Forystufé er einn tveggja fjárstofna í landinu. Forystufé var á öldum áður ræktað vegna sérstakra hæfileika sem fólust í að leiða hjarðir á vetrarbeit og í vályndum veðrum en í dag er ræktun þess þáttur í varðveislu þessa sérstæða stofns og margir bændur eru stoltir af því að taka þátt í varðveislu hans.
Hinn hefðbundni íslenski fjárstofn er stuttfættur og með breitt bak en forystuféð er grannvaxið, háreist og háfætt. Eins og nafnið gefur til kynna þá fer það í forystu og leiðir hjörð sína, ásamt því að hafa hæfileika til að greina veðrabreytingar. Þeir hæfileikar eru arfgengir og finnst forystufé hvergi annars staðar í heiminum, nema það sem flutt hefur verið út með sæðingum.
Féð er fyrst og fremst ræktað vegna persónuleika, forystuhæfni og skapgerðar og þekkist frá fornu fari hér á landi. Á Íslandi hefur viss sagnahefð myndast í kringum forrystufé, sagðar hafa verið sögur af ákveðnum einstaklingum af þessum stofni og afrekum þeirra. Frásagnir af forystufé hafa verið gefnar út á prenti og í dag eru til áhugasamtök helguð ræktun og fróðleik um forystufé og einnig er starfrækt sérstakt setur helgað forystufé á Svalbarði í Þistilfirði.
Bændur sem eiga forystufé hafa hverjir sínar áherslur í ræktun þess. Ræktunin er afar merkur þáttur í sögu fjárræktar á Íslandi og áhugi á þessum einstaka fjárstofni og hæfileikum hans virðist fara vaxandi.
Skráð:
26.03.2025
Skráð af:
Fræðafélag um forystufé, Rannsóknasetur HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofa
Skráð af:
Guðlaug Guðmunda Ingibjörg Magnfríðar Bergsveinsdóttir, Daníel Hansen
Landfræðileg útbreiðsla:
Allt landiðHvað er merkilegt við forystufé?
Forystufé hefur lengi vel verið mikilvægur hluti af sauðfjárbúskap landsins. Það er einstakt á heimsmælikvarða því eiginleikar þess erfast. Í öðrum löndum, með önnur sauðfjárkyn, þekkist það að stundum sé ákveðin kind í hjörðinni sem tekur af skarið, en það er ekki eitthvað sem hægt er að rækta áfram í afkomendum. Hæfileikar íslenska forystufjárins hafa vakið undrun og jafnvel vantrú utan landsteinana.
Eins og nafnið gefur til kynna fer þetta fé með forystu í hópnum. Til er ógrynni af sögum sem lýsa því hvernig forystuféð hefur skynjað veðrabreytingar og bjargað bæði skepnum og mönnum frá bráðum bana í skyndilegum og skæðum veðrum. Lengi vel var algengt að bændur hefðu forystusauð í hjörðinni, þ.e. geldan hrút, en það hefur dregið úr því á seinni tímum.
Lýsingar á forystufé frá því um 1950 minna helst á fornkappa Íslendingasagnanna og segir það sitthvað um stöðu fjársins í hugum margra um miðja öldina. Á þessum tíma voru örar breytingar á búskaparháttum og staða stofnsins því óræð. Fénu var lýst sem fallegu, með gáfulegt og vökult augnaráð, hnarreistu, sterkbyggðu og svo framvegis. Forystufé er nefnilega ólíkt hefðbundnu fé, bæði líkamlega og að skapgerð. Hefðbundið fé á almennt að vera lágfætt og feitlagið, er oftast með hvíta ull (það eru skiptar skoðanir á hvort það eigi að vera hyrnt eða kollótt), og fylgir hjörðinni auðveldlega. Forystufé er aftur á móti yfirleitt grannvaxið, háfætt en það hjálpar því að plægja í gegnum snjóskafla, með langan háls og nokkuð sjálfstæða hugsun. Mörgum finnst það jafnvel minna á geitur. Stærstur hluti þess er í öllum mögulegum sauðalitum og hyrnt, en það er vissulega einnig til kollótt og jafnvel ferhyrnt forystufé. Það er fyrst og fremst ræktað vegna sterkra persónueiginleika.
Forystufé var hvað mikilvægast þegar vetrarbeit var stunduð, en sú þörf hefur horfið með breyttum búskaparháttum. Það breytir því ekki að forystufé getur ennþá leitt hópa heim í smalamennskum á haustin, það man hvar bestu leiðirnar og kindagöturnar liggja, hvar hliðin eru, og í hvaða átt „heim“ er. Þess utan getur verið ákaflega gaman að hafa það í fjárhúsum yfir vetur því það fylgist oft náið með athöfnum mannfólksins. Stundum er það spakt en frekt, og vill klapp, kjass og athygli. Stundum er það forvitið, en leyfir enga snertingu, þrátt fyrir gífurlegan áhuga á því að skoða fólk.
Í sauðburði hafa bændur talað um að forystufé eigi það til að bera lömbum sínum án þess að hafa nokkuð fyrir því og lömbin fæðist svo hress að höfuð þeirra snerti aldrei jörðu, heldur komi þau í heiminn næstum standandi. Lömbin eru af mörgum talin vera einstaklega leikglöð og forvitin frá fyrstu stundu og auðvelt að sjá af hvaða ætt þau eru.
Grunnurinn til ræktunar forystufjár er lítil hjörð hefðbundins fjárs sem og forystufé, ein skepna eða fleiri, svo fremi sem hún hefur aðrar kindur til að ráðskast með.
Það má færa rök fyrir því að bændur hafi ólíkar nálganir á ræktun forystufjár. Áhersla hefur verið lögð á að halda forystufé hreinu, þ.e. að blanda því ekki saman við hefðbundið sauðfé. Sumir bændur vilja meina að blendingar séu verri en hreint forystufé, að þeir hafi sjálfstæðu hugsunina en nýti hana til óskunda, eins og að stökkva yfir grindur og girðingar, leiða hópa í ógöngur og vera almennt til vandræða. Aðrir ræktendur telja þó að svo sé ekki og benda á að oft sé hreinræktað forystufé einnig til trafala. Til eru sögur af blendingum sem sýndu góða, jákvæða forystueiginleika, þrátt fyrir að „forystublóðið“ væri aðeins 25% af erfðamengi þess, jafnvel minna. Það má því leiða líkur að því að það þurfi ekki mikil forystugen til að eiginleikar þeirra komi fram á einn eða annan hátt. Því miður er þó ekki enn vitað nákvæmlega hvernig forystan erfist.
Sumir bændur rækta forystufé sér til ánægju, aðrir því þeim finnst mikilvægt að viðhalda stofninum og að það hafi góð áhrif á hjörðina, en öll hafa það sameiginlega markmið að rækta féð áfram.
Hvaðan kemur forystuféð?
Elstu, öruggu rituðu heimildina um forystufé er að finna í elsta riti Íslendinga, Hómilíubók, sem var rituð um aldamótin 1200 og hefur að geyma stólræður, fræðslugreinar og bænir. Þar segir:
[…] en allra rækilegast skulum vér göfga hátíðir postula Guðs, er höfðingjar eru allrar kristni og forystusauðir Guðs hjarðar. Allir helgir menn eru Krists sauðir […] Maklega kallast postular forystusauðir Krists hjarðar, því að þeir gjörðu götu til lífshaga öllum völdum mönnum Guðs í kenningum sínum.
Næsta heimild á eftir er Grágás, frá um 1250, þar sem er talað um „forustugelding“. Minnst er á forystufé í Sturlungu og fyrsti nafngreindi forystusauðurinn, Fleygir, er í Heiðarvígasögu en elsta handrit hennar er frá um 1350-1399.
Eftir það kemur bil sem hefur ekki verið brúað, frá 15. öld og til loka 19. aldar, þegar farið var að safna frásögnum og rita sögur af forystufé. Í 13. hefti af Dýravininum frá 1909 eru sögur sem eiga að hafa gerst 1848. Þar er skrifað um fráræku ána Markleysu sem gaf af sér „afbragðs forustuær og héldust þeir kostir í marga ættliði.“ Einnig er sagt frá svörtum sauði á öðrum vetri, sem bóndi vissi varla af, er tók sig til og leiddi hjörð sína heim á hlað í svartamyrkri og snjókomu, og var upp frá því hinn besti forystusauður. Síðasta sagan er af sauði sem jarmaði á sauðamann þar til hann gerði sér grein fyrir að veðrið væri að breytast til hins verra og kom þeim heim.
Bók Ásgeirs frá Gottorp, Forystufé, var gefin út 1953 og er ítarlegasta heimild okkar um forystufé. Sögur hans og þær sem eru í Dýravininum lýsa fé með athugult augnaráð, gáfulegan svip og margskonar útlit. Þær lýsingar kallast á við lýsingar af fénu í dag. Bók Ásgeirs var þó lýst sem „minningarriti“ um stofn sem væri svo gott sem horfinn, og kallast umræða þess tíma á við þær aðstæður sem myndast þegar við töpum hefðum og menningararfi. Í lýsingum og frásögnum af fénu má greina trega og upphefð þess sem er að hverfa.
Mörg könnumst við síðan við bókina Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson, um ævintýri Fjalla-Bensa, hundsins Leó og að sjálfsögðu forystusauðsins Eitils. Sagan hefur verið endurútgefin, flutt í útvarpi og nú síðast færð yfir á leikhúsfjalir, sem er augljóst merki um hversu vænt landanum finnst um söguna.
Framámenn í sauðfjárrækt um miðja 20. öld, svo sem Hjörtur Eldjárn og Ásgeir frá Gottorp, töluðu mikið fyrir því að farið yrði í opinberar aðgerðir til að bjarga stofninum. Ekkert varð af þeim aðgerðum. Ræktun forystufjár hélt engu að síður áfram í marga ættliði og hefur verið haldið uppi af bændum með vilja til að viðhalda fjölbreytileika og halda í aðra eiginleika en eingöngu arðbærar og hagkvæmar ær.
Helsta breyting sem orðið hefur á forystufé er sú að dregið hefur úr vetrarbeit sauðfjár og því færri tækifæri fyrir forystufé til að þjálfa hæfileika sína. Á seinni hluta 20. aldar varð nokkurskonar „krúttvæðing“ í tengslum við ræktun stofnsins, þar sem bændur töluðu um hvað það væri skemmtilegt og öðruvísi að hafa forystufé. Þær lýsingar voru nokkuð ólíkar eldri lýsingum á eiginleikum forysufjári, ekki lengur háfleygar og virðulegar. Enn deila þó bændur sögum af einstaklingum af þessum stofni, hvort sem það er í tengslum við afrek þeirra eða einkennilega hegðun.
Af opinberum aðgerðum til viðhalds forystufjár stofninum má helst nefna frumvarp Sigurðar Björgvinssonar frá Neistastöðum í Flóa. Frumvarpið varð til þess að sæðingastöðvar fóru að bjóða sæði úr forystuhrútum, sem auðveldaði bændum að viðhalda sínum stofnum. Þar á undan höfðu merkismenn eins og Hjörtur Eldjárn og Halldór Pálsson talað fyrir nauðsyn þess að varðveita forystufé á einn eða annan hátt en engar eiginlegar aðgerðir komu úr því. Því skal einnig nefna að stór hluti ræktunarinnar síðustu öld var haldið uppi af bæði sérvitrum og framsýnum bændum, en ekki endilega opinberum björgunaraðgerðum.
Gífurleg áhersla er á að hafa forystufé hreinræktað en ekki blanda því saman við hið hefðbundna, íslenska sauðfé. Leita má í skýrsluhaldskerfi sauðfjárbænda, Fjárvís, og rekja ættir forystufjár aftur um margar kynslóðir. Árið 2024 var svo farið að bjóða upp á þann möguleika að skrá sérstaklega forystueiginleika í þetta kerfi, til að geta haldið utan um það hvernig forystuhæfileikarnir koma fram í fénu.
