Kljásteinavefstaður var notaður hér á landi frá landnámi og fram yfir miðja 18. öld. Í dag er þekkingu um vefstaðinn einkum viðhaldið á vettvangi safna og hjá áhugafólki.

Skráð:

09.11.2018

Skráð af:

Hildur Hákonardóttir

Landfræðileg útbreiðsla:

Allt landið

Kljásteinavefstaðurinn  þróaðist á steinöld meðal fólks sem stundaði kvikfjárrækt og hann hentar því best fyrir ullarvefnað. Uppistaðan var strekkt með því að þyngja hana með steinum eða jafnvel leirklumpum. Staðið var við verkið og ívafið slegið upp fyrir sig með þar til gerðri „skeið“ úr tré, beini eða málmi. Væri vefurinn breiður unnu tvær konur hlið við hlið.

Kljásteinavefstaðurinn er einfaldur að gerð – samsettur úr tveimur uppistöðutrjám (hleinum) með götum fyrir hæla og þverslá (rif) sem lá ofan á þeim í hleinakrókum.  Uppistaðan er saumuð föst við rifinn, byrjað efst og ofið niður. Afklippur uppistöðunnar hafa trúlega verið notaðar til að gera sokka, vettlinga og húfur með vattarsaumsaðferð. Vefstaðir voru á flestum búum sem stóðu undir nafni allt frá landnámi uns láréttir, fótstignir vefstólar voru fluttir inn um miðja 18. öld. Síðast er vitað til að vefstaðurinn hafi verið notaður til að vefa í honum hærusekki úr hrosshári í Öræfasveit um aldamótin 1900.

Í kljásteinavefstaðnum voru upphaflega ofnar stuttar voðir, (sex álna eða þriggja metra) og vararfeldir. Vara – merkir eitthvað sem er ætlað er til sölu. Röggvarfeldir eru sams konar feldir, en ætlaðir til heimabrúks. Hvort tveggja var við landnám orðið að staðlaðri verslunarvöru hér og á mörkuðum erlendis eins og sjá má af ákvæðum Búalaga. Einskefta og vaðmál (oftast þrískeft) eru þær vefnaðargerðir sem mest eru notaðar í fatnað.

Þegar leið á 12. öldina höfðu markaðaðstæður breyst mikið í Evrópu. Vararfeldir eru ekki lengur tískuvara og láréttir vefstólar komnir á verkstæði víðast hvar í Evrópu. Vaðmál er vefnaðargerð sem gerir auðveldara að slá voðina þétt og hana má síðan þæfa uns hún verður nær vatns- og vindþétt. Erlendi markaðurinn krefst þess nú að vaðmálsvoðirnar séu allt að 10-12 metrar þar sem sú lengd hentar til vinnslu í láréttu vefstólunum. Voðirnar voru síðan fullunnar þannig að þær eru þvegnar, strekktar, þæfðar, stundum litaðar, ýfðar og lógskornar. Við það fær voðin loðna áferð og vefnaðargerðin hverfur. Erfitt var, en ekki ómögulegt, að aðlaga gamla kljásteinavefstaðinn til að þjóna þessum markaði og voru því lítilsháttar breytingar gerðar á upprunalegri gerð hans til hægðarauka. Auk vaðmáls og pökkunarefnis sem ætlað var til útflutnings var ofin einskefta og vaðmál til heimabrúks og var sá vefnaður þegar fram í sótti vandaðri en gjaldavaðmálið svokallaða, einnig hafa verið ofin tjöld, rúmfatnaður og fleira til heimabrúks og skrauts.

Vaðmál var gjaldmiðill og verðlagsviðmið um aldir. Rekstur búanna var sjálfbær en vefnaðurinn skapaði tekjur sem notaðar voru til að greiða tíundir til kirkjunnar sem að vissu marki sinnti félagslegum þörfum samfélagsins. Vefnaðurinn var verðmætasköpun og stóð einnig undir náms- og utanferðum ungra manna, kaupum á kirkjugripum og segl voru ofin. Staðlaður vefnaður var handhægur og almennur gjaldmiðill og mun auðveldari flutningur en fiskar, lýsi, brennisteinn eða fálkar. Voðin vóg um sex kíló og voru tíu voðir í pakka. Upp úr aldamótunum 1600 tekur prjónles að nokkru leyti við þessu hlutverki.

Eingöngu konur ófu á gamla kljásteinavefstaðinn og verkið krafðist töluverðrar sérþekkingar. Vitað var að karlmenn ófu á láréttu vefstólana erlendis þar sem vefnaðurinn hafði færst frá heimilinum til verkstæða. Hér á landi skorti þéttbýli og vefstofum var ekki komið upp. Konur sáu sér ekki hag í að stuðla að breyttum aðferðum við vefnaðinn þar sem það þýddi að hann væri þá ekki lengur í þeirra höndum og betri störf voru ekki í boði þótt vefnaðurinn væri erfiður. Því var unnið hér á landi í kljásteinavefstaðnum þótt það væri miklum mun seinlegra allt fram til þess að Innréttingarnar í Reykjavík og tvær vefstofur voru stofnaðar kringum 1750.

Um sama leyti og láréttir vefstólar og rokkar voru fluttir til landsins var farið að vélvæða vefnað  í Evrópu svo þessi framkvæmd var í raun 500 árum á eftir tímanum. Segja má að ullariðnaðurinn hér á landi hafi ekki náð sér á strik aftur fyrr en með tilkomu rafmagns og hitaveitna.

Í dag er þekkingu um kljásteinavefstaðinn viðhaldið hjá áhugafólki, einstaka söfnum og félagasamtökum sem tengjast vefnaði.

 

Bækur sem fjalla um kljásteinavefinn og sögu hans:

Marta Hoffman. Warp Weighted Loom, Scandinavian University Press, 1975.

Elsa E. Guðjónsson ritar um kljásteinavefstaðinn í Árbók hins íslenzka fornleifafélags á árunum 1994-1997.

Helgi Þorláksson, Vaðmál og verðlag – vaðmál í utanlandsviðskiptum og búskap Íslendinga á 13. og 14. öld. Sögufélagið 1992.

The warp-weighted loom : klinkins steins = kljásteinavefstaðurinn : klásteinar klingja = Oppstadveven : klingande steinar/ Höfundar: Hildur Hákonardóttir, Elizabeth Johnston, Marta Kløve Juuhl; Hordaland : Skald forlag ; Museumsentret i Hordaland, 2016

Tveir fésbókarhópar starfa  (2018) tengdir kljásteinavefstaðnum: Oppstadveven og Historical warp weighted looms.

 

Myndasafn

Hildur Hákonardóttir við kljásteinavefstað.

Mynd af teikningu sem sýnir kljásteinavefstað.

Hildur Hákonardóttir umvafin vararfeldi sem hún óf í kljásteinavefstað.