Ræktun, kynbætur, meðferð, þ.m.t. tamning og þjálfun, hrossa á sér samfellda sögu hér á landi allt frá landnámi. Búseta á Íslandi hefði verið nær óhugsandi án „þarfasta þjónsins“ sem var m.a. notaður sem samgöngutæki og burðardýr. Í dag má segja að hestamennska sé í senn íþrótt, menning og lífsstíll

Skráð:

15.10.2018

Skráð af:

Sögusetur íslenska hestsins - alþjóðleg miðstöð þekkingar og fræðslu um íslenska hestinn

Landfræðileg útbreiðsla:

Allt landið

Hestamennska, þ.e. ræktun, kynbætur, meðferð, þ.m.t. tamning og þjálfun, hrossa á sér samfellda sögu hér á landi allt frá landnámi. Hestamennska var samofin notkun hestsins sem „þarfasta þjónsins“ en búseta á Íslandi hefði verið nær óhugsandi án hestsins sem samgöngutækis og burðardýrs. Hesturinn var jafnframt notaður sem vinnuhestur fyrir vagna, plóg og heyvinnutæki, þótt það tímabil hafi verið stutt hér á landi samanborið við önnur lönd, þar sem tímabilið frá því að hagnýting hjólsins kom til hér á landi þar til landbúnaðarjeppar og dráttarvélar komu til sögunnar var vart nema u.þ.b. hálf öld. Því bjuggust ýmsir við því um miðja tuttugustu öldina, að sögu íslenska hestsins sem varðveist hafði hér á landi hreinræktaður, allt frá landnámi, væri lokið. Enn leyndust þó frjóangar hinnar aldagömlu hefðar reiðmennsku sem náð getur stigi reiðlistar er best tekst til, á meðal fólks. Eftir nokkurt hnignunarskeið tók við um og upp úr 1970 samfellt framfaraskeið í hestamennsku og hrossarækt. Þar sem drifkrafturinn er ræktun og tamning reið- og keppnishrossa, ekki hvað síst á erlendan markað. Íslenski hesturinn er nú með alþjóðlega útbreiðslu. Samhliða hefur mikilvægur lærdómur og þróun orðið vegna áhrifa alþjóðlegrar reiðmennsku á hefbundna íslenska. Það sem hér gerðist er í raun og veru afrek í stofnvernd. Þar sem gömlu landkyni er fundið nýtt hlutverk og það þannig verndað fyrir eigin verðleika en ekki í krafti neinna verndunaraðgerða með tilheyrandi kostnaði og fyrirhöfn.

Hestamennska er þannig jafngömul búsetu í landinu og stendur í blóma í dag. Hún hefur verið stunduð um land allt, þótt engum vafa sé undirorpið að hvergi er hún samofnari héraðinu frá fyrstu tíð en í Skagafirði.

Hestamennska verður ekki stunduð án sérhæfðs reiðbúnaðar; reiðtygja og fatnaðar en hvoru tveggja hefur tekið miklum breytingum í aldanna rás, ekki síst fyrir erlend áhrif.

Markmiðið með hrossarækt og hestamennsku er breytilegt. Í grunninn er hrossarækt búskapur en hefur sem slíkur alltaf haft ýmsa hagræna annmarka. Hrossakjötsframleiðsla og blóðtaka er stunduð en hefur lítið vægi innan greinarinnar. Drifkrafturinn er því hestamennskan sem er íþrótt, menning og lífsstíll. Bæði ljóðagerð og sagnamennska er mjög samofinn menningarþætti hestamennskunnar. Reiðmennska á stigi fag- og afreksmennsku er íþrótt og sem slík getur hún orðið að list í stöku tilfellum; reiðlist. Lífsstílinn hestamennska fellst ekki síst í að losa sig frá daglegum viðfangsefnum, oft er það fólgið í ferðamennsku um landið og er þannig samofinn þekkingu á náttúrunni og umhverfinu.

Hestamennska er mjög viðburðatengd. Þegar hæst ber má líkja því við hátíðarhöld en hæst ber landsmót hestamanna og heimsmeistaramót íslenska hestsins.

Ísland hefði verið nær óbyggilegt án hestsins sem nýttist til ferðalaga um veglaust land og sem burðardýr en hjólið var svo gott sem óþekkt hér á landi í gegnum aldirnar. Hesturinn og þjóðin hafa þannig átt órofa samleið og þjóðmenning og hestamennska er samþætt þótt augljóst sé að á fyrri öldum, rétt eins og í dag, hafi samskiptin við hestinn höfðað misjafnlega til fólks. Þannig eru ekki allir bíleigendur bílamenn og ekki voru allir þeir sem nota þurftu hesta á fyrri öldum hestamenn.

Hestakeppnir eiga sér langa sögu; samanber vígahesta fornaldar, afl og myndarskapur, kraftur, dugur, úthald, mýkt o.s.frv. voru eiginleikar sem þóttu eftirsóknarverðir.

