Jólasveina ber oft á góma í aðdraganda jólanna. Hefðbundnu íslensku jólasveinarnir eru fjölmargir þó nú sé algengast að telja þá þrettán. Þeir þóttu hrekkjóttir og ekki í húsum hæfir en hafa með tímanum bætt hegðun sína og eru nú gjafmildir við börn og gleðigjafar á aðventunni.

Skráð:

16.12.2018

Skráð af:

Árni Björnsson

Landfræðileg útbreiðsla:

Allt landið

Svo er helst að skilja sem misstórir hópar jólasveina hafi í öndverðu verið til í ýmsum héröðum á Íslandi. Elstu dæmi sem fundist hafa eru í Grýlukvæði frá 17. öld á Austurlandi. Ekki eru þeir nafngreindir og ekki getið um hversu margir þeir séu. Þeir eru sagðir synir Grýlu og Leppalúða, jötnar á hæð og hættulegir börnum. Í handriti frá 18. öld eru þeir fyrst sagðir vera 13 talsins. Eftir miðja 19. öld fara fyrst að sjást nöfn á þeim úr Skagafirði, Steingrímsfirði og Dölum vestur. Síðastnefnda nafnarunan komst inn í fyrstu prentun þjóðsagna Jóns Árnasonar árið 1862, og af þeim sökum hafa þau smám saman orðið hin hálfopinberu nöfn þeirra. Þar eru þeir 13 talsins og heita Stekkjarstaur, Giljagaur, Stúfur, Þvörusleikir, Pottasleikir, Askasleikir, Faldafeykir, Skyrgámur, Bjúgnakrækir, Gluggagægir, Gáttaþefur, Ketkrókur, Kertasníkir. Þeir komu einn á dag seinustu 13 daga fyrir jól og fóru síðan einn á hverjum degi og hinn seinasti á þrettándanum. Skáldið Jóhannes úr Kötlum gaf út frægar jólasveinavísur í kverinu Jólin koma árið 1932 með teikningum eftir Tryggva Magnússon. Þar eru nöfn þeirra nokkurnveginn hin sömu og í þjóðsögunum, enda skáldið líka Dalamaður. Helsti munurinn er sá að Jóhannes hefur Hurðarskelli í stað Faldafeykis. Frá fyrstu prentun þjóðsagnanna hafa fleiri nöfn jólasveina komið í leitirnar, og eru þau nú orðin um 80 talsins þótt hin fyrstnefndu teljist nánast opinber.

Jólasveinarnir voru fram í byrjun 20. aldar barnafælur. Þeir virðast í fyrstu jafnvel hafa étið börn eins og foreldrarnir. Þegar kemur fram á 19. öld eru þeir ekki lengur barnaætur, heldur hrekkjalómar og börn eru hrædd við þá. Flest nöfn þeirra benda einnig til þess að þeir steli mat eða hrekki fólk. Þetta viðhorf til þeirra breyttist ekki fyrr en kom fram á 20. öld, þegar verslunin fór að gera þá að sölumönnum fyrir jólavarning.
Um leið fóru íslensku jólasveinarnir að taka á sig útlit og klæðaburð hins alþjóðlega jólakarls, sem sprottinn er upp af hinum þjóðsagnakennda Nikulási biskupi frá Litlu-Asíu. Hann var mikill barnavinur og færði börnum í Evrópu gjafir á messudegi sínum 6. desember. Eftir siðbreytinguna í Evrópu á 16. og 17. öld vildu lútersk yfirvöld ekki lengur að katólskur dýrlingur færði börnum gjafir. Gjafasiðurinn var því færður til sjálfra jólanna, en áður hafði ekki verið mikið um jólagjafir meðal almennings. Stundum var jólaengill eða sjálft Jesúbarnið látið koma með gjafir ellegar búinn var til jólakarl sem líktist Nikulási í klæðaburði og var stundum nefndur Afi Frosti. Í enskumælandi löndum var nafn Nikulásar blátt áfram stytt í Santa Claus. Í Ameríku varð hann sölumaður fyrir Coca Cola upp úr 1930.

Jólagjafir komu enn seinna til sögunnar á Íslandi en úti í Evrópu. Ástæðan var meðal annars sú að hér var engin föst verslun gegnum aldirnar. Sumargjafir þekktust miklu fyrr. Að vísu fengu flestir nýja flík fyrir jólin sem einskonar viðurkenningu fyrir vel unnin störf en það var ekki kallað jólagjöf. Nikulás hafði aldrei verið jólasveinn á Íslandi, en eftir að verslun var gefin frjáls eftir miðja 19. öld var smám saman farið að auglýsa jólagjafir og rauðklæddir jólakarlar með hvítt skegg látnir hampa þeim.

