Gvendardagur er 16. mars. Þá lést Guðmundur góði Arason Hólabiskup árið 1237. Guðmundar- eða Gvendardagur varð messudagur í Hólabiskupsdæmi árið 1315 þegar bein hans voru tekin upp. Heimildir eru til um nokkurt tilhald á messudegi Guðmundar allt fram á 20. öld., einkum á norðanverðum Vestfjörðum. Sunnanlands var gert ráð fyrir veðrabrigðum til hins verra þennan dag. (Árni Björnsson, 1996)

Skráð:

19.02.2019

Skráð af:

Ritstjóri

Landfræðileg útbreiðsla:

Vestfirðir

Dánardagur Guðmundar góða Arasonar Hólabiskips 16. mars 1237 hlaut seinna nafnið Guðmundardagur eða Gvendardagur.

Guðmundur var fæddur árið 1161 og varð biskup á Hólum árið 1203. Guðmundur mátti ekkert aumt sjá og safnaðist löngum að honum tötralýður. Hann lenti því brátt í deilum við höfðingja norðanlands, einkum fyrir þá sök að þeim þótti hann fara ógætilega með fé Hólastóls. Var hann þrásinnis flæmdur af staðnum og flakkaði þá um landið með herskara fátækra í för með sér. Af þessum sökum hlaut hann viðurnefnið góði. Eftir dauða Guðmundar var langvarandi viðleitni í þá átt að fá Guðmund viðurkenndan sem heilagan mann sem þó aldrei varð. Andlátsdagur Guðmundar, 16. mars, var enginn sérstakur hátíðisdagur fyrr en árið 1315 þegar bein hans voru tekin úr jörðu og skrínlögð í Hóladómkirkju fyrir forgöngu Auðuns biskups rauða. Til eru heimildir um að á þessum degi hafi búmenn verið skyldaðir til að gefa ölmusumálsverð og fremur átt að hygla fátækum á þessum degi sem og að gefa bæjarhröfnum betur en ella. Eins eru til heimildir um að búast mætti við veðrabrigðum þennan dag. (Árni Björnsson, 1996)

Lesandi vefsins hafði samband. Hann sagðist halda í þann sið að bjóða systkinum sínum og mökum þeirra í mat á Gvendardegi. Sagðist hann með því vera að viðhalda sið frá heimili foreldra sinna þar sem boðið var uppá betra með kaffinu þennan dag. Lesandi var alinn upp á Hólmavík en móðir hans hafði unnið hjá konu sem var ættuð úr norðanverðum Árneshreppi. Telur hann móður sína hafa vanist því þá að gera sér dagamun á Gvendardegi, t.d. með því að hafa betra með kaffinu þann dag.

Á vefnum www.ismus.is má heyra heimildarmenn lýsa tilhaldi á Gvendardegi t.d. að hafa betra með kaffinu. Þar segir heimildarmaður einnig frá þeirri trú að þeir yrðu aldrei matarlausir í búi sínu sem héldu upp á Gvendardaginn. (Sjá nánar hér)

Við viljum gjarnan vita hvort að fleiri kannist við að halda í hefðir sem tengjast Gvendardegi. Við hvetjum lesendur til að hafa samband við okkur og deila þekkingu sinni.

Heimildir:

Árni Björnsson, Saga daganna. Reykjavík: Mál og menning, 1996, bls. 593-598.

Myndasafn

Mynd af Ermolaus biskup og Guðmundi góða (til hægri á myndinni). Myndin er í eigu Háskólabókasafnsins í Uppsala en birtist í bókinni Íslenskar bænir fram um 1600, sem Svavar Sigmundsson bjó til útgáfu og var gefin út af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum árið 2018.

Ljósmynd af líkneskisskáp. Sjá má Guðmund góða í biskupsskrúða hægra megin, ásamt Páli postula sem er með sverð. Vinstra megin er Pétur postuli í biskupsskrúða og Mikael erkiengill. Ólafur helgi frá Vatnsfirði er fyrir miðju. Ljósmynd af líkneskinu birtist í ritinu Kristni á Íslandi, II. bindi. Íslenskt samfélag og Rómakirkja. Bókin var gefin út af Alþingi árið 2000 og er í ritstjórn Gunnars F. Guðmundssonar.