„Þjóðbúningur“ er hugtak frá fyrri hluta 19. aldar sem aðallega er notað um kvenbúninga eftir 1860 en einnig yfir eldri gerðir búninga. Uppruni og þróun íslenskra búninga á sér langa sögu en þeir voru fyrst og fremst fatnaður sem þróaðist í aldanna rás á afskekktri eyju í norðri. Þjóðbúninganotkun hefur gengið í bylgjum, aðferðir og hefðir hafa breyst en áhugi á gerð þeirra er mikill og flestir bera virðingu fyrir þessari arfleifð. Þó oftast sé litið á hefðina sem arfleifð kvenna hefur áhugi karla á búningunum ávallt verið til staðar. Hefðin segir margþætta sögu um þróun samfélags, fatagerð, verkþekkingu, útsjónarsemi, færni og listræna hæfileika. Hefðinni fylgir einnig sagnaarfur, minningar og sögur um stoltar formæður og búningana þeirra.

Skráð:

16.11.2018

Skráð af:

Guðrún Hildur Rosenkjær

Landfræðileg útbreiðsla:

Allt landið

Þjóðbúningahefðin er afar fjölbreytt og verður til úr mörgum þáttum. Uppruninn liggur í handverkssamfélagi þar sem bæði hráefni og fatnaður var unninn á heimilum landsmanna. Þekkingin fluttist á milli kynslóða frá þeim eldri til hinna yngri. Fatagerð var heimilisiðnaður en breyttist með tæknivæðingu. Í dag er handverksþekking minni og því sækja margir námskeið og sauma undir handleiðslu sérhæfðra leiðbeinenda. Fjöldi kvenna sem á gamalt skart frá formæðrum dreymir um að eignast búning að þeirra hætti en aðrar konur hafa áhuga á endurgerð eldri búninga.

Í dag þekkjum við sögu búninga sem spanna hátt í 400 ára þróun. Faldbúningur og peysuföt frá 18. öld. Skautbúningur varð til um 1860, kyrtill um 1870 og upphlutur varð sérstakur búningur um 1900. Innan þessa ramma er fjölbreytileiki búninganna mikill sem fer eftir tísku og tíðaranda hverju sinni. Ákveðnar reglur og hefðir voru í heiðri hafðar eftir því sem tíðarandinn bauð. Öldum saman báru konur síð efnismikil pils og svuntur, klæddu af sér alla nekt, fótabúnaður flestra var ullarsokkar og skinnskór og til siðs var að bera höfuðbúnað. Ull var aðalhráefnið til fatagerðar fram á miðja 20. öld. Úr ullinni var unnið band í vefnað og prjónaðan fatnað en efni voru einnig flutt til landsins. Konur sem sáu að mestu um fatagerð nýttu á öllum tímum efni og aðferðir sem samtíminn bauð upp á hverju sinni. Skreytingar voru fjölbreyttar og þróuðust í aldanna rás rétt eins og litir búninganna. Búningaskart er gríðarlega fjölbreytt eftir tímabilum, smíðað af hagleiksmönnum og á síðari tímum af gullsmiðum.

Hefð um notkun búninganna hefur einnig breyst. Fyrr á tímum átti fólk minna af fatnaði og því nauðsynlegt að vanda til hans og hirða vel um fötin. Í upphafi 20. aldar áttu konur kannski upphlut til daglegs brúks og peysuföt til spari en fátt annað. Því var fullkomlega eðlilegt að sjá konur klæddar þjóðbúningum hversdags en sú hefð leið undir lok á 8. ártugnum. Við tók fjöldaframleidd alheimstíska og þjóðbúningarnir áttu í vök að verjast.

Búningur merkir klæðnaður samsettur úr fleiri en einni flík. Faldbúningur er samsettur af; nærskyrtu, upphlut (lífstykki), niðurhlut (undirpils), ullarpilsi, svuntu og faldtreyju. Einnig lítill kragi, belti, höfuðbúnaður (krókfaldur, spaðafaldur) klútar, skart og aðrir fylgihlutir. Faldbúningar þróuðust í gegnum aldirnar eftir efnisframboði og tískustraumum. Á 18. öld var fatnaður litríkur en á 19. öld þróuðust búningarnir í kjölfar iðnbyltingar í dekkri liti, svart og blátt. Faldbúningar voru sparibúningar efnaðri kvenna en hversdag báru þær búninga með svipuðu sniði en óskreytta og oft í sauðalitunum. Byrjað var að prjóna kvenpeysur um 1760 sem með pilsi, svuntu, húfu og klút nefndist húfubúningur.

