Kynngi Jónsmessu hefur löngum verið talin mikil. Á meðan Evrópubúar héldu brennur, dansleiki og svall nýttu Íslendingar sér undur náttúrunnar og böðuðu sig uppúr morgundögginni og heyrðu kýr tala. Enn í dag kýs fólk að njóta eða upplifa náttúruna á bjartri sumarnótt Jónsmessunnar t.d. með því að ganga eða hlaupa inn í nóttina.
Víða um Evrópu var Jónsmessa haldin sem miðsumarsnótt. Messan er oft og tíðum tengd við sumarsólstöður og á sér fyrirmynd í fornum sólhvarfahátíðum. Upphaflega var haldið upp á 24. júní sem lengsta dag ársins í Rómarborg á 1. öld f. Kr. Þegar Rómarkirkjan afréð að fastsetja fæðingardaga Jesú Krists og Jóhannesar skírara við vetrarsólhvörf og sumarsólstöður hafði skekkja í júlíanska tímatalinu orðið til þess að dagsetning sólhvarfanna hafði færst til um nærri þrjá daga miðað við stöðu himintunglanna. Jónsmessan eða messa Jóhannesar skírara er því enn haldin þann 24. júní, þótt að sumarsólstöður falli oftast á 21. júní. Jónsmessa var numin úr tölu helgidaga hérlendis árið 1770.
Í bændasamfélaginu á Íslandi forðum var tíminn í kringum sólstöður, eða Jónsmessu, heppilegur til samkomuhalds þar sem að þá var sauðburði yfirleitt lokið, búið að rýja og reka á fjall, túnávinnslu lokið, en sláttur ekki hafinn. Því má segja að stund hafi gefist á milli stríða. Þennan tíma notuðu Íslendingar sannarlega til samkomuhalds þótt það hafi verið með öðrum hætti en tíðkaðist í Evrópu. Á þjóðveldistímanum kom alþingi saman nálægt miðjum júní og stóð samkoman í tvær vikur. Jónsmessan lenti því á alþingistímanum.
Í Evrópu var Jónsmessa, eða miðsumarsnótt, mikil gleðskaparhátíð oft með brennum, dansleikjum o.fl. en einnig tengd töfrum náttúrunnar sem og að allskyns hulduvættir léku lausum hala. Hérlendis þróaðist þessi hátíð með öðrum hætti og í öðru samhengi. Lítill eldiviður (og skortur á honum) hefur líklega komið í veg fyrir að bál væru kveikt aðeins til skemmtunar. Þá eru sumarnætur hérlendis bjartar og því líklegra að draugar, púkar og aðrar óvættir séu fremur til friðs þessa nótt enda yfirleitt ljósfælnar. Jafnvel var því haldið fram að hérlendis svæfu allar meinvættir á Jónsmessunótt.
Jónsmessunótt hefur löngum verið talin ein af mögnuðustu nóttum ársins, ásamt jólanótt, nýársnótt og þrettándanótt. Þessar nætur eiga það sameiginlegt að vera í nánd við sólhvörf, sumar og vetur. Þjóðtrú sameiginleg þessum nóttum er t.d. sú að útisetur á krossgötum gefist vel, kýr tali og að selir fari úr hömum sínum.
Samkvæmt þjóðtrú eiga undur náttúru að vera mikil á Jónsmessunótt. Glímir þú við kvilla á borð við kláða, graftarbólur eða ástleysi er Jónsmessunóttin upplögð til að ráða bót á þeim meinum.
Dögg sem fellur á Jónsmessunótt á að vera svo heilnæm að fólk læknast af kláða og fjölda annarra kvilla með því að velta sér nakið uppúr henni. Sumir láta sér nægja að þvo sér uppúr dögginni, sleikja hana af stráum eða ganga berum fótum í henni. Mikilvægt er að döggin fái að þorna á líkamanum svo að hún nái að virka til heilsubótar.
Á Jónsmessunótt á að vera einna líklegast að finna töfrum gædda náttúrusteina. Slíkir steinar geta verið lausnarsteinar, óskasteinar, varnarsteinar á móti öllu illu, lífsteinar sem eiga að græða hvert sár og hulinshálmssteinar.
Að sama skapi er Jónsmessunótt ákjósanlegasti tíminn til að tína nokkrar grasategundir til lækninga. Má þar nefna lyfjagras (sem einnig kallast Jónsmessugras), hornblöðku (við kvefi), maríustakk (við graftarkýlum) og brennisóley (við húðkvillum). Glímir þú við ástleysi eða hjónabandserfiðleika er ekki úr vegi að tína brönugras á Jónsmessunótt. Brönugrasið er sagt vekja losta og ástir sem og að stilla ósamlyndi hjóna.
Nú á dögum eru ýmsir viðburðir tengdir Jónsmessu eða sumarsólstöðum. Ber þar helst að nefna að ýmsir ferða- og gönguklúbbar fara í svokallaðar Jónsmessu- eða sólstöðugöngur þegar sólin er sem hæst á lofti og gengur ekki til náða. Oft er þá gengið inn í bjarta sumarnóttina. Eins er árlega haldið almenningshlaup í Reykjavík í kringum Jónsmessu og sumarsólstöður þar sem hlaupið er að kvöldlagi.
Í Hafnarfirði hefur í nokkur ár verið haldin álfahátíð í Hellisgerði á Jónsmessunni. Hellisgerði er vel þekkt búsvæði álfa og því ekki ólíklegt að slíkar vættir verði á vegi gesta þessa kynngimögnuðu nótt.
Gaman væri að heyra frá lesendum hvort að þeir fagni Jónsmessunni og sumarsólstöðum með einhverjum sérstökum hætti, hvort sem er með hátíðahöldum, grasatínslu eða baði í morgundögginni. Við tökum fagnandi á móti frásögnum lesenda hér.
Heimildir:
Árni Björnsson. Saga daganna. Reykjavík: Mál og menning, 1993.
Í hljóðritasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum sem aðgengilegt er á vefnum Ísmús má finna frásagnir af Jónsmessu: https://www.ismus.is/search/jónsmessa
Í þjóðháttasafni Þjóminjasafns Íslands sem aðgengileg er á vefnum Sarpur má í spurningaskrá safnsins frá árinu 1975 um hátíðir og merkisdaga fræðast um Jónsmessu.