Í fyrstu vildu ýmsir ekki láta kalla þessa vingjarnlegu karla jólasveina því þeir voru vondir í hugum manna. Þegar Ríkisútvarpið tók til starfa um 1930 var sú málamiðlun gerð, að gömlu jólasveinarnir komu í barnatíma og fengu að halda nöfnum sínum og fjölda, en tóku á sig gervi Nikulásar. Þeir urðu gjafmildir og gamansamir en gátu samt verið hrekkjóttir. Eftir þetta þóttu þeir húsum hæfir og tóku að koma fram á jólatrésskemmtunum. Það höfðu þeir ekki gert áður.

Þótt Nikulás biskup hefði verið gerður útlægur úr flestum löndum mótmælenda í Evrópu, hélt hann stöðu sinni í Hollandi og víðar við Norðursjó. Þar settu börn tréskó sinn út í glugga kvöldið fyrir Nikulásardag 6. desember, og þangað kom hann um nóttina ásamt þjóni sínum og setti smágjöf í skóinn. Tréskórinn táknaði skip Nikulásar því hann var líka verndari sjómanna. Þessum sið kynntust íslenskir sjómenn sem sigldu á Norðursjávarhafnir á þriðja áratug 20. aldar, og hann var ekki óþekktur á íslenskum sjómannaheimilum. Siðurinn breiddist hinsvegar ekki út á Íslandi fyrr en milli 1960-70 og fór um tíma mjög úr böndunum. Smám saman tókst að tempra hann þannig að ekki var byrjað að gefa í skóinn fyrr en fyrsti jólasveinninn kom 12. desember og ekki skyldi láta nema lítilræði í hann. Það hefur reyndar aldrei orðið almenn venja á Íslandi að jólasveinn kæmi með jólagjafir, þótt sumir hafi tekið upp þann sið. Á flestum heimilum er öllum augljóst hver gefur hverjum hvað.

Margir höfðu alltaf kunnað illa við að gömlu íslensku jólasveinunum skyldi ruglað saman við hinn alþjóðlega jólakarl. Því tók Þjóðminjasafn Íslands upp þann sið árið 1988 að láta þá koma í heimsókn seinustu 13 daga fyrir jól og vera í fornfálegum íslenskum bændaklæðum. Þessi venja varð strax afar vinsæl meðal barna sem sum töldu að þessir væru ósviknir, en hinir rauðklæddu væru falsarar. Jafnan hefur verið húsfyllir við heimsóknir þeirra.

Lengst af var þess ekki getið að jólasveinarnir ættu heima á tilteknum stað, einungis að fjölskylda þeirra byggi uppi í fjöllum. Seint á 20. öld fóru menn í ýmsum byggðarlögum að giska á heimkynni þeirra. Til dæmis töldu sumir Borgfirðingar þá eiga heima í Skessuhorni, Snæfellingar í Ljósufjöllum, Skagfirðingar í Hólabyrðu, Eyfirðingar í Kerlingu, Mývetningar í Dimmuborgum, Austfirðingar í Dyrfjöllum, Árnesingar í Bláfelli og Reykvíkingar að sjálfsögðu í Esju.

Jólasveinarnir þrettán lifa góðu lífi í dag. Þeir sjást um borg og bý á aðventunni, oft nokkrir saman í hóp, en sjaldnar allir. Ekki er óalgengt að jólasveinar mæti á jólaskemmtanir með söng og gamansemi, börnum og fullorðnum til ánægju. Þeir eru oftast rauðklæddir þó einhverjir kjósi enn að klæðast fornfálegum bændaklæðum. Jólasveinar iðka enn þann sið að gefa börnum smágjafir í skó sem oftast er settur út í glugga þrettán dögum fyrir jól. Því miður hefur ekki oft sést til þeirra við þá iðju, þannig að hvernig þeir eru klæddir þegar þeir lauma smágjöf í skóinn er ráðgáta.

Heimildir:
Árni Björnsson. Saga daganna, Rv. 1993, s. 337-353.
Sami: Saga jólanna, Ak. 2006, s. 46-51 og 66-109.

Myndasafn

Margir þekkja myndir Tryggva Magnússonar sem birtust við kvæði Jóhannesar úr Kötlum, Jólasveinarnir, sem fyrst kom út í kverinu Jólin koma árið 1932. Ljósmynd: V.J.

Hér er teikning Tryggva Magnússonar af skyrjarmi sem í seinni tíð er kannski þekktari sem skyrgámur. Ljósmynd: V.J.

Rauðklæddir jólasveinar eru þekktir fyrir að mæta hressir á jólaskemmtanir og ganga þá gjarnan í kringum jólatréð ásamt viðstöddum. Mynd. V.J.