Þjóðdans hefur lifað með þjóðinni frá miðöldum að minnsta kosti. Vikivakar voru á sínum tíma söngdansar, þar sem fólk safnaðist saman og byrjaði að syngja og kveða þjóðlög og kvæði og sporin voru svo sett saman við sönginn, en þó enn frekar við textann.

Skráð:

15.03.2019

Skráð af:

Dansfélagið Vefarinn

Landfræðileg útbreiðsla:

Allt landið

Dans er talinn hafa fylgt mannkyninu frá örófi alda og hefur borist frá kynslóð til kynslóðar en skráning virðist ekki hefjast fyrr en á endurreisnartímabilinu. Fyrsta bókin sem vitað er um að hafi að geyma skráningu á dansi er eftir Antonius de Arena, gefin út árið 1536. Vikivakaleikir virðast margir hverjir mjög svo forneskjulegs eðlis, og eru enda leifar gamalla skrúðgönguleikja og dansa, sem tíðkuðust á Englandi og á meginlandi álfunnar á miðöldum. Blómaskeið vikivakaleikja var á 16., 17., og 18. öld, en eflaust má telja að þeir hafi líka borist til Íslands á miðöldum. Hér á landi virðast Vikivakar helst hafa tíðkast á stórhátíðum, sérstaklega um jól og áramót. Þeir voru sennilega tilkomnir þannig að fólk mætti í kirkju til aftansöngs og þótti ekki taka því að fara heim fyrr en eftir messugjörð daginn eftir, t.d. á jólanótt. Þá var sungið og leikið til að halda á sér hita og hafa gaman. Á fyrri hluta 18. aldar var álitið að dans leiddi til lauslætis og ósiðsemi og gekk kirkjan svo langt banna að halda „gleðir“, en að sjálfsögðu dansaði fólk áfram.

Vikivakar voru og eru söngdansar, þar sem fólk safnaðist saman og byrjaði að syngja og kveða þjóðlög og kvæði og sporin síðan sett saman við sönginn, en þó ennþá frekar við textann. Í bókinni Vikivakar og söngleikir eftir Helga Valtýsson (1930) segir að söngurinn sé aðalatriði vikivakanna, syngja þurfi með lífi og fjöri og með persónulegum blæbrigðum, því það sé söngurinn sem setji svip og mót á hreyfinguna. Vikivakinn á að verða ein lifandi, ljóðræn bylgja.

Í dag eru þjóðdansar eingöngu stundaðir af fólki sem hefur áhuga á að halda þessum menningararfi við þeir hópar sem við vitum um eru staðsettir á Norðurlandi, Vesturlandi og Höfuðborgarsvæðinu. Hóparnir (dansfélögin) flytja dansana til næstu kynslóða og þannig þróast þeir eins og gerst hefur í gegnum aldirnar.

Dansfélagið Vefarinn hefur um árabil starfað með því að hittast og dansa bæði gamla og nýrri dansa vikulega yfir vetrartímann. Einnig hefur félagið sýnt og kynnt þjóðdansa á ýmsum hátíðum og við ýmis tækifæri, innanlands sem erlendis.

Það eru til nokkrar bækur um dans á Íslandi, þar má nefna:

Íslenski söngdansar í þúsund ár eftir Sigríði Þ. Valgeirsdóttur

Gamlir dansar í tvær aldir eftir Sigríði Þ. Valgeirsdóttur og Mínervu Jónsdóttur

 

Hér eru slóðir þar sem sjá má sýnishorn af starfsemi Dansfélagsins Vefarans .

https://www.youtube.com/watch?v=D-IbObx7vKo

https://www.youtube.com/watch?v=MQ8Hw-BHa5U

https://www.youtube.com/watch?v=UqQoDHOxwLk

http://www.leifnorman.net/vefarinn-dance-group-aug-1-2011/

 

Myndasafn