Sumardaginn fyrsta ber upp á fimmtudag á bilinu 19. – 25. apríl ár hvert. Á deginum er komu sumars fagnað en samkvæmt forníslensku tímatali markaði dagurinn upphaf hörpu, fyrsta mánaðar sumarmisseris.

Skráð:

07.07.2020

Skráð af:

Andrea Diljá Edvinsdóttir

Landfræðileg útbreiðsla:

Allt landið

Með deginum lýkur vetri og af því tilefni hafa Íslendingar öldum saman haldið daginn hátíðlegan. Hátíðahöld hafa í gegnum tíðina farið fram með ýmsum hætti; með skrúðgöngum, tónleikum, sýningum, messuhaldi, gjafaskiptum, matarveislum og dansleikjum, svo fátt eitt sé nefnt.

Dagurinn ber einnig nöfnin yngismeyjadagur, jómfrúdagur og yngisstúlknadagur en í þjóðsögum Jóns Árnasonar frá árinu 1864 kemur fram að yngismeyjar skuli fagna komu hörpu. Þær áttu að fara snemma á fætur á yngismeyjadag og bjóða hörpu velkomna. Samkvæmt öðrum heimildum voru það ungir piltar sem áttu að vakna og bjóða hörpu velkomna, sem persónugervingu yngismeyja (Árni Björnsson, 2003:35).

Þá þekkist dagurinn einnig undir heitinu barnadagur. Það heiti má rekja til þess að börn hafa ætíð notið góðs af deginum. Á næstum öllu landinu var það lengi siður að börn færu í alls kyns útileiki ef veður leyfði á sumardaginn fyrsta og sluppu þá við vinnu sem þau sinntu aðra daga. Þá hefur sumardagurinn fyrsti verið opinber stuðningsdagur fyrir börn í Reykjavík frá árinu 1921.

Um aldamótin 1900 gerðu ungmennafélög daginn að sérstökum hátíðisdegi sínum og hafa félögin efnt til fjölskylduhátíða og skemmtana. Til dæmis hefur víðavangshlaup Íþróttafélags Reykjavíkur farið fram á deginum ár hvert frá 1916.

Dagurinn hefur verið tilvalinn fyrir hátíðarhöld þar sem hann hefur  löngum verið frídagur og var lögfestur sem slíkur árið 1971. Fullorðnir fá frí frá vinnu þennan dag og börn fá frí frá skóla.

Fram á miðja 18. öld hófst dagurinn hjá mörgum með húslestri, þar sem hugvekjur voru lesnar og sálmar sungnir. Við upphaf 20. aldar lýsti Jónas Jónasson frá Hrafnagili deginum þannig í riti sínu Íslenzkum þjóðháttum:

Þá var vant að lesa, undir eins og komið var á fætur, en síðan var skammtað ríflega af öllu því besta, er búið átti til, hangiket, magálar, sperðlar, portbrauð, flot, smér og önnur gæði. Víða var og sent í kaupstað fyrir sumarmál til þess að fá sér á kút, því að þá var oftast tekið að gerast tómlegt heima; og eftir að kaffi fór að flytjast, varð algengt að gefa kaffi og lummur á sumardaginn fyrsta. Það mátti ekki til sleppa með það, að geta fagnað sumrinu sem bezt sem auðið var. Þá var og annað, sem einkenndi þann dag síðar; það voru sumargjafirnar. Í stað þess að aðrar þjóðir hafa jólafgjafir og nýársgjafir, hafa sumargjafirnar einar verið hér þjóðlegar um langan aldur og eru enn í dag.

Dönsk kirkjuyfirvöld lögðu bann við messuhaldi á sumardaginn fyrsta með tilskipun þann 29. maí 1744, og lagðist þá messuhald tímabundið af. Sumardagshúslestrar héldust  þó mun lengur og víða er messað á sumardaginn fyrsta enn þann dag í dag.

