Afladraumar og viðvörunardraumar

Trú á drauma hefur fylgt mannkyninu lengi. Hér verður sérstaklega fjallað um þá draumatrú sem að austfirskir sjómenn lýstu og þá sérstaklega þeirri trú er tengist afladraumum eða viðvörunardraumum. Afladraumar tengjast mögulegum afla næstu sjóferðar og geta tengst ólíkum hlutum, t.d. því að dreyma skít, að dreyma mikinn afla, vissar fuglategundir eða hvali, konur eða ákveðnar manneskjur. Stundum tengist þjóðtrúin afar persónulegum hlutum, þ.e. draumum sem tengjast einhverju sem aðeins hefur merkingu fyrir sjómanninn en engan annan, t.d. að dreyma vissa manneskju fyrir góðum afla. Viðvörunardraumar gefa til kynna að eitthvað slæmt sé á næsta leyti eða að það hreinlega borgi sig ekki að fara frá landi. Viðvaranir í draumum geta einnig verið mjög persónulegar en að dreyma konu sem lætur ófriðlega virðist vera sterklega tengt því að eitthvað slæmt geti gerst og það virðist ekki borga sig að fá viðvörun í draumi en líta fram hjá henni. Þeirri þjóðtrú sem er lýst hér var safnað á meðal sjómanna við Austurland en líkur eru á því að hún sé útbreidd um land allt. Sjómennska er ennþá áhættusöm og sjómenn þurfa að treysta á náttúruna í tengslum við vinnu sína. Það er því ekki undarlegt að þessari atvinnu tengist þjóðtrú af ýmsu tagi.

Skráð:

31.05.2024

Skráð af:

Unnur Malmquist Jónsdóttir

Landfræðileg útbreiðsla:

Austurland

Góðir draumboðar

Berdreymið getur lýst sér á ólíkan máta og góðir draumboðar geta verið margskonar. Flestir þeirra sjómanna sem rætt var við könnuðust við þá þjóðtrú að það að dreyma skít sé fyrir góðu, boði góðan afla. Draumarnir geta verið margskonar en oft fela þeir í sér að dreymandanum bjóði við á einhvern hátt vegna þess að hann sér skít, fær hann á sig eða finnur lykt af honum. Að dreyma skít getur eins táknað eitthvað jákvætt í landi sem ekki endilega tengist sjómennskunni sjálfri.

Að dreyma að mikið fiskist virðist yfirleitt boða gott. Einnig geta dýr táknað gott, s.s. að dreyma háhyrninga og hvítfugla, t.d. að fjörðurinn birtist í draumi fullur af háhyrningum. Aðrar skepnur geta einnig boðað gott, t.d. kýr eða flugur.

Konur virðast hafa mikla merkingu þegar kemur að draumum. Að dreyma vissar konur sem dreymandinn þekkir getur boðað gott. Þá virðist skipta máli að konan sé alltaf eins í draumnum eða að draumurinn gangi svipað fyrir sig.

Ákveðnar manneskjur sem dreymandi þekkir eða þekkti geta einnig fengið það hlutverk að boða gott, t.d. fyrrum bátsfélagar eða ættingjar. Stundum getur verið erfitt að ráða í draumana og merkingu þeirra og það er ekki fyrr en eftir að dreymanda hefur dreymt það sama í nokkur skipti að það virðist sannast hvort efni draumsins boði gott eða vont.

Slæmir draumboðar

Að dreyma eitthvað neikvætt eða að þú sért varaður við með einhverjum hætti getur þýtt að hætt sé við að fara úr landi. Eins getur það þýtt eitthvað að sofa yfir sig, að þá sé það vísbending um að ekki borgi sig að fara á sjó þann daginn. Aðvaranir sem þessar geta verið mjög persónulegar og tengjast jafnvel einhverju sem aðeins hefur merkingu fyrir dreymandann. Vissar konur úr lífi dreymandans geta boðað eitthvað vont, t.d. brælu en það virðist almennt ekki gott að dreyma konu sem lætur ófriðlega í draumnum. Aðvaranir frá einstaklingum sem dreymandinn þekkir virðast vera teknar alvarlega og ekki er talið gott að leiða þær hjá sér. Martraðir sem tengjast einhverju úr sjómennskunni, t.d. að eitthvað slæmt hendi sjómann eða bát, virðast tákna eitthvað vont eða leiða af sér hugsanir um að eitthvað slæmt sé í uppsiglingu.

Þeirri þjóðtrú sem lýst er hérna kom fram í viðtölum við austfirska sjómenn. Viðtölin voru tekin á árunum 2017 og 2018. Ekki er ólíklegt að þessi þjóðtrú þekkist víðar um land.