Íslendingar riðu inn í 20. öldina með svipuðu sniði og frá upphafi Íslandsbyggðar; reiðhestur, ferðahestur, áburðarklár. Á tuttugustu öldinni rann upp tími vinnuhestsins. Mikilvægi hans jókst hratt en hvarf sem dögg fyrir sólu við tilkomu heimilisdráttarvélarinnar og landbúnaðarjeppans. Með bílaöldinni álitu margir að tími hestsins væri liðinn en alls ekki reyndist svo vera – heldur rann upp glæsilegt skeið frístundahestamennsku, vaxandi sportmennsku og atvinnureksturs í greininni. Stofnun hestamannafélaganna, LH og síðar FT skipti sköpum sem og tilkoma stórmóta, t.d. fjórðungsmóta, landsmóta, heimsleika auk fjölmargra smærri atburða. Þróun keppnisgreina eins og gæðingakeppni, kappreiða, íþróttakeppni er glæsilegt dæmi um uppbyggingu íþróttar. Ræktunarsaga íslenska hestsins er jafnframt einstakt dæmi og á heimsvísu um hvernig gömlu landkyni, sem sýnist vera orðið óþarft, er fundið nýtt hlutverk og ræktun þess og viðgangur þar með tryggður, eins og fyrr hefur verið vikið að. Þótt hestamennskan sé öllum opin sem áhuga hafa og fjölmörg dæmi eru til um að fólk byrjar ástundun hestamennsku, án þess að eiga fjölskyldusögu í hestamennsku, er augljóst að hestamennska hefur legið í ættum og svo er enn.

Almennt fræðslustarf hestamannafélaganna er mjög mikilvægt og svo hefur verið lengi en nú síðustu árin, og raunar áratugina, er að auki komið til skipulegt starf innan skólakerfisins. Hvoru tveggja þá á vegum fjölbrauta- og bændaskólanna. Nú er boðið upp á háskólanám í reiðmennsku á Hólum og í nám hestafræðum á vegum Hóla og Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Mótahald og félagskerfið er einnig mikilvægt í að viðhalda hefðinni í dag..

Félagskerfi hrossaræktar og hestamennsku mótaðist á síðustu öld. Fyrsta hrossaræktarfélagið; Hrossaræktarfélag Austur-Landeyja, var stofnað árið 1904 og fyrsta hrossasýningin á vegum Búnaðarfélags Íslands (BÍ) var haldin á Þjórsártúni árið 1906.

Leiðbeiningaþjónusta í hrossarækt hófst árið 1902. Þessi starfssemi öll er skipulagður hluti af landbúnaðarkerfinu og samfella hefur verið í þessu starfi allar götur síðan en heimildir eru jafnframt til um einstaka atburði fyrr, s.s. sýningu á Reynistað í Skagafirði o.fl. Fyrsta hrossaræktarsambandið; Hrossaræktarsamband Suðurlands, var svo stofnað árið 1949. Hrossaræktarsamböndin áttu langt blómaskeið, þar sem stóðhestahald o.þ.h. var fyrst og fremst á þeirra vegum. Það er nú nánast einvörðungu í höndum einkaaðila en hrossaræktarsamböndin sameinuðust Félagi hrossabænda.

Félagskerfi hestamennskunar mótaðist örlítið síðar en hrossaræktarinnar. Fyrsta hestamannafélagið; Fákur í Reykjavík, var stofnað árið 1922 og fleiri bættust við á næstu árum og áratugum. Landssamband hestamannfélaga (LH) var svo stofnað 1949 og fyrsta landsmótið var haldið í samstarfi BÍ og LH var haldið 1950 og hefur það verið haldið reglulega allar götur síðan, fyrst á fjögra ára fresti en frá 1998 annað hvert ár. Hestaíþróttasamband Íslands (HÍS) sem var aðili að ÍSÍ var stofnað árið 1990 en það og LH sameinuðust 1997, undir nafni LH sem hefur verið með stöðu sérsambands innan ÍSÍ allar götur síðan. Félag tamningamanna sem er fagfélag tamningamanna, var stofnað árið 1970. Hagsmunafélag hrossabænda, síðar búgreinafélagið; Félag hrossabænda var stofnað 1975.

Myndasafn

Mynd af fjárrekstri úr Þjórsárdal haustið 2010. Ljósmynd: Jens Einarsson.

Theodór Arnbjörnsson fyrsti hrossaræktarráðunautur BÍ við dómstörf á Suðurlandi um 1930. Ljósmynd: ThA/Sögusetur

Hlynur frá Akureyri, sigurvegari í B-flokki gæðinga á landsmótinu 1978. Knapi: Eyjólfur Ísólfsson fyrsti yfirreiðkennari Hólaskóla. Þeir sigruðu einnig tölkeppni landsmótsins með hæstu einkunn sem gefin hafði verið. Ljósmynd: Kristján Einarsson

Hörkukeppni í 250 m skeiði í ausandi rigningu á heimsleikunum í Brunnadem í Sviss 2009. Til hægri á myndinni er Tania H. Olsen á Sóloni frá Strø en þau urðu heimsmeistarar í 100 m skeiði á sama móti á tímanum 7,44 sek. Ljósmynd: Jens Einarsson.

Stórgæðingurinn og snilldartöltarinn Konsert frá Hofi í sýningu á landsmótinu á Hellu 2014. Knapi: Agnar Þór Magnússon. Ljósmynd: Jens Einarsson.

Vatnagarpar sundríða Hvítá í Árnessýslu sumarið 2009. Ljósmynd: Jens Einarsson.

Vetrarútreiðar í Heiðmörk á tíunda áratugnum. Ljósmynd: Sigurður Sigmundsson.