Þjóðbúningahugtakið kom fyrst fram um miðja 19. öld á tímum þjóðernis- og sjálfstæðisrómantíkur. Farið var að tákngera kvenbúningana en Sigurður „málari“ Guðmundsson átti stóran þátt í þróun sem varð um 1860. Hann lagði til breytingar á faldbúningnum í takt við Evróputískuna. Í samstarfi hans við konur þróaðist skautbúningur sem samanstendur af treyju, pilsi og skautfaldi með blæju. Búningurinn er skreyttur fögrum útsaumi í þjóðlegum anda, ber fjölbreytt skart og Sigurður tengdi hann við fjallkonu Íslands. Kyrtill var saumaður úr léttari efnum og fyrst nefndur dansbúningur. Fyrirmyndin var fornbúningur landnámskvenna og er hann hugverk og hönnun Sigurðar.

Upphlutur og niðurhlutur sem áður voru hluti af faldbúningi þróuðust í sérstakan búning, 20. aldar upphlut. Hann varð hversdagsbúningur fjölda ungra kvenna á tímum sjálfstæðis- og kvennabaráttu í upphafi aldarinnar. Um 1970 tók Þjóðdansafélagið upp svokallaðan 19. aldar upphlut sem er endurgerð frá 18. og 19. öld og festist hann í sessi sem sérstakur búningur. Húfubúningur þróaðist einnig og eftir miðja 19. öld voru peysurnar saumaðar úr efnum og nefndust þá peysuföt. Með hugmyndum 19. aldar manna um sérstaka þjóðbúninga öðluðust kvenbúningarnir pólitískt hlutverk í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.

Þjóðbúningar voru fyrst og fremst fatnaður fjölda ungra kvenna sem völdu þá sem daglegan klæðnað í upphafi 20. aldar. Með auknum innflutningi á fjöldaframleiddum fatnaði fékk hippakynslóðin tækifæri til að losa sig undan siðum og hefðum forfeðranna. Þjóðernisvitund vék fyrir alheimsvæðingu og búningar formæðranna áttu undir högg að sækja. Kynslóðirnar frá miðri 20. öld hafa borið hversdagsbúninga eftir erlendri tísku en hefðbundnir búningar öðluðust nýtt líf sem spariföt undir samnefnaranum „þjóðbúningar“.

Með auknum rannsóknum á þróun íslenskra búninga og meiri þekkingu hefur áhugi á gerð þeirra aukist og karlmenn hafa einnig sýnt áhuga á endurgerð herrabúninga frá 18. og 19. öld. Boðið er upp á námskeið bæði hjá félagasamtökum og einkaaðilum með leiðbeinendum sérhæfðum í gerð þjóðbúninga og handverki þeim tengdum. Hefðbundið handverk sem áður lærðist milli kynslóða hefur því að einhverju leyti flust til sérhæfðra aðila sem flytja þekkinguna áfram. Aðferðir og hráefni hafa einnig þróast allt eftir tækni og tísku svo segja má að arfurinn lifi áfram, stöðugt í takt við tímann.

Búninganotkun hefur tekið margar dýfur. Á tímum alheimsvæðingar hefur oft borið á óvæginni gagnrýni á þjóðbúningaarf kvenna. Hún virðist oft á litlum rökum reist og gætir stundum miskilnings og vanþekkingar. Þetta hefur oft komið illa við konur sem hafa valið að fara hljóðlega með sína þjóðlegu arfleifð. En áhuginn er til staðar sem má merkja í aðsókn á námskeið og aukinni notkun búninga á stórhátíðum tengdum sögu þjóðarinnar þar sem konur eru hvattar til að skarta sinni fögru arfleifð. Þjóðbúningahefðin hefur sannarlega þróast og breyst ekki síst á síðari áratugum en sagan sýnir að áhuginn er stöðugt fyrir hendi og hægt að fullyrða að hefðin hafi aldrei liðið undir lok.

Fjöldi kvenna og nú einnig karla hefur áhuga á hefðinni, vill viðhalda henni og skapa sínar eigin hefðir. Vinsælt er að klæðast búningum á þorrablótum og margir nýta þá sem sparifatnað við hátíðleg tækifæri. Talsvert er um að fólk í þjóðlegu starfi s.s. dans- og sönghópum noti þjóðbúninga. Nokkrir skólar halda í heiðri þeirri hefð að nemendur klæðist þjóðbúningum einn dag á ári sem ævinlega vekur mikla ánægju meðal unga fólksins. Víða um land hefur áhugafólk um þjóðbúninga stofnað félög sem halda uppi fjölbreyttu starfi og kynningu á búningahefðinni. Einnig hefur það lengi tíðkast að fólk klæðist þjóðbúningum á 17. júní og er sú hefð að eflast.

