Gömul þjóðtrú segir að þeir sem ganga í fyrsta sinn á Helgafell í Helgafellssveit á norðanverðu Snæfellsnesi hafa kost á því að bera upp þrjár óskir þegar upp á fellið er komið. Skilyrðin eru að gengið sé í þögn upp á fellið og ekki sé litið til baka. Þegar upp á fellið er komið er horft í austurátt og þrjár góðar óskir bornar fram í huganum og engum sagðar.

Skráð:

26.05.2020

Skráð af:

Anna Sigríður Melsted

Landfræðileg útbreiðsla:

Vesturland

Hefðin er nokkuð gömul en hefur tekið breytingum í gegnum tíðina og kemur þar ýmislegt til. Helgafell, sem Helgafellssveit er kennd við, er lítið fell rúmir 70 m yfir sjávarmáli og er fornfræg jörð sem kemur við sögu í Íslendingasögunum og jafnvel talið að sumar þeirra hafi jafnvel verið ritaðar á Helgafelli (Hermann Pálsson, 1967). Landnámsmaðurinn Þórólfur Mostraskegg nam land á Snæfellsnesi og gafi nesi því sem Stykkishólmur stendur á nafnið Þórsnes. Hann hafði mikla trú á fjalli einu sem þar stóð og nefndi Helgafell. Í Landnámu segir svo þar sem fjallað er um Þórólf:

hann hafði svá mikinn átrúnað á fjalli því, er stóð í nesinu, – er hann kallaði Helgafell, at þángat skyldi engi maðr óþveginn líta, ok svå var þar mikil friðhelgi, at þar skyldi engu granda í fjallinu, hvárki fé né mönnum, nema sjálft gengi brott. Þat var trúa þeirra Þórólfs frænda, at þeir dæi allir í fjallit (Þorgeir Guðmundsson og Þorsteinn Helgason, 1829).

Þórólfur kom upp búi á Hofsstöðum en sonur hans Þorsteinn Þorskabítur var fyrsti ábúandi á jörðinni Helgafelli. Fleiri tilvitnanir í Íslendingasögurnar má finna um Helgafell og eru flestar á þann veg að fyrir kristnitökuna hafi fellið verið sveipað krafti og dulúð. Í 11. kafla Eyrbyggju er minnst á fellið:

Það var eitt kveld um haustið að sauðamaður Þorsteins fór að fé fyrir norðan Helgafell. Hann sá að fjallið laukst upp norðan. Hann sá inn í fjallið elda stóra og heyrði þangað mikinn glaum og hornaskvöl. Og er hann hlýddi ef hann næmi nokkur orðaskil heyrði hann að þar var heilsað Þorsteini þorskabít og förunautum hans og mælt að hann skal sitja í öndvegi gegnt föður sínum. Þenna fyrirburð sagði sauðamaður Þóru konu Þorsteins um kveldið. Hún lét sér fátt um finnast og kallar vera mega að þetta væri fyrirboðan stærri tíðinda. Um morguninn eftir komu menn utan úr Höskuldsey og sögðu þau tíðindi að Þorsteinn þorskabítur hafði drukknað í fiskiróðri og þótti mönnum það mikill skaði (Eyrbyggja saga, Saga Þórsnesinga, Eyrbyggja og Álftfirðinga, 1997).

Snorri goði sat á Helgafelli eftir tíð Þórólfs og kemur hann mikið við sögu í Eyrbyggju, ekki hvað síst fyrir að leggja á ráðin um Berserkina tvo sem Berserkjahraun er nefnt eftir. Um morguninn eftir reið Styr inn til Helgafells. Og er hann kom þar bauð Snorri honum þar að vera en Styr kvaðst tala vilja við hann og ríða síðan. Snorri spurði ef hann hefði nokkur vandamál að tala.

Svo þykir mér, sagði Styr.

Snorri svarar: Þá skulum við ganga upp á Helgafell.

Þau ráð hafa síst að engu orðið er þar hafa ráðin verið.

Þér skuluð slíku ráða, sagði Styr.

