Frá lokum 19. aldar og fram yfir miðja 20. öld átti harmonikan sitt blómaskeið í dansmenningu landans. Þrátt fyrir meiri fjölbreytni í hljóðfæraskipan og dansmenningu nú á tímum lifir harmonikan góðu lífi meðal þeirra sem unna dans og gleði enda harmonikan nefnd hljóðfæri gleðinnar. Fjölmörg harmonikufélög eru starfandi um landið og harmonikumót haldin víða um land á sumrin þar sem dansinn dunar við hressilegan harmonikuleik.
Ef koma ætti sögu harmonikunnar og starfi harmonikufélaganna í landinu á blað yrði það löng saga. Ég ætla mér að freista þess að koma í orð kjarnanum úr því ferli í sem stystu máli.
Í viðtali við tímaritið Harmonikan segir sagnfræðingurinn Lýður Björnsson frá því að danskur maður að nafni Stillhoff, sem var skipstjóri á póstflutningaskipi, hafi sennilega fyrstur manna leikið á harmoniku á dansleikjum í Reykjavík. Stillhof hóf ferðir hingað til lands árið 1841, en mun hafa drukknað er skipið fórst undir Svörtuloftum á Snæfellsnesi árið 1857. (Harmonikan 1.tbl. 7. árg. 1992-93)
Í bókinni Íslenskir sagnaþættir og þjóðsögur VII eftir Guðna Jónsson er að finna frásögn af manni nokkrum, Brandi Ögmundssyni frá Kópsvatni, um að hann hafi leikið á harmoniku þjóðhátíðarárið 1874. Fróðleik um téðan Brand má einnig finna í 3. tbl. 6. árg. tímaritsins Harmonikan. Heimildir um harmonikuleik á Íslandi eru slitróttar fram til ársins 1900. Um aldamótin 1900 er harmonikueign landsmanna orðin allnokkur og vinsældir hljóðfærisins það miklar að segja má að hún hafi tekið yfir önnur hljóðfæri sem fram að því höfðu verið aðal undirleikshljóðfærin á gleðistundum almúgans gegnum aldirnar, þ.e.a.s. langspil, fiðla og orgel.
Fyrir og um aldamótin 1900 eru algengustu harmonikurnar einfaldar og síðar tvöfaldar, þ.e. svokallaðar diatónískar hnappanikkur. Þetta breytist upp úr aldamótunum er hinar krómatísku harmonikur litu dagsins ljós og ná miklum vinsældum, fyrst með hnöppum og síðar með píanóborði og svokölluðum Stradella bassa. Allar þessar gerðir eru notaðar í dag um víða veröld en mismunandi mikið eftir löndum.
Harmonikan náði miklum vinsældum hérlendis sem og víðar um heim en veldi hennar nær sennilega hámarki hér kringum 1960. Á dansleikjum til sjávar og sveita voru gömlu dansarnir svokölluðu vinsælastir, þ.e. vals, ræl, skottís, masúrka, vínarkrus og polki ásamt ýmsum leikdönsum sem voru í hávegum hafðir. Til gamans má geta þess að félag harmonikuleikara var stofnað í Reykjavík árið 1936, með þeirri sérstöku áherslu að berjast fyrir hærri launum til handa harmonikuleikurum og ýta undir að menn lærðu að spila eftir nótum. Félagið hét Félag harmonikuleikara Reykjavík en það lognaðist útaf í upphafi stríðs, 1940-1941.
Þegar gítarinn hóf innreið sína í danshljómsveitir ásamt ýmsum öðrum hljóðfærum og annars konar tónlist varð breyting á dansmenningunni. Smám saman dró úr áhuga fyrir harmonikutónlist, svo mjög að í kringum 1970 má segja að jafnvel færustu nikkarar hafi varla þorað að taka harmonikuna upp úr kassanum, hvað þá að spila. Gömlu dansarnir háðu sitt dauðastríð um þetta leyti.
Almenni músíkskólinn með Karl Jónatansson í broddi fylkingar þráaðist við og hélt áfram að kenna á harmoniku. Ýmsir fleiri sem áttu það sameiginlegt að vilja halda harmonikuhefðinni við héldu einnig áfram að kenna á hljóðfærið. Árið 1977 fékk Karl Jónatansson harmonikuleikari og kennari þá sprengihugmynd að stofna harmonikufélag. Eftir jaml, japl og fuður var fyrsta harmonikufélag á Íslandi stofnað þann 8. september 1977. Markmið félagsins var að endurlífga áhuga og fyrra stolt um hljóðfæri gleðinnar og reyna að bjarga hinni gömlu hefð að dansa gömlu dansana við ómandi harmonikuleik.
Félagið fékk nafnið Félag Harmonikuunnenda Reykjavík. Fjöldi manns mætti á stofnfundinn og frá þessu var sagt í dagblöðum og ekki dregið af hve miklar vonir voru bundnar við stofnun þessa félags. Ekki stóð heldur á viðbrögðunum. Á fyrstu auglýstu samkomunni fylltist allt af fólki, harmonikuunnendum sem og harmonikuleikurum. Engu var líkara en þetta fólk hafi verið lokað inni en skyndilega hleypt út. Frásögn þessi er kannski eitthvað ýkt en skemmst er frá því að segja að þessi boðskapur breiddist út og ári síðar, árið 1978, er annað harmonikufélag stofnað norður í Þingeyjarsýslu og árið 1979 er félag stofnað á Vesturlandi.
Árið 2000 eru 20 eða 21 harmonikufélög starfandi í öllum landshlutum. Félögin vinna að því markmiði að viðhalda hinni gömlu danshefð ásamt því að hvetja harmonikuleikara eldri sem yngri til að leggja sig fram við hljóðfærið. Hljómsveitir voru stofnaðar og félögin hvöttu tónlistarskóla til að kenna ungu fólki á harmoniku. Mörg félög gáfu skólunum harmonikur og þetta smá vatt upp á sig. Félag Harmonikuunnenda í Reykjavík þar sem ég þekki best til hefur síðastliðin 43 ár haldið uppi dansleikjum með gömlu og nýju dönsunum 5 – 6 sinnum á ári, þar með talið þorrablót. Þá hefur félagið boðið erlendum harmonikusnillingum á árshátíðir eða aðra stórviðburði til að kynda undir áhuga fólks á hinni gömlu danshefð.
Ef litið er til dagsins í dag hefur harmonikufélögum fækkað nokkuð og eru nú um 15 talsins, en þó skal tekið fram að nokkur dæmi eru um að félög hafi sameinast. Flest félögin starfa á líkum grunni sem fyrr, bara mismikið.
Árið 1981 var stofnað landssamband harmonikuunnenda S.Í.H.U. (Samband íslenskra harmonikuunnenda). Hugmyndasmiður þess var einnig fyrrnefndur Karl Jónatansson. Á þriggja ára fresti er haldið landsmót í einhverjum landshlutanum fyrstu helgi júlímánaðar og stendur mótið í þrjá daga. Þar koma saman hin ýmsu félög innan sambandsins með hljómsveitir, dúetta eða einleikara og sýna sitt besta ásamt danshljómsveitum. Dansað er þrjú kvöld og kalla má þessar samkomur stórdansleiki, enda valin stærstu samkomuhús hvers staðar þar sem mótin eru haldin. Þarna kynnist fólk innan félaganna og utan, því allir eru velkomnir. Líkja má harmonikuunnendum við eina stóra samheldna fjölskyldu með sameiginlegt áhugamál.
Mig langar að geta eins þáttar enn er skiptir miklu máli og tengist áðurnefndri starfsemi verulega og lagði mikið af mörkum við að halda saman í skrifum og myndum þekkingu til handa harmonikuunnendum. Við félagarnir Hilmar Hjartarson og Þorsteinn Þorsteinsson hófum útgáfu harmonikublaðs árið 1986, tímaritið Harmonikan. Markmiðið var að aðstoða félögin og félagsmenn þeirra við að koma upplýsingum um hvað væri að gerast hér og þar um landið, því fjarlægðirnar eru svo miklar í okkar stóra landi. Blaðaútgáfan fékk mun betri móttökur en okkur grunaði. Gefin voru út þrjú blöð á ári, yfirleitt 24 síður í A4 stærð, með allslags efni tengdu harmonikunni. Í tímaritinu birtust viðtöl, fræðsluefni héðan og erlendis frá, frásagnir frá eldri tíma, auglýsingar um viðburði og ótalmargt fleira. Þorsteinn hætti eftir tíu ára starf en undirritaður hélt kyndlinum á lofti í fimm ár til viðbótar eða til ársins 2001. Samband íslenskra harmonikuunnenda sá hversu slík blaðaútgáfa skipti miklu máli fyrir harmonikustarfið í landinu og hóf árið 2002 að gefa út sitt eigið blað, tímaritið Harmonikublaðið er hefur komið út allar götur síðan, og er að hefja sitt 19. áskriftarár.
