Frá árinu 1936 hafa kvenfélagskonur á Húsavík gert blóm sem þær nefna mæðradagsblóm. Árlega er haldið blómapartý þar sem konurnar hittast til að búa til blómin sem svo eru seld í aðdraganda mæðradagsins.

Skráð:

14.11.2019

Skráð af:

Kvenfélag Húsavíkur

Landfræðileg útbreiðsla:

Norðurland

Í fornöld og í ýmsum menningarheimum voru dagar helgaðir mæðrum og dýrkun mæðragyðja. Dagurinn eins og hann þekkist hérlendis kemur frá Bandaríkjunum. Árið 1908 hvatti Anna M. Jarvis áhrifamenn til að helga annan sunnudag í maí mæðrum. Hvatning hennar og barátta skilaði árangri en árið 1914 var dagurinn helgaður mæðrum opinberlega í Bandaríkjunum.

Árið 1934 var mæðradagurinn haldinn hátíðlegur í fyrsta sinn á Íslandi að undirlagi Mæðrastyrksnefndar. Þá seldi Kvenfélagasamband Íslands merki mæðradagsins sem kvenfélög víða um land seldu til styrktar einstæðum mæðrum. Upphaflega var mæðradagurinn haldinn fjórða sunnudag í maí, en síðar ýmsa aðra sunnudaga maímánaðar. Frá árinu 1980 hefur hann verið haldinn annan sunnudag í maí eins og tíðkast í Bandaríkjunum.

Strax árið 1936 ákvað Kvenfélag Húsavíkur að í stað þess að selja merki myndu þær sjálfar búa til blóm til að minnka kostnað við fjáröflun og auka hagnað. Frá árinu 1936 hafa kvenfélagskonur á Húsavík selt handgerð blóm sem þær kalla mæðradagsblóm í aðdraganda mæðradagsins. Þessi fjáröflun hefur haldist nær óslitið síðan 1936 og rann ágóðinn í upphafi óskiptur til einstæðra mæðra en í dag til einstæðra foreldra.

Mikil stemning er hjá kvenfélagskonum í kringum blómagerðina. Haldin eru blómapartý þar sem blómin eru gerð og er það mikil skemmtun. Skipuð er blómanefnd sem sér um undirbúning fyrir blómagerðina og leggur til veitingar sem boðið er uppá í blómapartýinu. Upphaflega voru blómapartýin í heimahúsi en nú hittast konurnar allar saman í safnaðarheimili Húsavíkurkirkju.

Blómin eru ávallt gerð með sama hætti úr litríkum kreppappír. Ákveðið handbragð þarf til að blómin verði vel heppnuð. Þekkingunni og færninni við blómagerðina er miðlað frá þeim reynslumeiri til nýrra kvenna sem bætast við félagsskapinn. Engin kona gerir alveg eins blóm þannig að hvert blóm er einstakt.

Á árum áður var gengið í hús með blómin og þótti það mikil upphefð fyrir ungar stúlkur að fá að ganga í hús með blóm í körfu en í dag eru blómin seld við verslanir.

Í sjónvarpsþættinum Landanum var fjallað um mæðradagsblómagerð kvenfélagskvenna á Húsavík og má sjá umfjöllunina hér.

Nánari upplýsingar um mæðradaginn:

Árni Björnsson. Saga daganna. Reykjavík: Mál og menning, 1993.

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Afhverju er mæðradagurinn til?“ Svar á Vísindavefnum.

Myndasafn

Blómin eru seld við verslanir í aðdraganda mæðradagsins. Mynd: Helga Dóra Helgadóttir.

Það tilheyrir að bjóða upp á góðar veitingar við blómagerðina. Mynd: Helga Dóra Helgadóttir.

Fjölmenni og mikil stemning í blómapartýi. Mynd: Helga Dóra Helgadóttir.

Blómapartýin eru árlegur viðburður hjá Kvenfélagi Húsavíkur. Mynd: Helga Dóra Helgadóttir.

Litríkur kreppappír er notaður við blómagerðina. Hvert og eitt blóm er einstakt. Mynd: Helga Dóra Helgadóttir.

Mikil stemning er við blómagerð í blómapartýi. Mynd: Helga Dóra Helgadóttir.