr varð að Kristjana Milla átti að hylla fánan að Þingvöllum og flytja ljóð sem hafði borist Þjóðhátíðarnefnd í samkeppni, en aldrei varð úr því. Mörgum árum eftir Lýðveldishátíðina lýsti Kristjana þessu svona: „Þegar stytti örlítið upp var ákveðið að ég færi upp á pallinn, en einhverra hluta vegna var þá tilkynnt, að næst á dagskrá væri leikfimisýning undir stjórn Vignis Andréssonar. […] Af þeim sökum var hætt við þann dagskrárlið, að Fjallkonan kæmi fram og læsi hátíðarljóð” (Klemenz Jónsson, 1994: 42). Í Reykjavík hefur leikkona brugðið sér í hlutverk fjallkonunnar síðan 1947, ávallt klædd skautbúningi. Síðastliðin tíu ár eða svo (frá 2013) hefur fjallkonan orðið fjölbreyttari, ef svo má að orði komast. Hún hefur verið amma, ekki-hvít (e. Non-white) og pólsk, en áður hafði hún oftast verið ung, hvít og ævinlega fædd á Íslandi.
Fjölbreytt táknmynd
Með fjölbreyttari leikkonum í hlutverki fjallkonunnar má segja að táknmynd hennar hafi breyst að einhverju leyti. Í byrjun sjálfstæðisbaráttunnar og eitthvað fram eftir 20. öldinni mun fjallkonan hafa átt að tákna landið sjálft og þjóðina sem hér býr. Samkvæmt könnun sem var framkvæmd fyrir meistararitgerð í þjóðfræði um hlutverk fjallkonunnar í samtímanum virðist fjallkonan tákna marga mismunandi hluti. Mörg sem svöruðu könununni sögðu hana tákna sjálfstæða konu, Ísland eða einfaldlega 17. júní. Leikkonur sem hafa túlkað fjallkonu Reykjavíkur í gegnum árin segja flestar hlutverkið vera mikinn heiður þar sem margar leikkonur dreymi um hlutverkið.
Heimildaskrá
Klemenz Jónsson. (1994). Hátíð í hálfa öld: Lýðveldi fagnað í Reykjavík 1944-1994. Reykjavík: Oddi.
Anna Karen Unnsteins. (2024). „Hátíðlegur vani“. Táknmyndir fjallkonunnar í borgarsamfélagi samtímans. Ritgerðina má nálgast á: http://hdl.handle.net/1946/46832
Myndasafn
Fjallkonan í Reykjavík 17. júní 1979, Tinna Þórdís Gunnlaugsdóttir. Ljósmynd: Hjálmar R. Bárðarson. Þjóðminjasafn Íslands.
Fjallkonan í Reykjavík, 1952, Frú Þóra Borg Einarsson, leikkona. Ljósmynd: Hjálmar R. Bárðarson. Þjóðminjasafn Íslands.
Fjallkonan árið 1955, Guðbjörg Þorbjarnardóttir leikkona í skautbúningi í hrauninu á leið til Krýsuvíkur. Ljósmynd: Hjálmar R. Bárðarson. Þjóðminjasafn Íslands.
Uppdráttur eftir Helga Jóhann Magnússon (1895-1981) sem hann gerði eftir Fjallkonumynd J.B. Zweckers.
Fjallkonan 17. júní 1953, Herdís Þorvaldsdóttir, leikkona. Ljósmynd: Óskar Gíslason. Þjóðminjasafn Íslands.
Fjallkonan Bryndís Pétursdóttir í Alþingisgarðinum 1953 umkringd ljósmyndurum. Ljósmynd: Sigurður Guðmundsson.
Fjallkona J.B Zwecker sem birtist á forsíðu annarar útgáfu þjóðsagnasafns Jóns Árnasonar þegar það var þýtt á ensku og útgefið undir heitinu Icelandic Legends árið 1866. Þjóðminjasafn Íslands.