Kveðskapur er flutningur vísna undir rímnaháttum. Hver vísa er 2 – 4 braglínur og eru því lögin stutt. Þau kallast rímnalög, kvæðalög, stemmur eða bragur. Lögin eru mjög fjölbreytt hvað varðar tónbil, hryn og tóntegundir. Flytjandinn, kvæðamaður eða kvæðakona, flytja lögin yfirleitt ein, hver á sinn máta og með sérstökum söngstíl. Kveðskaparlistin er aldagömul. Kveðskapur var algengur um allt land, á kvöldvökum í baðstofum á bæjunum og í verbúðum. Þá voru oftast kveðnar rímur. Kvöldvökurnar lögðust af á fyrrihluta 20. aldar, en kveðskapur lifði áfram á ýmsum mannamótum og er í dag m.a. stundaður í kvæðamannafélögum.
Skráð:
07.11.2018
Skráð af:
Kvæðamannafélagið Iðunn
Kveðskapur var hluti af tónlistarlífi almennings á Íslandi alla tíð. Rímur voru helsta skemmtiefnið í mörg hundruð ár. Rímur eru söguljóð, ortar út frá fornsögum eða öðrum hetjusögum og ævintýrum. Þær voru venjulega kveðnar en ekki lesnar eða sagðar fram. Einnig voru kveðin önnur kvæði undir rímnaháttum. Margar rímur eru langar jafnvel allt upp í 1000 vísur. Lengstu rímurnar, Olgeirs rímur danska eftir Guðmund Bergþórsson, eru alls 6000 vísur. Það gat því tekið nokkur kvöld að flytja heilan rímnaflokk.
Flytjendur eru kallaðir kvæðamenn og kvæðakonur, en hér eftir verður orðið eingöngu notað í karlkyni, (konur eru líka menn). Þau skemmtu heimilisfólkinu á kvöldvökum á bæjunum með kveðskap sínum og kváðu þá gjarnan upp úr bókum. Oft voru það húsbændur sem sáu um kveðskapinn eða annað heimilisfólk sem kunni vel þessa list. Einnig voru kærkomnir gestir fengnir til að kveða. Til var fólk sem flakkaði á milli bæja til að skemmta fólki með kveðskap og fékk þá í staðinn húsaskjól og mat.
Kvöldvökur lögðust af á sumrin á háannatímanum. Þá var fólk í heyskap fram eftir kvöldi. Það var ekki bara kveðið í baðstofunni heldur einnig þegar setið var yfir ánum á sumrin, í göngum og réttum, líka í verbúðum, skemmtunum og á öðrum mannamótum.
Þegar fólk var samankomið á kvöldin í baðstofunni, var oft mikill hávaði í rokkunum þegar verið var að spinna. Einnig heyrðist oft hátt í veðri. Þurftu þá kvæðamenn að brýna raustina er þeir voru að skemmta fólki við vinnuna. Kvæðamenn kunnu mismunandi mikið af stemmum. Sumir kvæðamenn skiptu oft um lag en aðrir ekki. Þeir höfðu venjulega endatón laganna langan og er það kallað að draga seiminn. Áheyrendur drógu seiminn oft með kvæðamanninum.
Eins og áður segir eru lögin kölluð rímnalög, kvæðalög og stemmur, en orðið bragur hefur fallið úr almennri notkun. Kvæðamenn lærðu lögin úr munnlegri geymd, en einnig sömdu þeir sín eigin lög. Sumir spunnu lögin á meðan þeir fluttu kvæðin. Margir telja að „spuna-stemmur“ hafi verið kveðnar frekar við rímur, því þær henta betur til flutnings í langan tíma. Röddin þreytist minna við lítið raddsvið og einnig við þá raddbeitingu sem kvæðamenn notuðu.
Lögin eru mjög mörg og fjölbreytt, í ýmsum tónskölum, takturinn oft flókinn og taktskipti algeng. Líklegt er að elstu lögin séu með fáum og þröngum tónbilum og að þau hafi breikkað þegar samgöngur jukust við önnur lönd og tónlist frá Evrópu barst hingað í auknum mæli. Kvæðamenn fluttu lögin á sinn máta, með sérstökum söngstíl, skreyttu þau gjarnan mikið og fluttu þau í mismunandi hraða. Stundum flýttu þeir eða hægðu. Oft var fjórða og síðasta línan kveðin hægar.
