Koszyki wielkanocne

Páskakörfur/ Święconka eða gerð páskakarfa er hefð sem er stunduð um páska í Póllandi og er tengd kristinni trú. Hefðin felur í sér að undirbúa fléttaða körfu, skreyta hana og setja í hana tiltekinn mat. Síðan fer fólk með körfuna í kirkju og biður um blessun fyrir matinn sem karfan geymir. Á sunnudegi um páska, á Páskadag, hittast fjölskyldumeðlimir og borða saman þennan blessaða mat en hann er mikilvægur hluti af hefðbundnum morgunmat á Páskadegi.

Margir Pólverjar sem búa hér á landi stunda þessa hefð og oft ríkir mikil spenna hjá yngstu meðlimum fjölskyldunnar að fara með páskakörfu fjölskyldunnar til kirkju og láta blessa yfir matinn. Flest af því sem fólk vill setja í körfuna er hægt að fá í íslenskum matvöruverslunum en einnig fer fólk í pólskar búðir í leit að vissum vörum.

Fallegt skraut og góður matur

Hefðin að gera páskakörfu hefur lengi verið partur af pólskri menningu og er mikilvægur þáttur í páskahátíðinni og undirbúningi hennar. Hefðin felst í að útvega sér litla eða miðlungs stóra fléttaða körfu og skreyta hana með einhverju hætti. Skreytingarnar eru mjög einstaklingsbundnar en oft eru notaðar slaufur, borðar, blóm og blúndur og trjágreinar.

Líkt og með skreytingarnar er innihald páskakarfanna einstaklingsbundið og er einnig bundið við vissa landshluta í Póllandi en samkvæmt hefðinni eiga að vera samtals sjö hlutir í körfunni. Það sem oftast má finna í körfunni eru; máluð egg, pólsk pylsa, kjötálegg (t.d. skinka), piparrót (sem er algengt hráefni í pólskri matargerð), hunang, salt, pipar og lítil lömb gerð úr sykri. Að auki eru oftast líka einhver pólsk páskakaka: babka eða mazurek. Stundum má einnig finna litla flösku af heilögu vatni í körfunni.

Allt sem er í páskakörfunni hefur táknrænu merkingu. Brauð táknar líkama Krists. Ostur er tákn fyrir samstarf og vináttu milli mannfólks og húsdýra og á að tryggja að slíkt samstarf haldist farsælt áfram. Piparrótin táknar beiskar jurtir og vísar til þjáningar Krists. Heilagt vatn og salt eiga að hreinsa og undirbúa allt fyrir nýtt líf. Algengt er að kjúklinga og kanínufígúrur séu í körfunni. Kjúklinga fígúra vísar til endurfæðingar en kanínu fígúra vísar til frjósemi og endurfæðingar náttúrunnar að vori. Kanínu fígúran vísar einnig til þess þeirrar þjóðtrúar að kanínur sofi með augun opin og það hafi því verið kanína sem var fyrst til að sjá upprisu Krists. Skinka og annað kjötálegg táknar gnægð og gleði páskanna. Pólsk pylsa táknar hylli Guðs og örlæti.

Mikilvægt er að taka fram að þetta eru aðeins dæmi um mögulegt innihald páskakarfanna en innihald þeirra og táknræn þýðing þeirra getur verið mismunandi eftir svæðisbundnum siðum og óskum hvers og eins.

Allt innihald páskakörfunnar á að geta verið borðað yfir páskanna, og er mikilvægur partur af morgunmat á Páskadagsmorgun en sú máltíð er aðalmáltíð páskanna í Póllandi. Allir sem sitja við matarborðið (líka gæludýr hjá sumum) eiga að smakka allt sem er í körfunni en sérstaklega eiga allir að brjóta saman egg og fá sér hluta af því.

