Heilags Marteins er minnst í nóvember ár hvert með göngu. Þeir sem taka þátt í göngunni eru með lugtir sem í loga ljós. Í göngunni eru sungnir söngvar og svo er leikrit leikið áður en veitingar eru bornar fram.

Skráð:

12.12.2018

Skráð af:

Þýsk-Íslenska tengslanetið / Deutsch-Isländischen Netzwerk

Landfræðileg útbreiðsla:

Höfuðborgarsvæðið

Marteinn frá Tours fæddist árið 316 í Ungverjalandi. Þar sem faðir hans var háttsettur rómverskur hermaður varð Marteinn einnig að gegna herþjónustu. Hann baðst fljótlega undan henni og var loks leystur frá störfum, fertugur að aldri. Eftir nokkur ár sem einsetumaður stofnaði Marteinn klaustrið Marmoutier í Tours. Hann varð fljótlega þekktur fyrir góðverk sín og kraftaverk. Hann var vígður biskup frá Tours þann 4. júlí 372 og dó árið 397, 81 árs að aldri. Marteinn frá Tours var jarðsettur 11. nóvember sama ár og ríkti þá mikil sorg. Á leiðinni til Tours í jarðarför hans héldu fylgismenn hans á lugtum sem í loguðu ljós. Hann var fyrstur dýrlinga á Vesturlöndum, sem ekki hafði dáið píslarvættisdauða, sem tekinn var í dýrlingatölu en það var gert vegna kærleika hans og miskunnsemi. 

Á meðan Marteinn gegndi herþjónustu tilheyrði klæðnaði þjóðvarðaliða kápa úr tveimur hlutum og var efri hluti fóðraður hlýju gæruskinni. Einn kaldann vetrardag varð á vegi Marteins fátækur og illa klæddur maður. Fyrir utan vopnin sín og kápu hafði Marteinn ekkert í fórum sínum til að bjóða manninum. Hann kenndi í brjóst um manninn og skar kápuna sína í tvennt. Svo lét hann betlarann fá annan helminginn. Um nóttina birtist honum svo Jesús sjálfur, klæddur í kápu betlarans. Þessi draumur snerti Martein djúpt. Hann lét skíra sig, baðst undan herþjónustu og vann sem prestur uppfrá því.

Einhver dýrkun var á heilögum Marteini hérlendis þó svo að messa hans yrði aldrei mikill helgidagur sem mikið bæri á í daglegu lífi. Heilagur Marteinn var þó verndari kirknanna á Hvanneyri og Melum í Borgarfirði og á Vörðufelli á Skeiðum. Hann vitraðist helgum íslenskum mönnum, þeim Þorláki helga Þórhallssyni, Jóni Ögmundssyni og Guðmundi góða Arasyni.

Marteinsmessa er viðburður sem haldin er 11. nóvember ár hvert. Algengt er að hún sé haldin hátíðleg víða um Evrópu. Margar hefðir hafa myndast í kringum þennan dag en þekktastar eru lugtargangan, Marteinsgæsin, söngleikur og blessunin. Víða í Þýskalandi, Austurríki og Sviss er farið í lugtargöngu heilags Marteins, sem er skrúðganga í fylgd leikara og lúðrasveitar, þar sem börnin sýna lugtir sem þau hafa föndrað. Þátttakendur syngja saman lög til minningar um Martein biskup og helgileikrit er sýnt. Við þetta tækifæri er það víða til siðs að börnin fái sætabrauð.

Allt frá árinu 1995 hefur verið farið í lugtargöngu heilags Marteins hér á landi. Á síðustu árum hefur Þýsk-íslenska tengslanetið, í samvinnu við Bókasafn Hafnarfjarðar og þýska sendiráðið á Íslandi, staðið fyrir lugtargöngu heilags Marteins í Hafnarfirði ár hvert. Safnast er saman við Bóksafn Hafnarfjarðar í Strandgötu og gengið þaðan í Hellisgerði. Þátttakendur hafa útbúið sérstakar luktir, sem oft eru fagurlega skreyttar og litríkar, sem í loga ljós. Á meðan gengið er eru sungin lög sem tengjast heilögum Marteini. Í Hellisgerði er leikið leikrit um söguna af heilögum Marteini og betlaranum og fleiri söngvar sungnir. Að dagskrá lokinni er gengið til baka á bókasafnið og þar bornar fram veitingar. Veitingarnar eru oft á tíðum heitt kakó, ásamt hefðbundnu þýsku bakkelsi eins og brezeln og weckmänner. Þátttakendur í göngunni eru mest fjölskyldufólk sem á það jafnan sameiginlegt að hafa einhvers konar tengsl við Þýskaland. T.a.m. getur verið um að ræða fólk af þýsku bergi brotið sem hefur sest að hér á landi ásamt fjölskyldum sínum. Með þátttöku í göngunni viðheldur það hefðum frá heimalandinu og miðlar þeim til barna sinna.

Frekari upplýsingar um lugtargöngu heilags Marteins má finna á vefsíðu Þýsk-íslenska tengslanetsins: http://netzwerk.weebly.com

 

Myndasafn

Heimagerðar litríkar lugtir njóta sín vel í skammdeginu. Mynd: Helgi Viðar / Deutsch-Isländisches Netzwerk

Mynd: Helgi Viðar / Deutsch-Isländisches Netzwerk

Mynd: Helgi Viðar / Deutsch-Isländisches Netzwerk

Göngufólk lætur veðrið ekki stoppa sig, enda allra veðra von í nóvember. Mynd: Helgi Viðar / Deutsch-Isländisches Netzwerk

Mynd: Helgi Viðar / Deutsch-Isländisches Netzwerk

Mynd: Helgi Viðar / Deutsch-Isländisches Netzwerk

Mynd: Helgi Viðar / Deutsch-Isländisches Netzwerk