Kveðskapur var algengur um allt land. Sum lögin ferðuðust víða og voru vinsælli en önnur. Algengt er að til séu margar gerðir af sama laginu, því eins og áður segir, gerir kvæðamaðurinn lagið að sínu og flytur það á sinn sérstaka hátt með tilbrigðum, til dæmi eftir efni kvæðisins.
Elsta ríman sem varðveist hefur, er Ólafs ríma Haraldssonar eftir Einar Gilsson frá 1360. Rímur urðu fljótt vinsælar meðal alþýðunnar.
Á 16. öld var kirkjunnar mönnum meinilla við rímnakveðskapinn í þeirri mynd sem hann var og biðluðu þeir til skáldanna að yrkja rímur úr bókum heilagra ritninga. Nokkur skáld ortu rímur um heilaga menn og persónur úr Biblíunni, en þær rímur urðu aldrei vinsælar.
Mörg skáldin ortu rímur og verða hér nefnd nokkur þeirra:
Hallgrímur Pétursson (1614 – 1674), m.a. Króka – Refs rímur
Steinunn Finnsdóttir (1640 – ca 1710), m.a. Hyndlurímur
Guðmundur Bergþórsson (1657 – 1705), m.a. Olgeirs rímur danska
Helga Þórarinsdóttir – Hjallalands – Helga (1797 – 1874), Rímur af Partalópa og Marmoríu.
Sigurður Breiðfjörð (1798-1846) var vinsælasta rímnaskáldið á 19. öld og fram á þá tuttugustu. Hann samdi fjöldan allan af rímnaflokkum, meðal annars rímur af: Gísla Súrssyni, Víglundi og Ketilríði, Núma, Tristan og Indíönu, Gunnari á Hlíðarenda.
Ýmsir kvæðamenn voru þekktir fyrir góðan kveðskap, þeirra frægastur var Jón Lárusson (1873 – 1959) frá Hlíð á Vatnsnesi. Hann var raddsterkur og kunni á annað hundrað kvæðalög. Hann kvað gjarnan þegar hann sat yfir fé, og barst rómur hans langar leiðir um sveitir. Hann hélt tónleika m.a. á Akureyri og marga tónleika í Reykjavík og Hafnarfirði, bæði einn og með börnum sínum. Með þessum kveðskapartónleikum náði hann að safna sér inn nógu miklum peningum til að borga fyrstu útborgun í jörðinni Hlíð, sem hann var að kaupa. Hann var einnig fenginn til að kveða fyrir Kristján 10. Danakonung á Alþingishátíðinni 1930.
Á 19. öld vaknaði áhugi fræðimanna og tónlistarmanna í Evrópu og Norður Ameríku að safna þjóðlögum á skipulagðan hátt úr munnlegri geymd til varðveislu og náði þessi bylgja einnig hingað til Íslands og hófst þá söfnun á íslenskum þjóðlögum, þar á meðal kvæðalögum.
Ólafur Davíðsson (1862 – 1903) varð fyrstur til að skrifa niður lög sem flutt voru við rímur, þau voru alls 15 og voru gefin út í ritinu Íslenskar gátur, skemmtanir, vikivakar og þulur sem hann og Jón Árnason tóku saman 1887 – 1903.
Bjarni Þorsteinsson (1861 – 1938), tónskáld og prestur á Siglufirði var næstur á eftir að safna slíkum lögum. Árið 1880 fór hann að skrifa þau niður, því upptökutæknin var þá ekki komin til landsins. Hann fékk einnig fleira fólk til að hjálpa sér við það og var Benedikt frá Auðnum afkastamestur.
1903 hóf Jón Pálson merkilegt brautryðjandastarf við að hljóðrita ýmiss konar efni, þar á meðal kveðskap. Tónskáldið Jón Leifs kom í kjölfar hans og safnaði kveðskap á hljóðritum. Kvæðamennirnir Jónbjörn Gíslason og Hjálmar Lárusson hljóðrituðu einnig kveðskap á árunum 1915–20.
Ýmsir fræðimenn komu á eftir og hljóðrituðu viðtöl við kvæðamenn um kveðskaparhefðina og kveðskap þeirra, má þar nefna Hallfreð Örn Eiríksson, Helgu Jóhannsdóttur, Jón Samsonarson, Hrein Steingrímsson og Njál Sigurðsson. Allar þessar upptökur eru aðgengilegar í þjóðfræðisafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Menn telja að áhugi á kveðskap hafi verið með svipuðu móti í aldaraðir, þetta var eins og áður segir mikilvægur partur af tónlistarlífi almennings. Menn lærðu lögin úr munnlegri geymd, sem sé, mann fram af manni og einnig sum kvæði. Íslendingar hafa þó gegnum tíðina verið bókhneigðir og duglegir að skrásetja rímur og kvæði.
