Frá landnámi hafa hænsni fylgt búsetu fólks hér á landi. Landnámshænan, sem einnig hefur verið kölluð íslenska hænan, topphæna eða haughæna sá heimilum landsins fyrir eggjum til átu og baksturs fram eftir öldum, allt þar til stóru framleiðslustofnarnir komu til sögunnar á 20. öld.

Skráð:

25.09.2019

Skráð af:

Eigenda- og ræktendafélag landnámshænsna

Skráð af:

Magnús Ingimarsson

Landfræðileg útbreiðsla:

Allt landið

Hænsnahald fyrr á tímum

Hænsnahald á sér langa sögu hér á landi. Áður fyrr var algengt að á sveitabæjum sem og á heimilum í þorpum og þéttbýli væru haldnar nokkrar hænur til að sjá heimilinu fyrir eggjum. Var um nokkurs konar sjálfsþurftarbúskap að ræða. Landnámshænurnar okkar gegndu þar lykilhlutverki.

Um allt land voru landnámshænur haldnar í litlum hópum til eggjaframleiðslu. Hænsnin voru gjarnan höfð í fjósum til sveita, þar sem var hlýtt og þær höfðu þá moð frá kúnum sem fóður ásamt hugsanlegum matarafgöngum, sem þó hafa líklega verið af skornum skammti. Landnámshænur voru mjög duglegar að bjarga sér á því sem náttúran gaf hverju sinni. Þetta voru (og eru enn) nægjusamir fuglar sem þóttu þurftarlitlir en verpa með ágætum.

Á Íslandi til forna voru útihús að mestu úr torfi og grjóti. Þrátt fyrir að hænur hafi ekki notið jafnmikillar virðingar og önnur húsdýr þá eru dæmi þess að byggðir hafi verið sérstakir hænsnakofar úr slíku byggingarefni. Þar voru hænsnin höfð veturlangt og reynt að hafa þokkalega hlýtt hjá þeim. Á sumrin var alger lausaganga en hænsnakofarnir nýttir frá kvöldi til morguns. Fjölmörg dæmi eru um að hænsnin hafi dvalið innan um önnur húsdýr í fjósum, fjárhúsum eða hesthúsum og notið þannig hlýju sem stærri skepnur gáfu.

Landnámshænan hefur alltaf haft sterka hvöt til að liggja á eggjum, hvort sem það er nú eða áður og fyrr. Þetta gerir hún gjarnan á vorin og sumrin, oftast á afviknum stöðum í útihúsum, t.d. í görðum og jötum. Einnig á hún það til að leggjast á egg utandyra eins og í skjóli rabbarbarablaða í rabbarbaragörðum eða í heytóftum forðum daga. Ávallt var hafður í það minnsta einn hani í hverjum hóp til þess að halda frjósemi í eggjunum. Kvenfuglinn gat því séð eigendum sínum fyrir ungum til endurnýjunar án þess að útungunarvélar kæmu þar nærri. Þessi hæfileiki landnámshænunnar er enn þann dag í dag til staðar.

Eggin eru aðalafurð landnámshænunnar og eru þau mjög næringarrík. Einnig eru dæmi um að fjaðrir hænsnanna hafi verið notaðar sem fylling í sængur og kodda og líklega hafa stórar og litfagrar fjaðrir af hönum þótt eigulegar.

Hanagal hefur löngum haft sérstaka og táknræna merkingu. Það naut nokkurrar virðingar enda táknaði það morgunkomuna og að brátt væru komin rismál, þó einkum að sumarlagi þegar dagurinn er sem lengstur. Hanagalið hefur því verið einskonar vekjaraklukka síns tíma.

Fljótlega upp úr aldamótum 1900 komu hingað til lands hænur af öðrum toga. Það voru hænur sem tilheyrðu framleiðslulínum en t.d. var um að ræða hvíta ítala sem ræktaðir voru sérstaklega til mikillar eggjaframleiðslu. Með tilkomu hinna nýju tegunda fór að fækka í stofni landnámshænunnar.

Stofn Landnámshænunnar

Það er þó ekkert öruggt með að sá stofn landnámshænsna sem við höldum í dag sé endilega sá stofn hænsna sem var hér á landi við landnám. Ástæðan fyrir þessari óvissu er m.a. sú að lítið er til af heimildum er varða landnámshænuna fyrr á öldum, kannski vegna þess að hænur þóttu ekki merkilegur bústofn og var gjarnan í umsjá kvenna. Eins og áður hefur komið fram þá var þessi hænsfugl stundum kallaður haughæna sem lýsir vel þeirri virðingu sem þetta húsdýr naut í samfélaginu.

Á árunum 1970-1975 var svo komið að talið var að einungis um 100 landnámshænur væru eftir í landinu. Dr. Stefán Aðalsteinsson, búfjárfræðingur hjá Rannsóknarstofnun landbúnaðarins (RALA), tók þá til þess bragðs að safna saman eggjum og fuglum af þessum gamla stofni í þeirri von um að geta fjölgað honum aftur og dreift um landið. Stefán vissi sem var að hann gat auðvitað ekki staðfest að þarna væri á ferðinni nákvæmlega sami stofninn og frá landnámi en þetta var það sem hann gat komist næst því að væri hann. Taldi hann að um væri að ræða mikilvægan stofn sem hefði að geyma dýrmætan erfðafjölbreytileika sem myndi glatast að eilífu ef stofninn yrði útdauður.

Landnámshænan á Stefáni mikið að þakka en hænan nýtur nú talsverðra vinsælda. Landnámshænan býr yfir hæfileikum sem önnur hænsnakyn hafa tapað s.s. að liggja á eggjum og unga út. Hún er gjarnan haldin í smáum hópum með einn til tvo hana. Þannig egg séu frjó og fjölmörg dæmi eru um að þær liggji sjálfar á eggjum og komi upp ungum til endurnýjunar á viðkomandi hænsnahóp. Þá er oft mikill einstaklingsmunur á lundarfari og útliti þeirra.

Vinsældir landnámshænunnar

Margar ástæður geta verið fyrir því að fólk ákveður að fá sér landnámshænur. Sem dæmi má nefna verndargildið eins og tíðrætt er um í þessari grein. Aðrar ástæður eru t.d. að hún er ákaflega skrautlegur fugl og fremur mannblendin sem greinir hana frá mörgum öðrum hænsnafuglum.

Lýsingar á hænum hérlendis eru með allt öðrum hætti en gengur og gerist meðal annarra þjóða. Íslensku landnámshænurnar þekkjast í sundur á því hversu ólíkar í litum og fiðurmynstrum þær eru. Litur á fótleggjum getur einnig verið misjafn milli fuglanna og kambgerðirnar eru nokkrar. Þetta verður til þess að hænurnar eru þekktir einstaklingar en ekki aðeins „fuglahópur”. Auk þess hafa þær hver sinn persónuleika sem gerir þær enn skemmtilegri í umgengni.

Undanfarin ár hafa vinsældir landnámshænunnar vaxið meðal þéttbýlisbúa og hafa mörg sveitarfélög gefið leyfi fyrir hænsnahaldi eftir ákveðnum reglum. Yfirleitt er kveðið á um hámarksfjölda fugla og að ekki megi vera með hana, því hann getur valdið ónæði fyrir nágranna. Algengt er að 4-6 hænur séu haldnar í bakgörðum, þar sem útbúin hefur verið fyrir þær kofi með útigerði. Útigerðið ver hænsnin fyrir hugsanlegum hættum t.d. fyrir hundum og köttum eða öðrum óvitum. Hænsnakofinn þarf að vera þurr og hlýr, en það má ekki frjósa í honum að vetrarlagi. Gott er að hafa vægt ljós hjá fuglunum í mesta skammdeginu, til þess að halda varpinu gangandi en það er birtustýrt atferli.

Hænur sem haldnar eru í svona smáum hópum eins og hér er lýst hafa einnig notið vinsælda vegna hæfileika þeirra til þess að nýta matarafganga og sporna þannig við matarsóun eða í það minnsta nýta þá til fóðurs að einhverju leiti.

Þetta er að öllum líkindum meginástæður þess að landnámshænan hefur alltaf lifað í íslensku samfélagi og mun halda því áfram sem nokkur Íslendingur vill stunda sjálfsþurftarbúskap og halda hænur til eigin nota.

Félagsstarf

Árið 2004 var félagsskapur áhugamanna um verndun landnámshænunnar stofnaður og er eina starfandi félagið hér á landi sem stuðlar að verndun og ræktun á þessu gamla landkyni sem landnámshænan er. Félagið heitir Eigenda- og ræktendafélag landnámshænsa (ERL). Það hefur staðið fyrir ýmsu til að stuðla að aukinni verndun og meðvitund um hversu mikilvæg erfðaauðlind landnámshænan er.

Félagið hefur samþykkt ræktunarstaðal fyrir landnámshænuna, sem er gert til að afmarka hana frá öðru hænsnakyni hér á landi og minnka líkur á blöndun. ERL fylgir framkvæmd hans eftir með úttektum á búum og vottun ræktenda. Einnig hefur ERL staðið fyrir fræðslunámskeiðum um landnámshænur og hænsahald almennt, ásamt því að standa fyrir sýningum á landnámshænum fyrir almenning og áhugamenn. ERL gefur einnig út árlegt tímarit sem tileinkað er fræðslu og umfjöllun um landnámshænuna, ásamt því að halda úti heimasíðunni hæna.is

Útlit Landnámshænunnar

Mikla fjölbreytni er að finna í útliti landnámshænunnar, s.s. í kömbum og litarafbrigðum fiðurhams og fótleggja. Hafa Bændasamtökin meðal annars gefið út veggspjald sem gefur þónokkra mynd af útliti og litarafbrigðum.

Algengt er að eigendur landnámshænsna gefi þeim nafn eftir útliti þeirra. Nafnið er þá gjarnan lýsandi fyrir viðkomandi einstakling. s.s. Dröfn gæti verið svar-dröfnótt hæna, hæna sem hefur svartan grunnlit og er alsett hvítum fjöðrum inn á milli sem gerir hana dröfnótta að lit. Toppa getur verið hæna sem hefur tignarlegan fjaðratopp á höfði. Þoka getur verið alsett gráum tónum, dökkgrá á höfði en lýsist svo niður, Flikra getur verið hvít í grunnin en með svartar fjaðrir í stéli og á hálsi sem gerir hana flikrótta. Frekja getur verið skírskotun í skapgerð en hún getur verið hátt sett í hænsnahópnum og látið fyrir sér fara. Bláma getur verið kolsvört að lit en með bláan blæ á fiðrinu, í sólarljósinu er eins og fiðrið sé svar-blátt.

Eigenda- og ræktendafélag landnámshænsna samþykkti fyrir nokkrum árum útlitsstaðal sem tekur á helstu einkennum landnámshænunnar svo greina megi hana frá öðrum tegundum hænsna. Staðall þessi birtist til að mynda í árlegu tímariti félagsins, Landnámshænan og á heimasíðu félagsins hæna.is

Staðall Landnámshænunnar:

Útlitseinkenni

 • Fremur lítill haus miðað við búkstærð og goggur stuttur, breiður og boginn fremst.
 • Misstórir fjaðratoppar á haus algengir.
 • Kambar af ýmsum gerðum, einfaldir, annað hvort beinn eða lafandi, rósakambur, blöðrukambur, kórónukambur og krónukambur.
 • Eyru hvít eða dröppuð.
 • Separ langir á hönum en misstórir á hænum.
 • Augu gul, brún eða órans.
 • Háls fremur stuttur og sver.
 • Búkur þéttvaxinn, stutt bak sem mjókkar aftur og breið hvelfd bringa.
 • Þyngd: hænur 1,4 – 1,6 kg og hanar 2,1 – 2,4 kg hjá fullvöxnum fuglum
 • Fiðurhamur þéttur og sléttur.
 • Vængir breiðir og stuttir, mjókka aftur með búknum.
 • Stél hátt sett, mjög hreyfanlegt. Hanar með nokkrar langar og bognar stélfjaðrir (5 – 7).
 • Litafjölbreytni mjög mikil, allir litir leyfðir.
 • Leggir langir og í mörgum litum.
 • Hænur venjulega með litla spora en hanar með langa og uppsveigða spora.
 • Klær fjórar, afturkló eilítið innanfótar.
 • Leggir berir.

Atferliseinkenni o.fl.

 • Mannelsk, forvitin og sjálfbjarga (Heldur góðu jafnvægi)
 • Hænurnar hafa sterka móðurhvöt og vilja gjarnan liggja á.
 • Hver einstaklingur hefur sinn persónuleika.
 • Frjósemi oftast góð hjá báðum kynjum.

Af þessu má sjá að fjölbreytni er mikil innan raða landnámshænunnar.

Hænur og máltæki í íslensku

Til gamans má að lokum nefna að í tungumálinu eru fjölmörg orðatiltæki sem tengjast hænsnum og atferli þeirra og eru til merkis um þann sess sem hænsni skipa í lifandi menningu landsmanna. Má þar nefna nokkur dæmi:

 • „Hann/hún er rogginn/roggin eins og hani
 • „Þetta er ljóti hanaslagurinn
 • „Nei það verður ekki matur, bara hanastél(kokteilboð)“
 • „Stiginn upp á hanabjálkaloftiðer þröngur“
 • „Ég svaf lítið í nótt, svo ég fékk mér smá hænublund
 • „Ég fer sko ekki hænufet
 • „Hann/hún er óttalegur hænuhaus, ætti ekki að smakka áfengi því að hann/hún verður strax drukkin/drukkinn“
 • „Ég fór bara hægt yfir, eitt hænuskrefí einu“

Hænur í íslenskum fornsögum

Þó frekar lítið sé til af heimildum um hænur á Íslandi fyrr á öldum þá koma þær stundum fyrir í gömlum bókmenntum, s.s. Snorra-Eddu og fleiri bókum. Í grein Stefáns Aðalsteinssonar í Frey (5. tbl, 2004) kemur fram að hænsna sé getið í Hænsna-Þórissögu, Flóamannasögu og að Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson hafi séð smágerð, svört hænsni á ferð sinni um Öræfi á 18. öld. Einnig kemur fram í greininni að vitað sé um hænsn á Héraði, í Lóni og á Nesjum seint á 19. öld.

Völuspá er hluti af Snorra-Eddu en þar er minnst á þrjá hana sem eru ekki ólíkir af lýsingunni að dæma og landnámshænan. Hanar þessir voru litskrúðugir og frísklegir í fasi, héldu sig nærri byggðum og uppi í trjám. Hanar þessir voru einskonar varðhundar guðanan í Ásgarði og vöktu íbúa þar ef eitthvað var að. Einn þessara hana hét Gullinkambi og þótti fara hart fram í galinu. Það er vel hægt að ímynda sér að þarna sé komin lýsing á forfeðrum landnámshænsnanna.

Að lokum

Eins og að framan er rakið hefur landnámshænan skipað stóran sess í lífi landsmanna og gerir enn. Í kring um þennan fallega fugl hefur skapast fjölbreytt og lifandi menning sem snýr að ólíkum þáttum eins og ræktun, nýtingu afurða auk þess sem menning tengd hænum hefur unnið sér sess í tungumálinu og bókmenntum. Fuglinum fylgir svo alltaf efnismenning sem tengist m.a. aðbúnaði.

Tekist hefur að varðveita og viðhalda stofni landnámshænsna í landinu sem er lifandi hugsjónastarf. Það er óskandi að það verði áfram um ókomin ár og áratugi. ERL vinnur að því að viðhalda stofninum og þekkingu um hann og miðla henni til áhugasamra. Þannig leggur félagið sitt af mörkum til varðveislu þessarar dýrmætu erfðaauðlindar.

Tilvísanir og frekari upplýsingar:

Heimasíða Eigenda- og ræktendafélags landnámshænsna (ERL): hæna.is

Landnámshænan, tímarit ERL. Tímaritið er hægt að nálgast í ýmsum verslunum sem selja vörur tengdar hænsnahaldi auk þess sem því er dreift til allra félagsmanna ERL.

Bs. Ritgerð Ólafar Óskar Guðmundsdóttur hjá Landbúnaðarháskóla Íslands. Erfðabreytileiki innan íslenska hænsnastofnsins metinn með greiningu örtungla. Sjá hér.

Bs. Ritgerð Ástu Þorsteinsdóttur hjá Landbúnaðarháskóla Íslands. Afurðir og einkenni íslenska hænsnastofnsins. Sjá hér.

Tíminn. Þriðjudaginn 1. febrúar 1977, bls. 12-13. Aðeins fáar íslenzkar hænur til í landinu.

Tíminn. Sunnudagurinn 25. maí 1975, bls. 8. Við vildum gefa mikið til að geirfuglinn væri lifandi núna.

Tíminn. Sunnudagurinn 25. maí 1975, bls. 9. Aðstöðu og fjármagn skortir.

Tíminn. Fimmtudagurinn 26. maí 1977, bls 3. Íslenzkum hænsnastofni borgið?

Myndasafn

Litskrúðugar hænur á grænni grund. Guldröfnótt hæna í forgrunni. Mynd: Jóhanna Harðardóttir.

Gráflikrótt hæna. Mynd: Jóhanna Harðardóttir.

Landnámshænur af Andrésarstofni spássera um túnið í Engihlíð í Vopnafirði sumarið 2019. Mynd: Halldóra Andrésdóttir.

Landnámshænur að störfum að Húsatóftum á Skeiðum sumarið 2018. Þarna má sjá ýmsa liti t.d. ljósgráa hænu og hana, rauðan hana, svardröfnótta hænu og ljósgular hænur með dökkt stél. Mynd: Magnús Ingimarsson.

Vikugamlir landnámshænuungar. Ungar sem klakist hafa út í útungunarvél. Mynd: Magnús Ingimarsson.

Landnámshænuegg í hreiðri/varpkassa. Mynd: Magnús Ingimarsson.

Svartdröfnótt hæna með svarbláa slikju (olíubrák) á svarta fiðrinu og fallega hvít eyru. Hæna af Andrésarstofni. Mynd: Magnús Ingimarsson.

Hvít hæna með ljósbrúnar og gráar flikrur á búk og í stéli. Myndarlegur fjaðratoppur á höfði. Mynd: Jóhanna Harðardóttir.

Börn að leik innan um hænurnar. Þarna má sjá grábrúna hænu lengst til vinstri, gula hænu með svart stél og vængfjaðrir og alsvarta hænu með gráa fótleggi. Hægra megin er ljósgul hæna með grátt stél. Við hlið hennar eru tvær hvítar flikróttar hænur með svart stél. Mynd: Brynhildur Inga Einarsdóttir.

Landnámshæna með unga á hreiðri. Brún hæna með topp og fallega hvítar eyrnaskífur. Mynd: Brynhildur Inga Einarsdóttir.

Mynd frá sýningu Eigenda- og ræktendafélags landnámshænsna á Hvanneyrarhátíð 2017. Mynd: Magnús Ingimarsson.

Merki Eigenda- og ræktedafélags landnámshænsna.