Stuðlasetning gengur eins og rauður þráður gegnum alla íslenska kveðskaparhefð allt fram um miðja 20. öld þegar óhefðbundin ljóð urðu hluti af ljóðhefðinni. Hefðin byggist á því að allur kveðskapur er bundinn við svokallaða stuðla og höfuðstafi eftir fornum reglum. Stuðlasetningin lifir enn góðu lífi meðal Íslendinga.

Skráð:

19.03.2019

Skráð af:

Ragnar Ingi Aðalsteinsson

Landfræðileg útbreiðsla:

Allt landið

Stuðlasetningarhefðin er svo gömul að enginn veit aldur hennar. Hún er eldri en Íslandsbyggð, fylgdi okkur í upphafi frá Noregi. Grunnreglurnar sem stuðlunin byggist á eru í dag óbreyttar frá því sem þær voru fyrir landnám. Vísnasmiðir sem í dag sitja á palli á hagyrðingamótum nota í grunninn nákvæmlega sömu reglurnar og Bragi Boddason, norskt skáld sem var uppi fyrir miðja 9. öld. Þær breytingar sem orðið hafa á stuðluninni á þessum tíma, sem eru örfáar og smáar, stafa af því að framburður hefur breyst og hagyrðingar og skáld hafa í aldanna rás elt þessar framburðarbreytingar og vikið reglunum til í samræmi við breyttan framburð. Stuðlunarhefðin er því í grunninn nákvæmlega eins og hún var í upphafi.

Stuðlasetning

Stuðlasetning í íslenskum kveðskap byggist á því að ákveðin hljóð eru endurtekin í braglínum með það stuttu millibili að eyrað nemi það sem einhvers konar samfellu. Þessi hljóð kallast einu nafni ljóðstafir og skiptast í stuðla og höfuðstafi. Algengast er að tvær línur stuðli saman. Þær kallast þá braglínupar.

Jafngildisflokkar

Þau hljóð sem stuðla saman mynda það sem kallast jafngildisflokkur.

Samhljóðarnir í íslensku mynda hver um sig einn jafngildisflokk; stuðlar við b, stuðlar við d, stuðlar við o.s.frv. Ein undantekning er þó frá þessu. Ef samhljóðinn ser notaður sem ljóðstafur verður að gæta að því hvaða stafur kemur næst á eftir. Klasarnir sk, sl, smsn, sp og st stuðla aðeins innbyrðis en ekki hver við annan eða við önnur s-pör.

Sérhljóðarnir mynda einn jafngildisflokk. Allir sérhljóðar stuðla saman.

Fjöldi og staðsetning ljóðstafa – Kveður

Algengast er að þrír ljóðstafir fylgist að. Fyrri línan í braglínuparinu er kölluð frumlína og þar eru tveir stuðlar. Seinni línan er kölluð síðlína og þar er höfuðstafurinn.

Braglínan skiptist í kveður (bragliði) sem eru eins konar taktbil. Í rímnaháttunum eru fjórar kveður í frumlínunni og stuðlarnir tveir verða að standa þannig að annar þeirra sé í 3. kveðunni. Hinn stuðullinn má vera í 1., 2. eða 4. kveðu. Höfuðstafurinn er alltaf í fyrsta áhersluatkvæði síðlínunnar.

Ef frumlínan er aðeins þrjár kveður (eins og í dróttkveðum) mega stuðlarnir standa í hvaða tveimur kveðum sem er. Ef frumlínan er tvær kveður (eins og í fornyrðislagi) þarf strangt tekið ekki nema einn stuðul (í 1. eða 2. kveðu) en þeir mega vera tveir.

Sérstuðlaðar línur

Stundum gerist það að frumlínunni fylgir ekki síðlína með höfuðstaf heldur kemur þar önnur frumlína með aðra tvo stuðla. Það kallast þá sérstuðluð lína. Í ljóðahætti eru sex braglínur í hverju erindi og 3. og 6. lína eru sérstuðlaðar. Þá er mjög algengt að sjá sérstuðlaðar línur í limrum.

Stuðlasetningarhefðin í dag

Hin forna hefð er enn vinsæl og lifandi meðal Íslandinga. Hagyrðingamót eru vinsælar skemmtanir í dag. Þar kemur fólk saman til að hlusta á hagyrðinga sem sitja á palli og flytja vísur sínar um það sem er í gangi í samfélaginu. Þar er allt ort í samræmi við forna hefð. Árlega kemur út fjöldi bóka sem innihalda hefðbundinn kveðskap. Stuðlasetningarhefðin er alls ekki á neinu undanhaldi.

Upphaflega var þessi sama stuðlun ríkjandi í kveðskap vítt um Norður-Evrópu. Smátt og smátt lagðist hún af, líklega vegna þess að tungumálin breyttust. Einkum er talið að þegar orðaáherslan breyttist þannig að hún færðist inn í orðin, í stað þess að vera fremst eins og hún var víðast í upphafi, og er enn í íslensku, hafi það haft úrslitaáhrif á að stuðlunin hvarf sem fastur þáttur í kveðskapnum.

Varðveisla hefðarinnar

Ef hægt er að nefna einhver sérstök samfélög eða hópa sem öðrum fremur leggja rækt við stuðlasetningarhefðina skal bent á kvæðamannafálögin. Þau eru upphaflega stofnuð til að varðveita og styrkja rímnastemmurnar en á þeirra vettvangi hefur stuðluninni verið sinnt af miklum áhuga.

Vefefni um bragfræði:

Óðfræðivefurinn Bragi

Boðn – óðfræðifélag

 

 

Myndasafn

Hér má sjá síðasta blaðið í eina Passíusálmahandritinu sem varðveitt er með hendi Hallgríms Péturssonar, JS 337 4to, bl. 46v. Handritið er aðgengilegt á vefnum handrit.is. Ef vel er að gáð má sjá hvernig Hallgrímur notar stuðlasetningu.

Börn og unglingar læra um stuðlasetningu í íslenskukennslu í grunn- og framhaldsskólum landsins.

Ekki þarf að fletta lengi í gegnum Skólaljóðin til að finna prýðileg dæmi um stuðlasetningu. Skólaljóðin voru gefin út af Ríkisútgáfu námsbóka og hafa fagrar myndskreytingar hennar greypt sig djúpt í minni kynslóða ekki síður en kveðskapurinn.

Margir þekkja kvæðið um Snata og Óla eftir Þorstein Erlingsson þar sem stuðlasetning er notuð.

Són er tímarit helgað óðfræði og ljóðlist. Útgefandi er Óðfræðifélagið Boðn.