Hefðin „að fara heim“

Það er algengt að Pólverjar sem eru búsettir á Íslandi fari til heimalandsins árlega, sérstaklega yfir sumarleyfistímann. Það er margskonar ástæður fyrir því að fólk ferðast til Póllands, ekki aðeins til að fara í sumarfrí heldur einnig fjölskyldutengsl og praktískar ástæður. Pólverjar sem búa á Íslandi þurfa oft að ganga ýmissa erinda í heimalandinu. Þetta er að auki tími þar sem þau geta sinnt um félags-og fjölskyldutengsl og gefur þeim tækifæri til þess að endurtengjast rótum sínum og menningarheimi.

Skráð:

11.05.2024

Skráð af:

Martyna Ylfa Suszko

Landfræðileg útbreiðsla:

Allt landið

Gott veður, praktískar ástæður og félagsleg tengsl

Algengt er að Pólverjar á Íslandi ferðist til Póllands yfir sumartímann og rekja má ástæður þess til ýmissa þátta, þ.á.m.menningar-og fjölskyldutengsl og löngun til að heimsækja heimalandið sitt yfir hlýja sumarmánuðina. Pólskir innflytjendur á Íslandi halda oft sterkum menningarlegum tengslum við heimalandið. Þau geta fundið fyrir miklum tengslum við pólskar hefðir, tungumál og siði en geta átt í erfiðleikum að viðhalda þessum tengslum við þegar þau eru staðsett utan heimalandsins. Að heimsækja Pólland á sumrin gerir þeim kleift að tengjast aftur menningarlegum rótum sínum og taka þátt í hátíðum, viðburðum og hátíðarhöldum sem eru einstök fyrir heimalandið. Menningartengsl eru mikilvægur þáttur í sjálfsmynd og viðhorfum fólks.

Annað sem má nefna sem áhrifamikinn þátt að baki þessarra heimsókna er loftslag og náttúra. Veðurfar á Íslandi einkennist af löngum, köldum vetrum og stuttum sumartíma. Þrátt fyrir að Ísland bjóði uppá fallegt landslag og útivist í fallegri náttúru er ekki sama hlýja og sólríka veðrið og er í Póllandi á sumrin. Pólverjar á Íslandi gætu valið að ferðast til Póllands á sumrin til að njóta fyrirsjáanlegra og skemmtilegra veðurskilyrða en einnig til að upplifa náttúrufegurð pólskra sveita, skóga og vatna.

Enn fremur eiga Pólverjar oft erindi til Póllands sem aðeins er hægt að sinna þar og safnast saman yfir þann tíma sem þeir eru utan heimalandsins. Það geta verið ólíkir hlutir sem ganga þarf frá t.d. laga- og stjórnsýslumál. Þetta getur falið í sér að endurnýja vegabréf, sækja um vegabréfsáritanir, leysa skatttengd mál og uppfæra persónulegar skrár. Stundum eiga þau eign eða fasteign í Póllandi og gætu þurft að hafa umsjón með eignum sínum, annast leigusamninga eða hafa umsjón með endurbótum og viðgerðum. Heimsókn til Póllands gerir þeim kleift að taka á þessum málum í eigin persónu og tryggja að vel sé haldið á málunum.

Mikilvægasti þáttur að baki sumarferðum Pólverja til Póllands eru þó fjölskyldu- og félagsleg tengsl. Margir pólskir innflytjendur á Íslandi eiga nána fjölskyldumeðlimi og vini sem eru enn búsettir í Póllandi. Sumartímabilið gefur þeim tækifæri til að sameinast ástvinum, styrkja tengsl við þá og eyða gæðastundum saman. Það er ekki óalgengt að Pólverjar á Íslandi setji það í forgang að eyða frítíma sínum með fjölskyldu og vinum í Póllandi, sérstaklega yfir hlýrri mánuðina þegar gott er að stunda útivist saman. Sem innflytjendur eru pólskir ríkisborgarar oft að einbeita sér að því að vinna, koma undir sig fótunum og afla tekna. Það, ásamt tungumálaþröskuldinum og menningarmun gerir það að verkum að félagsleg tengsl þeirra á Íslandi eru missterk og stundum veik. Mannveran er félagsvera og það er mikilvægt fyrir andlega heilsu og sjálfsmynd að eiga tengsl við aðra og í einlægum samskiptum. Það gerir sumarferðir til Póllands oft að mikilvægum þætti í lífi Pólverja á Íslandi. Íslendingar sem hafa búið til lengri tíma erlendis þekkja þetta af eigin raun, hvernig heimsókn „heim“ til Íslands og ástvina getur verið algjör nauðsyn.

