Smíði súðbyrðings hefur fylgt Íslendingum frá landnámi og súðbyrðingar hafa verð smíðaðir um land allt en hafa breytilega lögun sem fyrst og fremst skapast af náttúrulegum kringumstæðum og notkun.

Skráð:

09.10.2018

Skráð af:

Vitafélagið –íslensk strandmenning

Landfræðileg útbreiðsla:

Allt landið

 

Smíði súðbyrðings byggir á handverkshefð þar sem neðri brún fjalar leggst ofan á efri brún næstu fjalar fyrir neðan. Í upphafi voru borðin saumuð saman áður en trénaglar og síðar járn- og koparnaglar komu til sögunnar. Þessi mikilvæga menningararfleið og handverkshefð gerði mönnum kleift að stunda sjósókn, veiðar, landbúnað og flutninga. Í þessari hefð varðveitist þekking sem var grundvöllur menningar strandbyggðanna og arfleiðar hennar. Nú tengist notkun súðbyrðings frístundum og útiveru.

Áhöld, efniviður og aðstaða sem þarf við smíði súðbyrðings eru: Góð aðstaða innandyra- í húsi sem ekki er upphitað. Bandsög og handheflar, hnoðverkfæri og góður viður.

Í upphafi voru borðin saumuð saman áður en trénaglar og síðar járn- og koparnaglar komu til sögunnar. Í upphafi tuttugustu aldar var farið að setja vélar í báta, gerðir og stæðir bátanna breyttust og þá var farið að kalla þá einu nafni trillur.

Framundir 1980 var mikil gróska í smíði súðbyrtra báta en eftir 1980 tóku plastið og stálið við og smíði og þekking og smíði súðbyrta báta dalaði mjög.

Handverkshefðin við smíðina lærðist fyrst og fremst frá manni til manns en var síðan einnig kennd við flesta iðnskóla landsins á tuttugustu öld. Frá aldamótum hefur einungis einn íslendingur útskrifast í tréskipasmíði og enginn skóli hefur nú fagið á námskrá. Áður var báturinn nauðsynlegt tæki sem gerði fólki kleift að stunda sjósókn, veiðar, landbúnað og flutninga. Þannig var þekking manna á smíði súðbyrðings grundvöllur menningar strandbyggðanna og arfleiðar hennar. Súðbyrtir bátar eru enn smíðaðir með sama hætti og áður en nú eru þeir helst notaðir til skemmtunar og útiveru

 

Nú til dags eru það bátasmiðir sem smíða súðbyrðinga og við Síldarminjasafn Íslands á Siglufirði eru haldin námskeið í smíði súðbyrðinga og viðhaldi á þeim. Á sjóminjasöfnum landsins er einnig að finna súðbyrta báta sem eru til sýnis og fróðleik um þá.  Á Reykhólum eru árlega haldnir Bátadagar á Breiðafirði þar sem siglingahefðinni er viðhaldið og hún sýnd.

Auk einstaklinga sem hafa þekkingu á smíði súðbyrðinga miðla ýmis félög og söfn þekkingu um smíðina og bátana. Sem dæmi má nefna:

Síldarminjasafn Íslands á Siglufirði, sjá www.sild.is.

Meðal hlutverka Síldarminjasafns Íslands á Siglufirði er að standa vörð um verkþekkingu við smíði súðbyrðinga og trébáta með því að veita fræðslu og standa fyrir námskeiðum. Safnið stendur árlega fyrir námskeiðum þar sem verkþekkingunni er miðlað áfram til nýrrar kynslóðar. Á námskeiðunum er ýmist unnið að nýsmíði súðbyrðinga eða viðgerðum á eldri bátum. Síldarminjasafnið hefur jafnframt tekið þátt í samstarfi við erlend söfn um bátasmíði og varðveislu verkþekkingarinnar, sem dæmi má nefna Bátaverndarmiðstöð Norður-Noregs í Gratangen og Sjóminjasafnið í Gdansk og útibú þess í Katy Rybackie.

Félag áhugamanna um Bátasafn Breiðafjarðar á Reykhólum, sjá www.batasmidi.is.

Félagið hefur það að markmiði  að „safna, skrá, varðveita og sýna muni og minjar sem hafa gildi fyrir sögu báta, bátasmíða og siglinga við Breiðafjörð. Þá skal safnið stuðla að nýsmíði súðbyrðinga, varðveita þekkingu í því fagi eftir föngum, efla siglingakunnáttu og halda til haga vitneskju um gamlar siglingaleiðir á Breiðafirði.“ Félagið hefur í samvinnu við Iðu fræðslusetur boðið upp á námskeið, sem notið hafa vinsælda, í smíði súðbyrðinga en að jafnaði hafa 2-4 námskeið verið haldin á ári.

 

Myndasafn