Leiðist mér að liggja hér í ljótum helli;
betra er heima á Helgafelli
að hafa þar dans og glímuskelli.

Glíman hefur fylgt Íslendingum frá landnámi, til dagsins í dag og þróast samhliða þeim fjölmörgu breytingum sem samfélagið hefur gengið í gegnum. Ef marka má vísuna úr Draugahelli hér í upphafi, hefur glíman jafnvel fylgt Íslendingum milli heima.

Skráð:

28.09.2021

Skráð af:

Glímusamband Íslands

Skráð af:

Reynir A. Óskarson

Landfræðileg útbreiðsla:

Allt landið

Glíman á sér að mestu óbrotna sögu og tilgang frá söguöld til dagsins í dag. Frá landnámi til Gamla sáttmála, frá sjálfstæðismissi til breytinga á konungsveldi, í gegnum harðindi, sóttir og landflótta, frá heiðni til rómverks-kaþólskrar kristni til mótmælendatrúar, í gegnum allar þær breytingar sem Ísland og íslenskt samfélag hafa farið í gegnum stóð glíman við hlið okkar og neitaði að hopa á fæti þegar á reyndi, eins og tryggur hundur. Hún er í raun eina íþróttin sem lifði af víkingaöld. Glíman var okkur sjálfsbjargartól á tímum þegar líkamleg átök voru við hvert horn. Hún var uppeldistól þegar átökum fyrri tíma lauk, hún var eitt öflugasta tól sjálfstæðisbaráttunnar þegar Íslendingar huguðu að því, og nú síðustu áratugi hefur hún verið jafn göfug og hún er sérkennileg íþrótt fyrir almenning að stunda.

Tilgangur glímunnar hefur breyst í aldanna rás, og aðferðafræði við glímuiðkun hefur fylgt því. Öllum þessum breytingum er hægt að fylgja þar sem glíman á sér nær óbrotna sögu frá upphafi. Glíma fyrri tíma var eins og svissneskur vasahnífur, eitt verkfæri með mörg not. Hún var skemmtun, hún var ein virkasta íþróttin til að sanna sig fyrir öðrum, hún var leið til að halda á sér hita í harðindum og vetrarferðum og hún var skætt vopn í hættulegum heimi. Jötnar, draugar, uppvakningar, útilegumenn, vígamenn og margir aðrir óvættir voru felldir með glímuna eina að vopni. Það sem meira er, heimsveldi voru felld með glímunni.

Stór vendipunktur í lífi Íslendinga jafnt sem glímunnar var þegar Íslendingar fengu mikilfenglegar hugmyndir um sjálfstæði þjóðar um miðja 19. öld. Þetta var mikið umrótartímabil, þar sem Íslendingar þurftu að taka ákvarðanir um hvað það var að vera Íslendingur og hvað var íslenskt jafnt sem hvað var ekki íslenskt. Glíman var ekki undanskilin á þessu tímabili breytinga, hún varð að tóli aðgreiningar og sérstæðis, eitthvað sem hægt var að segja að væri séríslenskt, sverð og skjöldur nýrrar þjóðar. Það er á þessum tímamótum sem við byrjum fyrst að sjá glímuna sem við þekkjum í dag, hina nútímavæddu glímu.

Þessari nýju glæstu framtíð glímunnar virðist hafa verið stjórnað úr stýrishúsi Bessastaðaskóla, sem var miðpunktur menntunar á Íslandi. Í forstofu Bessastaða var glímt hvern dag, það voru nemar þaðan sem urðu hvað ákafastir í því að Ísland fengi frelsi og sjálfstæði. Þetta tímabil glímunnar er að öllu leyti stórfenglegt og hafði líklega meiri áhrif á valdeflingu Íslendinga en áður hefur verið talið. Það er í núverandi aðsetri forseta Íslands sem að nútímavædd glíma verður í raun til.
Þann 17. júní 1944 var glímt allstaðar á landinu og utan lands þar sem Íslendingar voru, glíman hafði í hið minnsta að hluta til orðið þess valdandi að við vorum nú sjálfstæð þjóð. Það er svo nokkru seinna, eftir að sjálfstæðisstorminum lægir, að hlutverk glímunnar sem tól til aðgreiningar og sérstæðis, minnkar svo um munar.