Það sem gerir páskakörfuna sérstakar er að fjölskyldur, sérstaklega yngstu meðlimir fjölskyldunnar, fara saman í kaþólska kirkju á laugardegi um páskahelgina og taka þátt í sérstakri athöfn þar sem prestur blessar matinn og gerir hann þar með „heilagan“. Eftir að maturinn í körfunni hefur verið blessaður er nauðsynlegt að sýna honum virðingu og nýta hann allan og láta ekkert af honum fara til spillis. Að borða matinn úr körfunni á einnig að tryggja velgengni og farsæld.

Samfella í tíma og tenging við forfeður/formæður

Sögulegan bakgrunn Páskakörfu/ Święconka hefðarinnar má rekja nokkrar aldir aftur í tímann. Kristin trú á sér langa sögu í Póllandi og páskarnir hafa alltaf skipað miðlægan sess á hinu trúarlega ári. Talið er að blessun matar á laugardegi um páskahelgina hafi átt uppruna sinn á tímum frumkristni þegar fólk færði kirkjunni matargjafir til blessunar á páskadag. Innihald páskakörfunnar er ríkt af táknmáli.

Í gegnum árin hefur páskakörfu hefðin þróast og aðlagast breyttum tímum. Þó að meginþættir hefðarinnar haldist þeir sömu þá geta verið nokkrar breytingar á innihaldi körfunnar, allt eftir svæðisbundnum hefðum og persónulegum óskum. Áður fyrr var til dæmis algengara að fjölskyldur útbyggju körfuna heima fyrir og gengu síðan ásamt öðrum fjölskyldum til kirkjunnar. Í dag er algengara að einstaklingar eða fjölskyldur komi með körfunar hver fyrir sig í kirkjuna.

Þrátt fyrir þessar breytingar páskakörfu hefðin gengið á milli kynslóða og heldur áfram að vera órjúfanlegur hluti af pólskri páskahátíð. Þetta er leið fyrir fjölskyldur að koma saman, staðfesta trú sína og heiðra menningararfleifð sína. Foreldrar miðla hefðinni til barna sinna, kenna þeim merkingu hvers hlutar í körfunni og mikilvægi blessunarinnar. Sumar fjölskyldur halda uppá sömu körfurnar sem hafa verið notaðar í margar kynslóðir. Það eykur á tilfinningu fyrir samfellu og tengingu við forfeður/formæður.

Mikilvægur þáttur páskahátíðarinnar

Þó að í Póllandi sé ekki opinber ríkistrú þá er stærstur hluti Pólverja kaþólskrar trúar. Samkvæmt rannsóknum CBOS, Miðstöð rannsókna á almenningsáliti (Wciórka, 2000) taka 95% pólskra borgara þátt í þeim sið að láta blessa mat í helgum laugardegi.

Hefðin er stunduð af stórum hluta íbúa Póllands og er mikilvægur þáttur í páskahátíðarhaldi og er þekkt og iðkuð víða en er helst af íbúum Póllands sem eru kaþólskrar trúar. Á síðast liðnum árum hafa þó tengsl almennings í Póllandi við kristni eða kaþólsku breyst og fólki er nú frjálsara að iðka aðra trú eða sleppa því.

Á Íslandi getur fólk af pólskum uppruna farið í kaþólskar kirkjur t.d. Landakotskirkju eða kaþólsku kirkjuna að Ásbrú til að fá blessun fyrir páskakörfu. Fólk útbýr sínar páskakörfur með því sem þeim finnst skipta máli og það sem er erfitt að fá í íslenskum matvöruverslunum er hægt að fá í pólskum búðum.

Til fróðleiks um hefðina

Komunikat CBOS wielki post i Wielkanoc w rodzinach, 2000, oprac. Bogna Wciórka.

Myndasafn

Demi og strákurinn hennar njóta saman páskanna á Íslandi.

Warsaw, Poland - April 16, 2022: Ceremony of traditional Blessing of the Easter baskets in Warsaw city

Hér sést dæmi um Pólskt páskaborð. Mynd er frá heimili fjölskyldunnar minnar i Póllandi. Til hægri sést “babka” páskakaka og garðkarsa. Til vinstri eru pólsk hring-kaka með heima lituðum eggjum og “mazurek” kaka.