Lengi hefur þjóðbúningahefðin verið talin arfleifð kvenna sem hún er vissulega. En hún er svo margt fleira en bara búningar. Hefðin er samofin þróunarsögu þekkingar og menningar í íslensku samfélagi í aldanna rás. Hefðin ber í sér sögu og þróun listræns handverks sem sjá má í útsaumi og búningaskarti. Einnig er íslensk búningahefð áhugaverð í samanburði við búningasiði og -hefðir annarra landa. Ef áhugi er á að þjóðbúningaarfleifðin lifi þurfum við að þekkja söguna og skilja á hverju hefðin byggir. Viðhalda þarf handverkshefðum og flytja áfram til komandi kynslóða. Það má gera með auknum rannsóknum, samstarfi fræða- og handverksfólks og fræðslu. Þjóðbúningahefðin hefur sannarlega breyst en lifir góðu lífi. Það verður svo hlutverk komandi kynslóða að ákveða hvað verður um þennan merka menningararf.

Ásdís Thoroddsen; „Skjól og skart“ Heimildarmynd 2017.

Annríki – Þjóðbúningar og skart http://annriki.is

Síða Þjóðbúningaráðs http://buningurinn.is

Elsa E. Guðjónsson. Fjölbreytt rit og greinar http://tímarit.is

Bryndís Björgvinsdóttir. „Frá melankólíu til mótspyrnu. Menningararfur á Íslandi.“ Ritgerð til MA-prófs í þjóðfræði 2009 http://skemman.is

Guðrún Hildur Rosenkjær; „“Blómstranna móðir“ – arfleifð Guðrúnar Skúladóttur. Menningarleg verðmæti í búningum á 18. og 19. öld.“ Ritgerð til BA-prófs í sagnfræði 2017 http://skemman.is

Jófríður Benediktsdóttir; „Blómateikningar Sigurðar Guðmundsonar málara. Fyrirmyndir útfærslur og áhrif.“ Ritgerð til BA prófs í listfræði, 2014 http://skemman.is

Kristín Schmidhauser Jónsdóttir; „Fíngerð fegurð í sporum kvenna. Útsaumur frá síðari hluta 19. aldar og fram á 20. öld.“ Ritgerð til MA-prófs í sagnfræði, 2014 http://skemman.is

Halldóra Bjarnadóttir; Vefnaður. Rvk. 1966

Hugur og hönd. Tímarit Heimilisiðnaðarfélags Íslands. Fjölbreyttar greinar

Inga Arnar. Lífsins blómasystur: hannyrðakonur af Svaðastaðaætt. Byggðasafn Skagfirðinga, 2012

Málarinn og menningarsköpun. Sigurður Guðmundsson og kvöldfélagið 1858-1847. Ritstj. Karl Aspelund og Terry Gunnell. Rvk. 2017

Menningararfur á Íslandi. Greining og gagnrýni. Ritstj. Ólfur Rastrick og Valdimar Tr. Hafstein. Rvk. 2015

Sigurður Guðmundsson; „Um kvennbúninga á Íslandi að fornu og nýju“. Ný félagsrit 17. árg. 1857  http://timarit.is

Sigrún Helgadóttir; Faldar og skart. 2013

Þór Magnússon; Íslenzk silfursmíð. Rvk. 2013

Æsa Sigurjónsdóttur; Til gagns og til fegurðar. Sjálfsmyndir í ljósmyndum og klæðnaði 1860-1960. Rvk. 2008.

Myndasafn

Nememendur í skautbúningum og kyrtli við útskrift 2008. Ljósmynd: Binni&Hildur.

Peysuföt frá mismunandi tímabilum. Úr vaðmáli 1900, flaueli 1950 og klæði 1930. Ljósmynd: Binni&Hildur.

Nemendur máta 19. aldar upphluti, bökin eru fjölbreytt og falleg. Ljósmynd: Binni&Hildur.

Ungar konur í kyrtlum. Ljósmynd: Binni&Hildur.

Upphlutir 20. aldar með fjölbreyttum skyrtum og svuntum. Ljósmynd: Binni&Hildur.

Stúlkur bregða á leik við mátun á 19. aldar upphlutum. Ljósmynd: Binni&Hildur.

Útskriftarfögnuður í Annríki haust 2013. Ljósmynd: Binni&Hildur.

100 Fjallkonur í Hafnarfirði 17. júní 2015 fagna 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Ljósmynd: Binni&Hildur.

Eva Ágústa Aradóttir sem fjallkona, 17. júní 2017 í Hafnarfirði. Hún var fyrsta transkonan til að gegna því hlutverki. Ljósmynd: Binni&Hildur.

Fjölskylda í 19. aldar búningum. Ljósmynd: Binni&Hildur.