Hér er lýst verklagi við undirbúning og framkvæmd við lagnetaveiðar á laxi í straumvatni á Íslandi. Hér er einkum lýst hefðum við netaveiðar í jökulvatni í stórám á Suðurlandi, Ölfusá og Þjórsá.

Skráð:

24.01.2023

Skráð af:

Magnús Jóhannsson

Landfræðileg útbreiðsla:

Suðurland

Um er að ræða veiði á laxi með lagnetum. Með lagnetum er átt við net sem eru látin liggja í skemmri eða lengri tíma þar til þeirra er vitjað og fiskur sem í þau veiðist tekinn til eigin neyslu eða til sölu. Mjög er mismunandi hve djúp og löng netin eru sem lögð eru og fer það allt eftir aðstæðum á hverjum stað. Net þessi eru gjarna lögð frá töngum (sérstaklega þar sem straumur er mikill) og liggja þau þá með straumi. Lax sem er veiddur er á göngu úr sjó í ferskvatn á hrygningarslóðir. Þar sem straumur er mikill gengur lax gjarna með löndum og gengur þess vegna í netin. Ásamt laxi veiðist silungur, einkum sjóbirtingur á göngu úr sjó.

Stundum er sett fyrirstaða út í strauminn og netin lögð niður af henni. Í fyrirstöðum eru gjarna trékláfar með grjóti eða sandpokum til að þeir hreyfist ekki úr stað. Ef fyrirstaðan er löng eru grindur hafðar með reglulegu millibili til að minnka álagið á mannvirkið. Fyrir kemur að fyrirstöður gefa sig ef flóð er í ánni.

Ef þannig háttar að net eru löng og staumur hagstæður er þeirra vitjað með bátum. Stundum er lagt út frá eyrum eða eyjum út í ánni. Vitja þarf neta reglulega, helst kvölds og morgna eða oftar, er það kallað að vitja um og athöfnin umvitjun. Fiskur er þá tekinn úr netunum og þau hreinsuð því oft vill mosi og annar gróður festast í þeim. Sérstakt lag þarf að viðhafa til að hreinsa netin. Áður voru óhreinindi hreinsuð með því að tveir menn héldu um netariðilinn báðum höndum milli sín og hristu með því að hreyfa hendurnar í takt sundur og saman. Á seinni árum hafa menn notað háþrýstidælur til að hreinsa netin.

Netaveiðar þessar eru stundaðar að sumarlagi þegar von er á laxi á göngu úr sjó. Veiðitíminn fer eftir því hverjar reglur eru fyrir viðkomandi vatnsfall sem viðkomandi veiðifélag setur og eru þær innan ramma laga um lax- og silungsveiði. Veiðifélög gera nýtingaráætlanir en tilgangur þeirra er m.a. að setja reglur um að nýtingin sé sjálfbær. Veiðin byrjar gjarna seinni partinn í júní og stendur yfir fram í ágúst eða september.

Lax hefur lengi verið nytjaður hér á landi. Fyrr á árum var lax veiddur með ádrætti, kistum, stingum og fleiri aðferðum. Á síðari árum hefur stangveiði verið meginnýtingarformið. Netaveiðar á laxi með lagnetum hefjast líklega hér á landi upp úr aldamótunum 1800. Hafa þær verið stundaðar með svipuðum hætti í gegnum tíðina. Helst hefur efni í riðli neta og teina breyst, orðið varanlegra og riðill úr fíngerðara efni sem gerir netin veiðnari. Á seinni árum er riðill neta aðallega úr fjölþátta girni, fyrr úr hampi og síðar næloni. Þá hefur möskvi í riðli farið minnkandi oft fylgir það smækkandi stærð á laxi. Netin eru felld á teina (kaðla), gjarna til helminga, þ.e. lengd riðils styttist um helming. Við það pokast netin og veiða betur. Efri teinninn þarf að vera það léttur að hann fljóti. Hér áður fyrr var notað flot út korki, eða netakúlur úr gleri klæddar í snærispoka, síðar flothringir úr frauðplasti og á síðari árum flotteinn sem netin eru felld á. Á neðri teininn var fyrr á árum sett keðja til að þyngja hann, þrædd með bandi á teininn. Á síðari árum hefur netið verið fellt á tein sem er það þungur að ekki þarf að þyngja hann frekar. Neðri teinn þannig gerður er gjarna kallaður blýteinn.

Helst eru það landeigendur eða bændur sem stunda netaveiðar á laxi. Stundum eru aðrir en landeigendur sem veiða og þá gjarna upp á helmingsaflahlut. Sömuleiðis er silungur, og þá einkum sjóbirtingur (sjógenginn urriði), veiddur með svipuðum hætti, en í minna mæli. Á Suðurlandi er sjóbirtingur helst veiddur í net í Skaftá og Kúðafljóti. Í Kúðafljóti hefur til skamms tíma einnig verið veitt með ádráttarnetum en þau eru látin reka undan straumi.

Hefðin að veiða lax í net í straumvatni er að hverfa úr íslensku samfélagi. Stöðugt fækkar þeim sem stunda þessar veiðar og þær eru ekki stundaðar af sama kappi og áður. Við hefur tekið leiga til stangveiði. Veiðar þessar eru nú nær eingöngu stundaðar í jökulvatni Ölfusá, Hvítár og Þjórsár, þar sem stangveiði á laxi er ekki möguleg eða erfið. Þessi verkkunnátta er því á undanhaldi og getur horfið úr íslensku samfélagi.

Myndasafn

Félagsbryggja, netaveiðistaður í Ölfusá. Veiðilátur fyrir landi Sandvíkurtorfunnar í Ölfusá. Mynd: M.J.

Langabryggja, netaveiðistaður í Ölfusá fyrir landi Sandvíkurtorfunnar. Kláfar með grjóti og grindur á milli. Mynd: M.J.

Netaveiði í Ölfusá við Kotferju. Vitjað um net við Ferjustað. Undir árum er Sigurður Hannesson og Jóhann bróðir hans dregur inn netið með laxi í. Mynd tekin 1974-1980 af Hannesi Jóhannssyni.

Netaveiðar í Ölfusá. Hannes Jóhannsson frá Stóru-Sandvík við netaveiðar í Ölfusá. Mynd: M.J.

Netaveiði í Ölfusá. Gunnar Gunnarsson og Bjarni Sigurgeirsson vitja um net við Kötlu í Ölfusá. Bjarni er við árar og Gunnar heldur í netið. Myndin gæti verið tekin milli 1985 og 1990. Mynd: M.J.

Gunnar Gunnarsson bóndi á Selfossi og Bjarni Sigurgeirsson Selfossi vitja um net á Eyrinni í Ölfusá við Selfoss. Mynd tekin um 1990. Mynd: M.J.

Netaveiði úr Ölfusá. Mynd: M.J.

Netaveiði að Urriðafossi í Þjórsá. Einar Haraldsson vitjar um netið. Mynd: M.J.