Áður en haldið er á haf út

Þjóðtrúin leynist við hinar ýmsu aðstæður í lífi og starfi margra sjómanna enn í dag. Hún á sinn þátt í endanlegri ákvörðunartöku um sjóferð og lætur á sér kræla á kveðjustundum og þegar förinni er heitið niður á bryggju, um borð í báta og skip og fylgir mönnum eftir á haf út.

Við brottför er ýmislegt að varast, það skiptir máli hvernig kveðjustundirnar eru, hvað er sagt  og gert á þeim stundum og að kveðja í sátt við alla í landi. Einnig skiptir máli hvernig siglt er frá bryggju og að temja sér að hrósa ekki happi of snemma, þ.e. áður en lagt er í hann.

Þeirri þjóðtrú sem lýst er hérna kom fram í viðtölum við austfirska sjómenn. Viðtölin voru tekin á árunum 2017 og 2018. Ekki er ólíklegt að þessi þjóðtrú þekkist víðar um land.

Skráð:

31.05.2024

Skráð af:

Unnur Malmquist Jónsdóttir

Landfræðileg útbreiðsla:

Austurland

Það sem má segja og ekki má segja

Algengt er að sjómenn hafi ýmsar óskrifaðar reglur varðandi þá stund sem þeir kveðja og fara á sjó, t.d. hvað má segja og hvað ekki, hvað má gera og hvað ekki og hjá sumum skiptir máli hvar kveðjustundin fer fram. Áberandi er hversu mörgum sjómönnum var illa við að einhver óskaði þeim góðs gengis fyrir sjóferð. Stuttar kveðjur eru taldar æskilegar og ekki má segja „gangi þér vel“ eða „góða veiði“. Sú hefð tíðkast enn að skyrpa á eftir sjómönnum til gæfu. Hráki getur einnig tengst fleiru, t.d. að hrækja á bátinn eða skipið til gæfu. Einnig þekkist að hrækja á spring eða landfestar þegar þær eru leystar. Sumir hafa tamið sér að klappa bát eða skipi þegar haldið er af stað. Aðrir lýstu því einnig að það skipti máli að allir yrðu að vera sáttir þegar farið var á sjó, að kveðjustundin væri ljúf. Einnig þekkist að sjómenn vilji fara eins út úr húsi og að hafnarsvæðinu með sama hætti í hvert sinn. Algengt er að konur sjómanna fylgi þeim ekki að bát og virðist það tengjast einhverskonar trú á gæfu og gengi.

Þegar báti eða skipi er siglt frá höfn skiptir einnig miklu máli hvernig það er gert, að alltaf sé snúið réttsælis frá bryggju en ekki rangsælis. Sumir lögðu það á sig að snúa aukahring til að geta snúið réttsælis frá bryggju. Það virðist boða vont að fara rangsælis frá bryggju, t.d. að illa muni fiskast. Að auki var mörgum sjómönnum illa við að menn væru að hrósa happi of snemma með því að reikna laun sín út fyrirfram áður en nokkuð hefur verið fiskað. En stundum virðist eiga við að fall sé fararheill. Sumir sjómannanna töluðu um að oft væru bestu túrarnir þeir þar sem fljótlega þurfti að snúa aftur í land út af einhverju smávægilegu sem bilar og það að detta á leið á sjó geti einnig boðað gott. Prestar eru enn fengnir til að blessa nýja báta en mörgum sjómönnum þykir gott að láta blessa bát sinn þrátt fyrir að vera ekki mjög trúræknir.

Að fást við gæfuna

Í hjátrú felast m.a. fyrirboðar, eitthvað sem boðar gott og eitthvað sem boðar illt og þær athafnir sem að fólk hefur í frammi til þess að reyna að hafa áhrif á gang mála í daglegu lífi. Það getur falist í að koma í veg fyrir ólán eða auka gæfu og gengi, sjá fyrir óorðna hluti og tíma o.s.frv.

Í hjátrú felst sú hugsun að í tilverunni felist öfl sem annars vegar ber að varast eða góð öfl sem hægt er að nýta sér til hjálpar og framdráttar með ákveðnum hætti.

Hjátrú er í eðli sínu íhaldssöm og leitast við að halda fastmótaðri reglu á tilverunni þar sem allt það sem brýtur í bága við það sem er vanalegt eða eðlilegt kann ekki góðri lukku að stýra. Meðan allt gengur sinn vangang gengur vel en fari eitthvað út af sporinu getur það boðað ógæfu.

Allt frá því að kveðja sína nánustu og þar til sjómaður er kominn um borð í bát sinn getur haft þýðingu fyrir það hvernig gengur. Það þótti t.d. ekki gott að mæta svörtum ketti á leið sinni að bryggju og eins ef að sjómaður mætti rottu að yfirgefa bát þá var það ekki talið boða gott og að sennilega kæmi þessi bátur ekki aftur í land. Þar sem svo margt getur spilað inn í gæfu og gengi er allt gert til að lukkan leiki við menn.

