Góðir og slæmir dagar

Þjóðtrú er lífseig og öldum saman hafa hinir ýmsu þættir hennar lifað af og breyst í takti við samfélagslegar breytingar. Þrátt fyrir að öryggi fólks til sjós hafi batnað og fyrirsjáanleiki hafi aukist með betri veðurspám og vísindum þurfa sjómenn enn að eiga við duttlunga náttúrunnar.

Margir sjómenn hafa sterkar skoðanir á því hvaða dagar eru vel til þess fallnir að byrja vertíð, sjósetja báta eða byrja á verki og einnig hvaða dagar eru ekki eins góðir í slíkar athafnir. Þeir austfirsku sjómenn sem deildu viðhorfum sínum gagnvart dögum lýstu því hvaða dagar það eru sem henta best til að byrja á verki, sjósetja eða fara í róður en það virðist vera jákvæðara að byrja seinni hluta vikunnar en fyrri part. Það eru ekki alltaf sömu dagarnir sem sjómenn nefndu en mánudagar virðast verstir til að hefja róður eða sjósetja báta og eins er föstudagurinn þrettándi talinn óheilladagur af flestum. Það er ljóst að trú sjómanna á daga hefur orðið fyrir áhrifum af strandveiðikerfinu þegar upphafsdagar veiða eru ákveðnir af öðrum en sjómönnum.

Þeirri þjóðtrú sem lýst er hérna kom fram í viðtölum við austfirska sjómenn. Viðtölin voru tekin á árunum 2017 og 2018. Ekki er ólíklegt að þessi þjóðtrú þekkist víðar um land.

Skráð:

31.05.2024

Skráð af:

Unnur Malmquist Jónsdóttir

Landfræðileg útbreiðsla:

Austurland

Dagar og lukkan

Víða er talin þjóðtrú að vikudagar teljist misjafnlega farsælir og ýmislegt þurfi að varast á þeim vettvangi. Laugardagar virtust í huga sumra þeirra sjómanna sem rætt var við sá dagur sem best væri að byrja á. Þau þekktu jafnvel til þess að aldrei væri sjósett nema á laugardegi.  Einnig er föstudagur talinn af mörgum góður dagur til að hefja vertíð og eins sunnudagar.

Dagar og ólukkan

Flestum þeim sjómönnum sem lýstu viðhorfum sínum varðandi vikudaga var illa við að byrja verk á mánudegi og vildu helst komast hjá því að fara til sjós þann vikudag. Hægt er að byrja undirbúning og annað á mánudegi en æskilegast að fara ekki á sjó, flestir aðrir dagar vikunnar henta betur til þess. Mánudagar eru einnig taldir ógæfudagar til að sjósetja nýjan bát. Fyrri hluti vikunnar virðist almennt verri til að halda til veiða en seinni partur vikunnar, fimmtudagur, föstudagur, laugardagur og sunnudagur. Þó þekkist það að róa ekki á sunnudögum og að það sé ekki gott að drepa neitt á þeim degi.

Föstudagurinn þrettándi virðist í hugum flestra ekki boða gott og ekki er talið gott að skrifa undir samninga eða festa kaup á einhverju á föstudeginum þrettánda. Það er þó afar persónubundið hve alvarlega sjómenn taka þessu með daganna. Nýjar aðstæður við fiskveiðar hafa breytt því hve mikil áhrif sjómenn geta haft á val á dögum.

Sumir dagar hafa einnig aðrar tengingar líkt og Sumardagurinn fyrsti. Það þekkist að geti sjómaður ekki verið í landi þann dag eigi konan hans hlutinn hans. Sumir sjómenn virða þetta enn. Lokadagurinn, sem eitt sinn var 11. maí er einnig hafður í hávegum af sumum sem vilja hætta þann dag og aðrir vilja alls ekki fara á sjó á Sjómannadaginn.