Fyrrnefndir blaðaútgefendur létu ekki þar við sitja. Við ákváðum að koma á fót harmonikumóti að erlendri fyrirmynd. Með tímaritaútgáfunni var vettvangur til að breiða út þann boðskap enn frekar. Eitt sem braust um í kollinum á okkur var að engar útiskemmtanir stóðu miðaldra fólki til boða á þessum tíma. Við hugsuðum: látum vaða. Við byrjuðum með tilraunamót austur í Galtalækjarskógi árið 1987 sem var fámennt en virtist bera í sér vonarneista um að þróa enn frekar. Næsta sumar auglýstum við mótið í blaðinu, sem mót fyrir alla harmonikuunnendur hvaðanæva af landinu. Viðbrögðin komu á óvart og fólk fór að koma víða að. Mótshaldarar með eiginkonum sínum lögðu sig fram um að finna upp á öllu mögulegu, fara í leiki með börnunum og spila eða syngja saman, jafnvel dansa á flötunum framan við tjöldin. Skammt yfir sögu farið héldum við þessi mót í fimm ár í Galtalækjarskógi. Aðsóknin varð sífellt meiri og fólk lofsamaði framtakið. Svo breyttum við um mótsstað, fluttum okkur á yndislegan stað í Þrastaskóg í Grímsnesi, glæsilega flöt í miðjum skóginum. Þar bauðst maður nokkur til að byggja danspall. Hann var notaður og nýttur til hins ítrasta. Ásamt þessu brydduðum við upp á alls lags nýungum, auglýstum í bæklingi er fylgdi blaðinu að skemmta sér á heilbrigðan hátt og skilja vel við svæðið að loknu móti. Til gamans má geta þess að gifting fór fram á einu mótanna í Þrastaskógi árið 1997, eini slíki atburðurinn á harmonikumóti á landinu.
Mótin stóðu þarna næstu fimm ár, og áttum við nú orðið 10 ár að baki með harmonikumót úti í náttúrunni. Sem betur fer tóku ýmis harmonikufélög upp þráðinn og fóru að halda mót og þá bundin við samkomuhús sem er jú heillavænlegra vegna okkar veðurfars, nákvæmlega það sem okkur dreymdi um að yrði. Nú í dag eru haldin fimm slík mót á hverju sumri víðs vegar um landið, sem eru verulega vel sótt og tilhlökkunarefni allra harmonikuunnenda. Þá er dansað sungið og skemmt sér á heilbrigðan hátt. Gömlu dansarnir eru þar aðal dansformið, með allnokkru inngripi nýju dansanna. Oft er boðið upp á hringdans eða ýmsa leikdansa. Stjörnupolki heyrist líka eða Skoski dansinn og Napoleon polki, allt er í boði enn þann dag í dag.
Á vefnum timarit.is má finna árganga af tímaritinu Harmonikan hér.
Á vefnum timarit.is má finna árganga af Harmonikublaðinu, útgefnu af Sambandi íslenskra harmonikuunnenda, hér.
Myndasafn
Frá vinstri: Hilmar Hjartarson með píanóharmoniku og Friðjón Hallgrímsson með tvöfalda díatóniska harmoniku, Galtalækjarskógi 1991. Ljósmynd: H.H.
Félagar Harmonikufélags Vestfjarða leika fyrir gesti á móti Harmonikunnar í Þrastaskógi 1995. Ljósmynd: H.H.
Þekkt nöfn í Þrastaskógi. Frá vinstri: Bragi Hlíðberg, Reynir Jónasson og Grettir Björnsson. Ljósmynd: H.H.
Mótssvæðið í Þrastaskógi 1994. Eins og sjá má gista gestir í tjöldum og sennilega líka tjaldvögnum. Ljósmynd: H.H.
Hér má sjá útgefendur tímaritsins Harmonikan og mótshaldara. Frá vinstri: hjónin Hilmar Hjartarson og Sigríður Sigurðardóttir og hjónin Ágústa Bárðardóttir og Þorsteinn Þorsteinsson. Ljósmynd: H.H.
Verðlaunahafar í Þrastaskógi. Verðlaun voru veitt fyrir ýmis afrek á mótum Harmonikunnar. Mynd: H.H.