Sú sumardagshefð sem haldist hefur hvað lengst er vafalaust sumargjöfin. Að gefa sumargjafir hefur þekkist allt frá 16. öld og á hefðin sér því lengri sögu en t.d. jólagjafahefð. Samkvæmt Árna Björnssyni þjóðháttafræðingi  var algengt fyrr á öldum að hjón gáfu hvort öðru, börnum sínum og jafnvel húsfólki gjafir, en elsta heimild þess efnis er úr minnisblöðum Gissurar biskups Einarssonar frá árinu 1545. Sumargjafir það árið voru skeiðar, silkisaumuð tjöld, ensk klæði, upphosur með skinni, silfurkeðjur og ensk mynt (2003:37). Einnig þekktist að gefa kökur eða annað matarkyns, og sú hefð tíðkaðist einnig, einkum í Vestmannaeyjum, að gefa sumardagsfisk. Í dag er algengast að börn fái sumardagsgjafir og eru þær gjarnan í formi leikfanga eða annars sem minnir á sumar og blíðviðri. Reiðhjól, línuskautar, boltar, fatnaður og útileikföng eru á meðal vinsælla gjafa.

Samkomur á sumardaginn fyrsta hófust í sveitum og bæjum seint á 19. öld og hafa vaxið jafn og þétt síðan þá. Fyrstu samkomur einkenndust af ræðuhöldum, kvæðaflutningi, leikritum, glímu og matarveislum. Nú er svo komið að fjölbreyttri dagskrá fyrir alla aldsurhópa er haldið úti á vegum sveitarfélaga, stofnana og ýmissa samtaka og félaga á sumardaginn fyrsta. Þjóðminjasafnið stendur til að mynda fyrir fjölskyldudagskrá, listasmiðju og leiðsögn, og á meðal þess sem sveitarfélög hafa boðið upp á síðastliðin ár eru skrúðgöngur, dans- og söngatriði, víðavangshlaup, íþróttakeppnir, hoppukastalar, andlitsmálun fyrir börn, dýrablessun og víkingaskylmingar. Skátafélög og sveitarfélög standa ætíð fyrir fjölbreyttri dagskrá fyrir alla fjölskylduna.

Ýmis þjóðtrú er tengd sumardeginum fyrsta. Samkvæmt gamalli trú er það góður fyrirboði ef frost er fyrstu sumarnótt. Þá er sagt að sumar og vetur frjósi saman. Það á að boða gott fyrir búskap. Einnig þekkist að setja ílát með vatni fyrir utan bæjardyr að kvöldi fyrir sumardagsmorgunn og athuga hvort rignt hafi fyrstu sumardagsnóttina. Það átti að boða að mjólk yrði mikil það sumarið. Þá hefur sá siður tengst sumarkomu að „láta svara sér í sumartunglið“. Sá sem lætur svara sér í sumartunglið á að líta í hið fyrsta sumartungl og þegja þar til einhver ávarpar hann. Úr því ávarpi má svo lesa merkingu. Samkvæmt annarri þjóðtrú hefur einhverjum verið illa við að láta bjóða sér góða nótt á sumardaginn fyrsta þar sem slíkt kann að boða feigð.

Uppfært 30. apríl 2023.

Í apríl 2023 gerði Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofa stutta könnun á því hvernig landsmenn halda upp á sumardaginn fyrsta. Um niðurstöður þeirra má lesa hér.

Í könnuninni, þar sem 80% svarenda voru konur, kom fram að fólk gerir sér t.a.m. dagamun með því að gera vel við sig í mat og drykk og flagga í tilefni dagsins. Einnig er nokkuð algengt að gefa börnum sumargjafir og taka þátt í skipulögðum hátíðahöldum.

 

Heimildir:

Árni Björnsson. (2000). Saga daganna. Reykjavík: Mál og Menning.

Dagrún Ósk Jónsdóttir og Jón Jónsson (2023). „Sumardagurinn fyrsti fyrr og nú“. Kreddur, vefrit Félags þjóðfræðinga á Íslandi. Sótt 30. apríl 2023 á slóðina: http://www.thjodfraedi.is/brim/sumardagurinn-fyrsti-fyrr-og-nu-dagrun-osk-jonsdottir-og-jon-jonsson 

Jónas Jónasson. (1961). Íslenzkir þjóðhættir.

Sumardagurinn fyrsti um alla borg. (20. apríl, 2016). Reykjavíkurborg. Sjá hér.

Sumargjafir sem gleðja. (2004, 18. apríl). Morgunblaðið. Sjá hér.

Þjóðminjasafn Íslands. Þjóðháttasafn. Spurningalisti nr. 19, Sumardagurinn fyrsti.

Myndasafn

Dagskrá í Garðabæ á sumardaginn fyrsta, 2019. Mynd: Skátafélagið Vífill, 2019.

Hátíðahöld á Sumardaginn fyrsta í Hafnarfirði, 2019. Mynd: Hafnfirðingur.