Þeir dansar sem í daglegu tali eru nefndir „gömlu dansarnir“ voru eitt sinn nefndir „nýju dansarnir“. Um er að ræða paradansa eins og t.d. vals, ræl, polka, vínarkruss, masúrka og skottís.

Skráð:

28.02.2020

Skráð af:

Danshópurinn Sporið

Landfræðileg útbreiðsla:

Allt landið

Þeir dansar sem nú eru kallaðir „gömlu dansarnir“ voru nefndir nýju dansarnir um eða rétt fyrir aldamótin 1800. Valsinn er fyrst tilgreindur, en um svipað leyti er einnig getið um að dansaður væri ræll.

Í upphafi nítjándu aldar eru síðustu heimildir um vikivakagleði. Frá svipuðum tíma má finna heimildir um aðra nýrri dansa sem fólk dansaði hér á landi. Auk valsa og ræla voru það t.d. polki, vínarkruss, masúrki og skottís. Þetta eru paradansar, ólíkt vikivökunum. Gamli marsinn og hringdans (kokkurinn) með tilheyrandi leikjum og dönsum flokkast einnig til gömlu dansanna.

Gömlu dansarnir eru taldir hafa borist til landsins erlendis frá með íslenskum námsmönnum, en einnig með erlendum sjómönnum og kaupmönnum.  Dansarnir þróuðust og breyttust með árunum. Nýir bættust við og sumir duttu út. Ýmis tilbrigði voru ólík milli landshluta þannig að margir gömlu dansanna, eins og þeir hafa verið dansaðir í seinni tíð, eru orðnir séríslenskir og ekki til annars staðar. Í nágrannalöndunum er marsinn ekki til í þeirri mynd sem hann var hér.

Sterk tengsl eru á milli gömlu dansanna og harmonikunnar enda var hún algengasta hljóðfærið á dansleikjum fram eftir síðustu öld. Harmonikan barst hingað til lands eftir miðja 19. öld. Fyrir þann tíma var oft leikið á fiðlu fyrir dansi og síðar var spilað á fiðlu, píanó, orgel eða munnhörpu og jafnvel sungið og trallað ef harmonikan var ekki til staðar.  Á tímabili á árunum eftir 1836 var spilað á lírukassa á böllum í Reykjavík.  Í Þingeyjarsýslum var algengt á fyrstu áratugum 20. aldar að spilað væri á fiðlu fyrir dansi en einnig á bæði fiðlu og harmoniku saman.

Enn í dag er harmonikan vinsæl á gömludansaböllum.

Í byrjun 20. aldar voru gömlu dansarnir ríkjandi hér á landi. Til að mynda voru auglýsingar um gömludansaböll á fimm stöðum í Reykjavík á sama tíma.

Dansinn var almenningseign þar sem fólk lærði hvert af öðru. Dansleikir voru algengir og mikið um dans eftir félagsfundi, ræður og aðrar skemmtanir auk þess sem dansað var á veitingastöðum. Á milli 1960-1970 voru gömludansaböll algeng í Reykjavík og einnig voru syrpur með gömlu dönsunum á almennum dansleikjum.

Nú eru gömlu dansarnir aðallega dansaðir innan sérstakra hópa. Má nefna Þjóðdansafélag Reykjavíkur, Dansfélagið Vefarann, harmonikufélögin um allt land, hjónaklúbba o.fl. Á Egilsstöðum starfaði um áraraðir þjóðdansahópur er nefndi sig Fiðrildin. Ennþá eru gömlu dansarnir eitthvað dansaðir á þorrablótum og árshátíðum, einkum á landsbyggðinni.

Árið 1994 kom út bókin „Gömlu dansarnir í tvær aldir“ sem tekin var saman af Sigríði Þ. Valgeirsdóttur og Mínervu Jónsdóttur.  Þær ferðuðust á sínum tíma um landið og skráðu niður eftir landshlutum, hvernig dansarnir voru nákvæmlega útfærðir. Í bókinni er saga gömlu dansanna á Íslandi rakin mjög ítarlega.

Nokkur orð um Danshópinn Sporið.  Sporið hefur starfað formlega síðan 1995 en saga hans byggir á eldri grunni, starfi þjóðdansahóps á Hvanneyri í Borgarfirði á árunum 1975 – 1983.  Í hópnum eru nú á annan tug danspara, söngvarar og harmonikuleikarar.

Meginverkefni hópsins hefur verið og er að endurvekja og varðveita íslenska þjóðdansa og gamla dansa og koma þeim á framfæri með sýningum, bæði innan lands og utan. Einnig hefur hópurinn haldið námskeið og séð um kennslu til nýrra félaga.

Heimildir:

Sigríður Þ. Valgeirsdóttir og Mínerva Jónsdóttir. 1994. Gömlu dansarnir í tvær aldir. Reykjavík.

Vefsíður:

Sjónvarpsþátturinn Landinn, 30. janúar 2011. Sjá hér.

Matthildur Guðný Guðmundsdóttir. 2014. „Gömludansarnir – þjóðararfur.“ Morgunblaðið, 28. janúar 2014. Sjá hér.

Danshópurinn Sporið, sjá heimasíðu hér.

Myndasafn