Almennt minnkaði áhugi fólks á kveðskap á seinni hluta 19. aldar í þéttbýli, þegar meira fór að berast hingað tónlist frá Norðurlöndum og Evrópu. Þegar leið fram á 20. öldina lögðust kvöldvökur niður í þeirri mynd sem þær voru, um það leyti sem útvarpið hóf göngu sína og þar með vettvangur til að heyra heilan rímnaflokk fluttan. Á fyrri hluta 20. aldar þótti kveðskapur frekar hallærislegur, sérstaklega um það leyti sem seinni herstyrjöldin skall á og Bretarnir hernámu landið, svo og með komu hermanna frá Ameríku og þeirri tónlist sem þeir komu með til landsins. Þó lifði kveðskapur áfram í sveitunum, til að mynda í göngum og réttum, á skemmtunum og ýmsum mannamótum. Útvarpið hljóðritaði kveðskap og sendi út reglulega á fyrstu áratugunum. Þá voru einnig á dagskrá þess þættir um kveðskap og viðtöl við kvæðamenn og hagyrðinga. Á síðustu áratugum 20. aldarinnar minnkaði áhugi á kveðskap til muna einnig í sveitunum.
Á fyrstu áratugum 20. aldar fluttu margir kvæðamenn úr sveitunum í þéttbýli, þar sem lítið var um kveðskap. Þetta fólk hafði áhyggjur af því að þessi hefð myndi deyja út og því voru stofnuð kvæðamannafélög til að halda við hefðinni. Kvæðamannafélagið Iðunn var stofnað í Reykjavík 15. september 1929. Tilgangur félagsins alveg frá upphafi, var að æfa kveðskap og safna rímnalögum og alþýðuvísum, fornum og nýjum og er það svo enn í dag. Á árunum 1935 -1936 stóð félagið fyrir því að hljóðrituð voru 200 kvæðalög. Á sjöunda áratugnum stóð félagið fyrir hljóðritun og söfnun á 160 kvæðalögum. Allt í allt hafa félagar Iðunnar safnað og skrásett 500 lög.
Kvæðamannafélagið gaf út hljómplötu árið 1979 með 100 kvæðalögum.
Árið 2004 gaf félagið út Silfurplötur Iðunnar á 75 ára afmæli þess og eru þar fyrstu 200 lögin sem félagið hljóðritaði á fjórða áratugnum skrásett á nótur og fylgja líka með allar vísur sem eru kveðnar, jafnframt öll hljóðritin á geisladiskum. Einnig eru þar ýmsar greinar um kveðskap og flytjendur laganna. Á sama hátt eru gefin út 160 kvæðalög sem safnað var á sjötta og sjöunda áratugnum undir titlinum Segulbönd Iðunnar (2018).
Í dag er hefðin ekki lengur hluti af hversdagslífi fólks, nema að litlu leyti. Hana iðkar margt áhugafólk um kveðskaparhefðina sem hefur ekki endilega alist upp við hana heldur lærir líka lögin í kvæðamannafélögum hvert af öðru og einnig undir leiðsögn kvæðamanns með langa reynslu af kveðskap og af hljóðritum sem safnað var á 20. öldinni, og getið er að framan. Kvæðamenn í dag reyna einnig að læra kveðskaparstíl eldri kvæðamannanna á hljóðritunum, en það tekst misvel.
Fólk kveður á samkomum kvæðamannafélaganna, einnig á tónleikum og öðrum vettvangi t.d. kaffihúsum.
Útvarpið sendir út í dag af og til hljóðrit af kvæðamönnum og þætti um kveðskap.
Í dag er kveðskapur iðkaður mest í Kvæðamannafélögunum Iðunni í Reykjavík, Gefjuni á Akureyri, Rímu á Siglufirði, Árgala á Selfossi, Vatnsnesingi á Hvammstanga, Snorra í Reykholti, Borgarfirði og Gná í Skagafirði. Kvæðamannafélögin hafa stofnað landssamtök sem heita Stemma. Félag ljóðaunnenda á Austurlandi er einnig í Stemmu.
Til fróðleiks má benda á vefslóðirnar: