Ljóðahátíðin Haustglæður hefur verið haldin á Siglufirði og síðar Fjallabyggð á hverju ári síðan 2007. Markmið hátíðarinnar er að auka áhuga og vekja athygli á íslenskri ljóðlist, að kynna helstu skáld þjóðarinnar fyrir íbúum Fjallabyggðar sem og að hvetja skáld og hagyrðinga á svæðinu til dáða.

Skráð:

09.10.2018

Skráð af:

Ljóðahátíðin Haustglæður

Landfræðileg útbreiðsla:

Norðurland

Ljóðahátíðin Haustglæður samanstendur af ýmsum viðburðum sem tengjast ljóðlist og eru þeir haldnir á tímabilinu september til desember í Fjallabyggð ár hvert. Hefðbundnir viðburðir eru t.d. heimsóknir ljóðskálda í Grunnskóla Fjallabyggðar og á dvalarheimilin í Fjallabyggð, ljóðakvöld á Ljóðasetri Íslands á Siglufirði og ljóðasamkeppni milli nemenda í eldri deild Grunnskóla Fjallabyggðar. Auk þessara viðburða hafa ýmsir aðrir viðburðir verið á dagskrá hátíðarinnar má þar t.d. nefna ýmsa tónleika þar sem íslensk ljóð eru í forgrunni, bragfræðinámskeið, ljóða- og bókasýningar, leiksýningar, myndlistar- og glerlistarsýningar, ljóðabókamarkað o.fl.

Ávallt hefur verið lögð mikil áhersla á að virkja börn á þessari hátíð og má segja að það sé sérkenni hennar. Hlýða þau á upplestra skálda, njóta leiksýninga, flytja ljóð á vinnustöðum, taka þátt í ljóðasamkeppni o.fl. Aðrir sem njóta er áhugafólk um ljóðlist í Fjallabyggð sem og gestir úr öðrum byggðarlögum sem sækja viðburði hátíðarinnar.

Það eru Ungmennafélagið Glói og Félag um Ljóðasetur Íslands sem standa að hátíðinni. Þórarinn Hannesson er í forsvari fyrir bæði félögin og hefur hann skipulagt og stýrt þessari hátíð frá upphafi.

Ljóðahátíðin Haustglæður hefur verið haldin á hverju ári síðan 2007 í Fjallabyggð. Fyrstu árin hét hátíðin Glóð og fór fram á einni helgi en undanfarin ár hefur hún verið í formi viðburða sem haldnir eru frá september til desember og var nafni hátíðarinnar breytt í takt við það. Ungmennafélagið Glói setti þessa hátíð af stað en frá árinu 2009 hafa Glói og Félag um Ljóðasetur Íslands staðið að hátíðinni saman. Markmið hátíðarinnar er að auka áhuga og athygli á íslenskri ljóðlist, að kynna helstu skáld þjóðarinnar fyrir íbúum Fjallabyggðar sem og að hvetja skáld og hagyrðinga á svæðinu til dáða.

Þeir sem sækja hátíðina og/eða njóta þess sem þar er í boði eru helst íbúar Fjallabyggðar. Eitthvað er um það að utanaðkomandi gestir sæki einstaka viðburði en það er ekki í miklu mæli. Fjöldi þeirra sem nýtur þess sem í boði ár hvert er um 300 – 350 manns. Fæstir hafa njótendur verið 250 en flestir 420.

Heimildir um hátíðina er hægt að nálgast á heimasíðu Ljóðaseturs Íslands http://ljodasetur.123.is/ , fésbókarsíðum Ljóðaseturs Íslands og Umf Glóa sem og í ársskýrslum og fréttabréfum Umf Glóa.

Myndasafn

Myndlistar- ljóða- og ljóðabókasýning árið 2009.

Vinningshafar í ljóðasamkeppni hátíðarinnar árið 2009.

Ungmenni lesa ljóð á vinnustað árið 2010.

Tríó flytur lög við ljóð Ingunnar Snædal árið 2012.

Nemendur yrkja út frá listaverkum á hátíðinni árið 2015.

Vinningshafar í ljóðasamkeppni hátíðarinnar árið 2014.

Ungmenni sem tóku þátt í ljóðadagskránni Ljóð unga fólksins á hátíðinni árið 2016.

Ingunn Snædal flytur eigin ljóð á hátíðinni árið 2012.

Ungmenni á Ljóðasetrinu bíða spennt eftir niðurstöðu úr ljóðasamkeppni á hátíðinni árið 2016.

Sönghópur tekur lagið á lokakvöldi hátíðarinnar árið 2010.

Vinningshafar í ljóðasamkeppni árið 2010. Ásamt Þórarni Hannessyni, skipuleggjenda hátíðarinnar, og Einari Má Guðmundssyni gestaskáldi hátíðarinnar það ár.

Sýning ljóða úr ljóðasamkeppni hátíðarinnar frá árunum 2010 - 2012. Sýningin var í verslun Samkaupa á Siglufirði.