Hvert stefnir forystuféð?
Segja má að varðveisla þessa sérstaka stofns skiptist annars vegar í ræktun bænda sem hafa það að markmiði að viðhalda stofninum og hins vegar bændur sem halda forystufé því þeim líkar vel við það en rækta það ef til vill ekki sérstaklega. Það getur því hvort tveggja verið hluti af hversdagslegu lífi bænda og/eða þeir fari í sérstakar aðgerðir, t.d. sæðingar, til að viðhalda stofninum markvisst, oft með það að markmiði að selja forystufé til annarra ræktenda. Í gögnum frá sauðfjárræktarráðunauti hjá Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins (RML) má sjá að forystufé finnst í öllum fjórðungum landsins og telur um 1500 skepnur þegar þetta er ritað.
Sumir bændur nota forystufé til að sækja eftirlegukindur. Helstu frásagnir af því í dag er yfirleitt að finna á Facebook, í hópunum „Sauðfjárbændur“ og „Forystufé“. Því má segja að sagnamennska í tengslum við forystufé eigi sér nú stað á nýjum vettvangi. Í síðarnefnda hópinn, sem var stofnaður 2019, eru nú skráðir tæplega 3.200 einstaklingar, bæði bændur og áhugafólk. Þar eru einnig birtar myndir af því þegar forystufé leiðir hópa í smalamennskum, til að sýna að það hafi enn hæfileikann að leiða hjörð. Myndir og myndbönd af forystuhrútum eða -sauðum í taumi hafa birst en það er talið merki um gott forystufé að það sé auðvelt og þægilegt í taumi. Að sama skapi er það almennt talið hlaupa hraðar en hefðbundið fé og afar mikilvægt að leyfa því ekki að komast upp með einhvern óskunda, sérstaklega í smalamennskum og göngum, því það lærir hratt hvað það kemst upp með. Féð fer einnig í manngreinarálit þar sem sum mega klappa því og klóra en önnur ekki. Auk þess gerir það upp á milli sauðfjár og er algengt að sjá forystufé halda hópinn í stað þess að blanda geði við restina af hjörðinni. Það á það til að reka aðrar kindur frá sér og einstaklingar af þessum stofni virðast þurfa meira persónulegt rými en einstaklingar af hinum hefðbundna íslenska fjárstofni.
Fólk „iðkar“ því þessa hefð hvað mest með því að deila áhuga sínum á fénu og sýna féð að störfum, öðrum bændum og áhugafólki til yndisauka. Sum leggja áherslu á að féð sýni mikla forystueiginleika, á meðan áhersla annarra felst í að það sé fallegt og þægilegt í umgengni. Fyrir sum er mikilvægt að féð sé spakt, önnur ekki. Sama gildir um liti, þar sem sumir bændur vilja helst viðhalda ákveðnum litum eða litasamsetningum en aðra skiptir það minna máli.
Fáar en góðar opinberar stofnanir koma að ræktun forystufjár. Ber þar helst að nefna Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins sem gætir þess að bjóða upp á forystuhrúta á sæðingastöðvum. Það hjálpar mikið til við að viðhalda stofninum með því að koma nýju blóði og erfðamengi í hann. Þá hefur Forystufjárræktarfélag Íslands verið starfrækt síðan um aldamótin og hefur það að markmiði að viðhalda forystufé. Auk þess var Fræðafélag um forystufé stofnað árið 2010. Upp úr því spratt svo Fræðasetur um forystufé, staðsett á Svalbarði í Þistilfirði, þar sem er án efa stærsta safn upplýsinga um forystufé.
Ræktun forystufjár á Íslandi er merkileg hefð sem hefur viðhaldist frá landnámstíma. Þrátt fyrir að vetrarbeit sé hætt, og þar af leiðandi minni þörf fyrir forystufé og eiginleika þess, þá stunda bændur enn ræktun þess, bæði sér til yndisauka, til gagns við smölun og vegna þess að stofninn er einstakur á heimsvísu. Ræktun forystufjár er afar sérstæður þáttur í landbúnaðarsögu á Íslandi og stofn þessara háfættu, sérlunduðu skepna á í sérstöku sambandi við ríka sagnahefð og íslenskt bændasamfélag fyrr og nú.