Bættar samgöngur og kynslóðamunur

Margir Pólverjar sem að búa í útlöndum ferðast til Póllands á sumrin. Að ferðast er auðveldara á okkar tímum þar sem ferðalög eru einföld og ódýr. Það þarf ekki lengur að fara í viku eða tveggja vikna langa ferð á skipi yfir Atlandshafið til þess að koma sér heim til Póllands. Nú er einfalt að fara í 3,5 tíma beint flug sem fer frá Keflavík til Póllands. Með auknum vinsældum sumarferða til Póllands á meðal Íslendinga og stöðugt stækkandi hópi af pólskum innflytjendum bjóða flugfélög beint flug frá Íslandi, ekki eingöngu til Varsjá, heldur fjölda annarra borga í Póllandi, eins og Gdansk, Krokow, Wrocław og Katowoce. Þetta er allt annar veruleiki en bara fyrir 18 árum þegar ekkert beint flug til Póllands frá Íslandi var í boði og fólk þurfti að ferða á milli með því að fara fyrst til annarra landa t.d. Þýskalands eða með millilendingu í öðrum löndum, t.d. eins og Danmörku, sem varð oft til þess að ferðatöskur töpuðust á leiðinni.

Nú þegar margt fólk ferðast á milli Íslands og Póllands eru þessi ferðalög einfaldari sem gerir það að verki að fólk getur „skotist” á milli landa. Það vilja samt margir sem fara til heimalandsins yfir sumarfrístímann vera þar í lengri tíma, mánuð eða jafnvel lengur.

Það sést greinilegur munur á milli fyrstu kynslóðar innflytjenda og annarar eða þriðju kynslóðar. Eldra fólk sem flutti til Íslands seint á ævi sinni er líklegra að hafa ríkari ástæður til að eyða lengri tíma í Póllandi, t.d. vegna umsjónar með eignum eða vegna þess að þau vilja eyða löngum tíma með fjölskyldu og vinum. Önnur kynslóð Pólverja á Íslandi er líklegri að hafa sterkari félagsleg tengsl á Íslandi, bæði vegna þess að fjölskyldur þeirra fluttu einnig til Íslands og þau búa jafnan yfir betri íslensku kunáttu og eiga því ekki eins erfitt með að mynda eða viðhalda félagslegum tengslum hér á landi. Að auki hafa þau oft skyldur hér sem gera það að verkum að það er erfiðara að yfirgefa Ísland í lengri tíma á hverju sumri.

Útbreidd hefð

Hefð Pólverja sem búsettir eru á Íslandi að ferðast til Póllands er frekar nýtt fyrirbæri en er aftur móti afar algeng hefð. Það er hins vegar einstaklingsbundið hve lengi fólk dvelur í Póllandi yfir sumarfrístímann og hvað líður langt á milli ferða. Sömuleiðis er einnig ólíkt í hvaða tilgangi fólk ferðast t.d. er eldra fólk líklegra til þess að vera að sinna formlegum erindum í heimalandi sínu á meðan yngri kynslóð innflytjenda fer aðallega í heimsóknarskyni.

Flestir Pólverja sem búa á Íslandi fara reglulega til Póllands, sérstaklega yfir sumartímann, en tilgangur, lengd dvalar og tími milli ferða getur verið mjög mismunandi.

Myndasafn

Fjölskyldutengsl eru afar mikilvæg fyrir marga Pólverja. Hér sjáust fjórar kynslóðir af mæðgum saman. Langamma, amma, mamma og barnið.

Mokotow District Office in the Warsaw city (Urzad Dzielnicy Mokotow m.st. Warszawy), plaque and coat of arms on the facade. WARSAW, POLAND - APRIL 22, 2022