Síðan gengu þeir á fjallið upp og sátu þar á tali allt til kvelds. Vissi það engi maður hvað þeir töluðu. Síðan reið Styr heim (Eyrbyggja saga, Saga Þórsnesinga, Eyrbyggja og Álftfirðinga, 1997).

Má af því draga þá ályktun að Snorra hafi þótt gott að fara upp á fellið til að leggja á ráðin og jafnvel hugleiða. Snorri byggði kirkju á Helgafelli. Síðar hafði hann jarðarskipti við Guðrúnu Ósvífusdóttur sem bjó þar til dauðadags og er jarðsett á Helgafelli.

Árið 1184 var klaustur flutt frá Flatey á Breiðafirði á Helgafell og nefndist þá Helgafellsklaustur. Það gerðist auðugt og svo virðist sem fólk hafi ánafnað klaustirnu alls kyns verðmæti til að tryggja t.d. uppfræðslu barna sinna ofl. auk þess sem fólk virðist hafa heitið á klaustrið. Menning virðist hafa verið mikil, prentsmiðja, skóli og kirkjustaður. Staðurinn sem slíkur á sér þannig langa og merka sögu allt frá landnámi þar sem staðsetningin og fellið koma við sögu.

Til eru sögur í þjóðtrúnni um Helgafell og ein af þeim um Kerlinguna í Kerlingarskarði sem ætlað að grýta Helgafellskirkju en hitti ekki, önnur um kerlingu sem átt hafi heima í Helgafellinu sjálfu og svo framvegis (Jón Árnason, 1961).

Grjótbyrgi sem talið er frá tímum klaustursins uppi á fellinu er friðlýst og er útsýnisskífa á fellinu. En frá Helgafelli er fagurt útsýni yfir Breiðafjörð og eyjarnar. Leiði Guðrúnar Ósvífursdóttur norðan kirkjunnar er einnig friðlýst og á því er steinn úr fjallinu með áletruninni Guðrún Ósvífursdóttir Helgafell og ártalið 1008 sem sett var upp árið 1979 en þá var leiðið einnig girt af (Hinrik Jóhannsson, 1995) (Hrafnhildur Helga Halldórsdóttir, 2014).

Heimild er til um gönguna frá leiði Guðrúnar frá árinu 1955, þá átti að signa leiðið við upphaf göngu. (Þorsteinn P. Víglundsson, 1957) Hvenær sú saga festist í sessi að til að óskirnar þrjár rætist á fellinu þurfi að hefja göngu við leiði Guðrúnar Ósvífursdóttur og þar að auki ganga í upphafi þrjá hringi rangsælis um ætlaðan legstað hennar er óvíst. En flestar sögurnar eru á þá leið að ekki megi segja orð á leiðinni upp og bera eigi upp þrjár góðar óskir og snúa í austur þegar þær eru hugsaðar fram. W.G. Collingwood gróf í gamla kirkjugarðinn á Helgafelli árið 1897 en fórst eitthvað fyrir að halda fyrirlestur um uppgröftinn og að koma munum úr honum til þjóðminjasafnsins (Hrafnhildur Helga Halldórsdóttir, 2014). Það er því ekki vitað með fullri vissu hvar nákvæmlega Guðrún hvílir á Helgafelli.

Fjöldi ferðamanna á Helgafelli síðstu áratugi hefur margfaldast og tóku bændur á það ráð árið 2017 að innheimta gjald til þeirra sem hugðust ganga á fellið. Var gönguslóðinn færður til  vestan megin í fellið til að stýra umferðinni á öruggari slóða og við upphaf nýja slóðans var bílastæði stækkað, vegghleðslum komið upp, fræðsluskiltum og ekki síst nýjum minningarsteini um Guðrúnu. Það hafði einnig mikil áhrif á þessa framkvæmd að ágangur var orðinn mjög mikill í kringum íbúðarhús og kirkju en fjárbúskapur og tvíbýlt er á Helgafelli, sem er í einkaeigu.  Oft voru rútur komnar upp að íbúðarhúsum og munaði litlu að ekið væri yfir börn að leik á svæðinu. Tilgangurinn var þannig einnig að auka öryggi heimilisfólks ekki síður en ferðamanna, en óhöpp hafa átt sér stað á gamla gönguslóðanum.