Sunnudagur til sigurs, mánudagur til mæðu

Víða er til sú þjóðtrú að vikudagar teljist misjafnlega farsælir og ýmislegt að varast á þeim vettvangi. Var það haft að orði „sunnudagur til sigurs, mánudagur til mæðu, þriðjudagur til þrifa eða þrautar, miðvikudagur til moldar, fimmtudagur til frama, föstudagur til fjár og laugardagur til lukku“. Föstudagur var lengi talinn ógæfudagur í hugum kristinna manna þar sem að Jesú Kristur var líflátinn á þeim vikudegi. Talan þrettán er þrungin merkingu og þegar hún kemur saman við föstudag hefur það sérstaka ógæfu í för með sér. Ólukkan í tengslum við föstudaginn þrettánda snýr meðal annars að því að þrettán sátu til borðs við síðustu kvöldmáltíð Jesú Krists.

Lokadagur sem minnst er á hér að ofan, 11. maí var sá dagur þegar vetrarhlutur sjómanna var gerður upp og oft var gerður dagamunur þennan dag í mat og drykk. Þennan dag héldu þeir sjómenn sem höfðu verið á vertíð á Suðurlandi flestir heim, þ.e. þeir sem ekki fóru á sumarvertíð.

Eftir að strandveiðikerfið kom til sögunnar breytti það miklu varðandi stöðu sjómanna. Nú geta sjómenn ekki ákveðið sjálfir hvaða dag er haldið til veiða og getur fyrsti strandveiðidagur borið upp á mánudegi.

Þjóðtrú sem tengist dögum þekkist víðar en hjá sjómönnum, til dæmis halda margir bændur enn tryggð við hugmyndir um æskilegri daga til að hefja verk en aðra.

Sú þjóðtrú sem fjallað er um hér og tengist gæfu, ólukku, vikudögum og sjósókn er bundin við rannsókn sem fór fram á meðal austfirskra sjómanna á árunum 2017 og 2018. Viðmælendur voru fjórtán. Viðmælendur voru á aldrinum 20-80 ára og höfðu allir starfað á sjó í að minnsta kosti 5 ár á Austfjarðamiðum. Líklegt er að sú þjóðtrú sem sagt er frá hér sé útbreiddari og þekkist víðar um Ísland.

Heimildir

Við gerð þessarrar skráningar var stuðst við rannsókn Unnar Malmquist Jónsdóttur, þjóðfræðings. Hér má sjá ritgerðina hennar:

Til vonar og vara: þjóðtrú austfiskra sjómanna.

https://skemman.is/handle/1946/40764

Sjómenn og hjátrú. Sjómannadagsblað Vestmannaeyja. Grein eftir Hlíf Gylfadóttur mannfræðing.

https://heimaslod.is/index.php/Sjómannadagsblað_Vestmannaeyja_2007/Sjómenn_og_hjátrú

Hjátrú sjómanna. Grein í Víkingi.

https://timarit.is/page/4252045?iabr=on#page/n21/mode/2up/search/Hjátrú%20sjómanna

Sjómenn og hjátrúin. Grein í Ægi.

https://timarit.is/page/4911347?iabr=on#page/n20/mode/2up/search/Hjátrú%20sjómanna

Hver er munurinn á þjóðtrú og hjátrú? Svar af Vísindavefnum eftir Símon Jón Jóhannsson þjóðfræðing.

https://www.visindavefur.is/svar.php?id=15364

Íslenskir sjávarhættir V. Bók eftir Lúðvík Kristjánsson, fræðimann og rithöfund. Bókaútgáfa Menningarsjóðs, 1986.

sjö, níu, þrettán: Hjátrú Íslendinga í daglegu lífi. Bók eftir Símon Jón Jóhannsson, þjóðfræðing. Vaka Helgafell 1993.

Stóra hjátrúarbókin: Aðgengilegt uppflettirit um margvíslega hjátrú Íslendinga í hinu daglega lífi fyrr og nú. Bók eftir Símon Jón Jóhannsson, þjóðfræðing. Vaka Helgafell, 1999.

Myndasafn

Mynd: Unnur Malmquist Jónsdóttir. Séð yfir fjöllin við Hamarsfjörð.

Mynd: Unnur Malmquist Jónsdóttir.

Mynd: Unnur Malmquist Jónsdóttir. Við höfnina í Stöðvarfirði.