Trú á berdreymi

Draumatrú hefur fylgt mannkyninu um langt skeið og virðist enn lifa ágætu lífi í nútímanum. Það er ekki undarlegt þar sem mörk á milli svefns og vöku eru ekki alltaf skýr og þau skilaboð sem fólk fær í draumi geta virst eins skýr og þau sem við fáum í vöku. Íslendingar hafa lengi haft trú á berdreymi og má finna mörg dæmi í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar um berdreymi, þ.e. því að einhverjum dreymi fyrir því sem ekki enn hefur gerst. Í þeim könnunum sem gerðar hafa verið á þjóðtrú Íslendinga hefur komið fram að um 36-39% Íslendinga könnuðust við að vera berdreymnir. Árið 1972 töldu 39% svarenda könnunar um dulræna reynslu sig hafa dreymt fyrir einhverju og 36% þegar könnunin var endurtekin árið 2006. Í könnun Bjargar Bjarnadóttur frá árinu 2003 þar sem rúmlega 800 þátttakendur svöruðu spurningum um drauma kom fram að 72% þátttakenda á aldrinum 18-35 ára telji að draumar hafi merkingu fyrir þá í daglegu lífi. Lúðvík Kristjánsson fjallar um afladrauma sjómanna í 5. bindi Íslenskra sjávarhátta. Lúðvík segir að „í hugskoti sjómanna var þó yfirleitt dulin eftirvænting þess, að aflasæld færi eftir forspánni, […], afladraumar voru tíðir og margbreytilegir á árabátaöld“. Í framhaldinu nefnir hann allnokkur dæmi um drauma sem að boðuðu feng úr sjó líkt og sjá bát sinn velkjast fullan í brimi, að dreyma grautfúin og ónýt veiðafæri, heiðbjartan himin eða grjót, mjöl eða kjötmáltíð. Hann nefnir einnig að nöfnin Sæmundur og Una hafi þótt vera fyrir góðu og boðað ýmist afla eða góðviðri. Þjóðfræðingurinn Símon J. Jóhannesson hefur ritað fjölda bóka um þjóðtrú Íslendinga en hann telur að sjómenn taki mikið mark á draumum og dreymi þá gjarnan fyrir afla, veðri, láni og óláni og að slíkir draumar geti verið margir og margbreytilegir. Í bók sinni Fyrirboðar og tákn nefnir Símon nokkra slæma fyrirboða fyrir sjósókn sem birst geti í draumi. Samkvæmt honum er slæmt að dreyma svarta ketti, rottur og rauðmáluð eða brotin skip. Það getur boðað að óhöpp hendi eða skip farist. Hljóðfæraleikur, hvassviðri og konur geta bent til þess að á bresti vitlaust veður, einhver áföll eigi sér stað eða hreinlega boðað feigð.

Þessi trú sem tengist fyrirboðum í draumi, góðum eða slæmum tengist hér því að vera fara úr landi og á sjó. Fyrirboðarnir tengjast því hvort að sjóferðin sem halda á í verði góð, fiskist vel eða hvort eitthvað erfitt hendi eða illa fiskist.

Sú þjóðtrú sem fjallað hefur verið um hérna og tengist berdreymi, trú á drauma og fyrirboða í draumum og sjósókn er bundin við rannsókn sem fór fram á meðal austfirskra sjómanna á árunum 2017 og 2018. Viðmælendur voru fjórtán. Viðmælendur voru á aldrinum 20-80 ára og höfðu allir starfað á sjó í að minnsta kosti 5 ár á Austfjarðamiðum. Líklegt er að sú þjóðtrú sem sagt er frá hér sé útbreiddari og þekkist víðar um Ísland.

Heimildir

Við gerð þessarrar skráningar var stuðst við rannsókn Unnar Malmquist Jónsdóttur, þjóðfræðings. Hér má sjá ritgerðina hennar:

Til vonar og vara: þjóðtrú austfiskra sjómanna.

https://skemman.is/handle/1946/40764

Sjómenn og hjátrú. Sjómannadagsblað Vestmannaeyja. Grein eftir Hlíf Gylfadóttur mannfræðing.

https://heimaslod.is/index.php/Sjómannadagsblað_Vestmannaeyja_2007/Sjómenn_og_hjátrú

Hjátrú sjómanna. Grein í Víkingi.

https://timarit.is/page/4252045?iabr=on#page/n21/mode/2up/search/Hjátrú%20sjómanna

Sjómenn og hjátrúin. Grein í Ægi.

https://timarit.is/page/4911347?iabr=on#page/n20/mode/2up/search/Hjátrú%20sjómanna

Hver er munurinn á þjóðtrú og hjátrú? Svar af Vísindavefnum eftir Símon Jón Jóhannsson þjóðfræðing.

https://www.visindavefur.is/svar.php?id=15364

Íslenskir sjávarhættir V. Bók eftir Lúðvík Kristjánsson, fræðimann og rithöfund. Bókaútgáfa Menningarsjóðs, 1986.

sjö, níu, þrettán: Hjátrú Íslendinga í daglegu lífi. Bók eftir Símon Jón Jóhannsson, þjóðfræðing. Vaka Helgafell 1993.

Stóra hjátrúarbókin: Aðgengilegt uppflettirit um margvíslega hjátrú Íslendinga í hinu daglega lífi fyrr og nú. Bók eftir Símon Jón Jóhannsson, þjóðfræðing. Vaka Helgafell, 1999.

Myndasafn

Mynd: Unnur Malmquist Jónsdóttir. Mynd tekin við Djúpavog, sjóhúsið Tríton.

Mynd: Unnur Malmquist Jónsdóttir. Höfnin við Djúpavog

Mynd: Unnur Malmquist Jónsdóttir. Séð yfir Ketilsboðafles með Ketilsboðaflesjarvita.