Útgefin rit:
Aðventa. Eftir Gunnar Gunnarsson. Upphaflega gefin út 1936, er endurútgefin á nokkurra ára fresti enn þann dag í dag.
Forystufé. Eftir Ásgeir Jónsson frá Gottorp. 1953.
Forystufé. (Endurútgáfa) Eftir Ásgeir Jónsson frá Gottorp. Bókaútgáfan Sæmundur: 2016.
Forystufé á Íslandi. Eftir Jón Viðar Jónmundsson, Ólaf R. Dýrmundsson ofl. Í Náttúrufræðingnum, 85. árg. 3.-4. hefti, 2015, bls. 97-113þ
Forystufé og fólkið í landinu. Eftir Daníel Hansen og Guðjón Ragnar Jónasson. Veröld: 2023.
„Immer einen Schritt voraus – forystufé“ (á þýsku) Eftir Karólínu Elísabetardóttur. Verlag Alpha Umi: 2015.
„Og hann gerði bara allt sem að alvöru forystusauður átti að gera! – Rannsókn á viðhorfum til forystufjár.“ – Eftir Guðlaugu G.I.M.B. BA-ritgerð í þjóðfræði. 2015.
https://skemman.is/handle/1946/21727
Á netinu:
Heimasíða Fræðaseturs um forystufé: www.forystusetur.is
Facebook-hópurinn „Forystufé“: https://www.facebook.com/groups/421017165449708
Facebook hópurinn „Sauðfjárbændur“: https://www.facebook.com/groups/236132943164520
Nokkrir áhugaverðir fyrirlestrar í kringum forystufé – upptökur fræðslu- og skemmtifundar 9. júní 2024 (nákvæmt yfirlit í lýsingunni): https://youtu.be/uu4Mcl_BNoo
https://agrogen.is/bufe/islenskt-forystufe/ – Frá aðeins erfðafræðilegra sjónarhorni.
Myndasafn
Forystuærin Urður fremst, ásamt tveimur hefðbundnum ám. TIl vinstri má sjá Frigg. Hér sést vel hvað þær eru háfættar miðað við þær hvítu og kollóttu. Mynd: Guðlaug G.I.MB frá Gróustöðum.
Drottning Gróustaða, forystuærin Freyja, þarna um tólf vetra gömul. að leiða hóp í gegnum hlið. Mynd: Guðlaug G.I.M.B. frá Gróustöðum.
Ungar forystuær, eða öllu heldur gemlingar, að hausti. Fremst má sjá svarta og kollóta Arnbjörgu, 75% forysta, ásamt hreinræktuðu frænkunum Kviku, mórauðri, og Ösku, grámórauð. Annað gott dæmi um hvernig vaxtarlag þeirra er öðruvísi en þeirra sem standa í kring. Mynd: Guðlaug G.I.M.B. frá Gróustöðum.
Golsótt forystulamb á Gróustöðum, sem fylgist vel með öllu í kringum sig. Mynd: Guðlaug G.I.M.B. frá Gróustöðum.
Blendingurinn Rúsína, sem hefur verið þekkt í nokkur ár fyrir að líta út við fyrstu sýn eins og hefðbundin kind, en er við nánari athugun nokkuð háfætt og hefur allt geðsleg frá móðurættinni, sem voru forystur. Mynd: Guðlaug G.I.M.B. frá Gróustöðum.
Nýfætt, svart forystulamb sem er augljóslega með ógurlega langa fætur. Mynd: Guðlaug G.I.M.B. frá Gróustöðum.
Lambhrúturinn Jónatan horfir og brosir til myndatökumanns. Mynd: Karólína Elísabetardóttir frá Hvammshlíð.
Forystuærin Flotnös, 10 vetra, með ásetningsgimbrina sína Flotsokku og hrútlamb, undan Torfa sem var á sæðingastöð. Mynd: Valdís Einarsdóttir.