Í dag er glíman orðin að skipulagðri íþrótt með sitt eigið samband innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, rétt eins og keila og körfubolti. Konur og karlar á öllum aldri geta núna stundað glímu og keppt sér til gagns og gamans, með formlegum æfingum og formlegum reglum.

Glíman er samt mun meira en keppnisíþrótt og erfitt er að bera hana saman við nokkra aðra íþrótt sem keppt er í á Íslandi. Hún hefur fylgt Íslendingum frá landnámi til dagsins í dag, viðhaldið þessari fornu arfleið og þótt hún hafi gengið í gegnum breytingar, svífur andi frumfangsins ennþá yfir glímunni. Mörg brögðin eru eins, og bera sama nafn og í frumheimildunum og glímubeltið ýtir undir áþekka aðferðafræði við að útfæra brögðin, sérstaklega hábrögðin þar sem glímufélaga er lyft upp á bringu sér áður en honum er jarðvarpað.

Glíman er í raun allt í kringum okkur. Hún er í staðsetningum eins og Fangbrekku á Þingvöllum, Glímustofu í Dritvík og Hryggbrjóti einu þekktu fanghellu í heimi í Hringsdal. Hún er í daglegu tali okkar; krókur á móti bragði, að brjóta eitthvað á bak aftur, að ná undirtökunum, að láta kné fylgja kviði og svo framvegis.

Í dag er glíman meira en sjálfsbjargar tól, meira en uppeldis tól, meira en tól til aðgreiningar og sérstæðis, meira en jafnvægisíþrótt og meira en almenn fangbrögð. Glíman er menning, saga og hugarfar Íslendinga í formi hreyfilistar og ber því með rentu titilinn þjóðaríþrótt.

Heimildir

Listi yfir þær heimildir sem notast hefur verið við í skrif þessarar greinar er of yfirferðar mikill til að komast fyrir hér, því er stiklað á stóru.

Íslendingasögur samanber Grettis saga,
Fornaldarssögur samanber Án saga bogasveigis,
Konungasögur samanber Magnússona saga,
Þjóðsagnasöfn samanber sagan af Guðrúnu glímnu í þjóðsögum Jóns Árnasonar,
Handrit geymd á handritadeild landsbókasafns samanber Lbs 2413
Ferðahandbækur og Íslands lýsingar samanber Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um ferðir þeirra á Íslandi árin 1752-1757
Æviminningar samanber Minningar glímukappans eftir Stefán Jónsson
Önnur glímutengd rit eins og Glímur eftir Hermann Jónasson

Vefsíður

Vefsíða Glímusambands Íslands https://glima.is/

Myndasafn

Grettisbeltið og Freyjumenið. Verðlaunagripir sem glímumenn berjast um að bera. Sigurvegarar hljóta sæmdarheitin Glímudrottning- og Glímukóngur Íslands. Vel ber að merkja að Grettisbeltið er elsti verðlaunagripur Íslandssögunnar.

Einn frægasti og áhrifamesti glímumaður Íslandssögunnar, Jóhannes Jósefsson, glímir hér við sirkusbjörn.

Viðureign í kvennaflokki milli Marínar Laufeyjar Davíðsdóttur og Margrétar Rúnar Rúnarsdóttur.Glíman teygir anga sína í alla kima samfélagsins og kvenréttindabaráttan er þar engin undantekning, en það var ekki fyrr en árið 1988 að konur fengu rétt til að keppa í glímu.

Galdrastafir gáfu bersýnilega í ljós hvað það þótti mikilvægt í samfélaginu að best væri að leita á náðir hins yfirnáttúrulega til aukins styrks. Hér sjást þrír af glímugaldrastöfunum.

Hryggjarbrjótur, í Hringsdal. Eina fanghellan sem vitað er um.

Lausamjöðm tekin í miðri keppni þar sem Arngeir Friðriksson og Ólafur Kristjánsson keppast að.