Þjóðfræðingurinn Símon J. Jóhannsson segir að því hafi lengi verið trúað á ýmsum menningarsvæðum að hráki manna búi yfir töframætti og að hann sé gæddur krafti frá sálinni. Hrákinn kemur að innan og þegar menn hrækja eru þeir að láta frá sér hluta af sjálfum sér. Í Bíblíunni er sagt frá því í bæði Markúsar- og Jóhannesar guðspjalli að Jesú lækni með munnvatni sínu og í íslenskum frásögnum af göldróttum mönnum er krafti hráka þeirra lýst. Það virðist hafa verið útbreidd hjátrú hér á landi að hrækja á eftir þeim sem eru að fara að fást við eitthvað verkefni þar sem tekin er áhætta eða glímt við eitthvað þar sem brugðið getur til beggja vona og heppnin verður að vera með í farteskinu. Þess vegna þótti gott að hrækja á eftir þeim sem eru að fara á sjó.

Sú hugmynd að það boði illt að svartur köttur hlaupi í veg fyrir fólk er útbreidd hjátrú og má sennilega rekja hana til þeirrar hugmyndar að kötturinn raski eðilegu jafnvægi þegar allt í umhverfinu er eins og það á að sér að vera, kötturinn truflar eðlilegt ástand og af þeim sökum öðlast það merkingu. Hinsvegar boðar það ekki alltaf illt. Á Englandi eru dæmi um að svartir kettir boði gæfu þar sem einhverjum var stundum falið að láta svartan kött hlaupa í veg fyrir nýgift hjón.

Að snúa bát réttsælis frá bryggju er þjóðtrú sem þekkist um alla Evrópu þar sem réttsælis hreyfing í takt við sólina er talin boða lukku en sömuleiðis boðar rangsælis hreyfing á móti hreyfingu sólar ógæfu. Að snúa bát rangsælis frá bryggju boðar versnandi veður og að óhöpp elti áhöfnina.

Sú þjóðtrú sem fjallað hefur verið um hérna og tengist hjátrú sjómanna tengt brottför á sjó er bundin við rannsókn sem fór fram á meðal austfiskra sjómanna á árunum 2017 og 2018. Viðmælendur voru fjórtán. Viðmælendur voru á aldrinum 20-80 ára og höfðu allir starfað á sjó í að minnsta kosti 5 ár á Austfjarðamiðum. Líklegt er að sú þjóðtrú sem sagt er frá hér sé útbreiddari og þekkist víðar um Ísland.

Heimildir

Við gerð þessarrar skráningar var stuðst við rannsókn Unnar Malmquist, þjóðfræðings. Hér má sjá ritgerðina hennar:

Til vonar og vara: þjóðtrú austfiskra sjómanna.

https://skemman.is/handle/1946/40764

Sjómenn og hjátrú. Sjómannadagsblað Vestmannaeyja. Grein eftir Hlíf Gylfadóttur mannfræðing.

https://heimaslod.is/index.php/Sjómannadagsblað_Vestmannaeyja_2007/Sjómenn_og_hjátrú

Hjátrú sjómanna. Grein í Víkingi.

https://timarit.is/page/4252045?iabr=on#page/n21/mode/2up/search/Hjátrú%20sjómanna

Sjómenn og hjátrúin. Grein í Ægi.

https://timarit.is/page/4911347?iabr=on#page/n20/mode/2up/search/Hjátrú%20sjómanna

Hver er munurinn á þjóðtrú og hjátrú? Svar af Vísindavefnum eftir Símon Jón Jóhannsson þjóðfræðing.

https://www.visindavefur.is/svar.php?id=15364

Íslenskir sjávarhættir V. Bók eftir Lúðvík Kristjánsson, fræðimann og rithöfund. Bókaútgáfa Menningarsjóðs, 1986.

sjö, níu, þrettán: Hjátrú Íslendinga í daglegu lífi. Bók eftir Símon Jón Jóhannsson, þjóðfræðing. Vaka Helgafell 1993.

Stóra hjátrúarbókin: Aðgengilegt uppflettirit um margvíslega hjátrú Íslendinga í hinu daglega lífi fyrr og nú. Bók eftir Símon Jón Jóhannsson, þjóðfræðing. Vaka Helgafell, 1999.

Myndasafn

Mynd: Unnur Malmquist Jónsdóttir.

Mynd: Unnur Malmquist Jónsdóttir. Myndin er tekin við Djúpavogshöfn.

Mynd: Unnur Malmquist Jónsdóttir. Myndin er tekin við Djúpavogshöfn.