Á sumrin koma að jafnaði um 400 ferðamenn að Helgafelli dag hvern (Þorsteinn Friðrik Helgason, 2017). Hefðin er staðbundin við þetta fell og m.a. viðhaldið af staðarhöldurum, ferðabóka- og pistla höfundum og leiðsögufólki. Það kemur fyrir að ákveðnir hópar komi að Helgafelli t.d. leshringir sem lesið hafa Eyrbyggju eða Laxdælu og vilja fræðast um staðinn, ábúendur, sögupersónur og hefðirnar. Íbúar Helgafellssveitar, Stykkishólms og fleiri sveitarfélaga á Snæfellsnesi þekkja hefðina vel. Þeir sem kunnugir eru Íslendingasögunum Eyrbyggju og Laxdælu þekkja einnig til sögunnar. Erlendir ferðamenn eru líklega stærsti hópurinn sem kemur að Helgafelli en innlendir skólahópar heimsækja einnig staðinn og er þá mikið lagt upp úr því að uppfylla allar reglur til að geta borið upp óskirnar þrjár – tekst það stundum og stundum ekki.

Heimildir:

Collingwood, W. G. (1897). Helgafell. Sótt af https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=645391

Eyrbyggja saga Saga Þórsnesinga, Eyrbyggja og Álftfirðinga. (1997). Sótt af https://www.snerpa.is/net/isl/eyrbygg.htm

Greak, J. (2019). Helgafell, Iceland. Sótt af https://www.trover.com/d/10o5E-helgafell-iceland

Hermann Pálsson. (1967). Helgafell Saga höfuðbóls og klausturs. Reykjavík: Snæfellingaútgáfan.

Hinrik Jóhannsson. (1995). Helgafell, Velvakandi. Morgunblaðið. Sótt af https://www.mbl.is/greinasafn/grein/234699/

Hrafnhildur Helga Halldórsdóttir. (2014). Einsetulifnaður á Íslandi Rannsókn á nafngreindum einstaklingum eða hópum sem sest hafa í trúarlega einsetu á Íslandi Sótt af https://notendur.hi.is/sjk/EIN_2014.pdf

Jón Árnason. (1961). Íslenskar þjóðsögur og ævintýri I (1 bindi). Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga.

Matthías Þórðarson. (1931). Grjóthleðsla, Kapella, Rúst. Helgafell. Sótt af https://skraning.sarpur.is/Uploads/Images/1464550.jpg

Þorgeir Guðmundsson og Þorsteinn Helgason. (1829). Íslendinga sögur. (2 bindi). Sótt af https://baekur.is/bok/000196946/1/95/Islendinga

Þorsteinn Friðrik Helgason. (2017). Rukkað upp á Helgafell. Morgunblaðið. Sótt af https://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/03/27/rukkad_upp_a_helgafell/

Þorsteinn Jósepsson. (1940-1965). Ganga á Helgafell. Sótt af https://skraning.sarpur.is/Uploads/Images/2009148.jpg

Þorsteinn P. Víglundsson. (1957). Gengið á Helgafell. Eining. Sótt af https://timarit.is/page/5407349#page/n8/mode/2up

Myndasafn

Ekki er vitað með fullri vissu hvar Guðrún Ósvífursdóttir er grafin. Hún á sér þó legstein við Helgafell. Mynd: ASM.

Minnisvarði um Guðrúnu Ósvífursdóttur við upphaf gönguleiðar upp á fellið. Mynd: ASM.

Horft af toppi Helgafells yfir Breiðafjörð. Mynd: ASM.

Upplýsingaskilti og stærra bílastæði við fellið fyrir ferðafólk og áhugasama sem vilja ganga á fellið. Mynd: ASM.

Göngustígur á Helgafell bíður þeirra sem vilja láta reyna á þjóðtrúna. Mynd: ASM.

Mynd: ASM.