Torf, ásamt timbri og grjóti, var það byggingarefni sem notað var til húsbygginga á Íslandi frá landnámi og vel fram á 20. öld. Þekking á torfi, á meðhöndlun þess og tengd handverksþekking eru hefðir sem hafa varðveist.

Skráð:

16.10.2018

Skráð af:

Byggðasafn Skagfirðinga, Fornverkaskólinn

Landfræðileg útbreiðsla:

Allt landið

Torf, ásamt timbri og grjóti, var það efni sem notað var til húsbygginga á Íslandi frá landnámi og vel fram á 20. öld. Torfið er byggingarefni og menningarerfðir því tengdu hafa með þekkingu á meðhöndlun þess að gera. Það felur í sér þekkingu á torfi sem efni; s.s. hvað er torf, hvar má finna torf og hverskonar torf er hægt að nota til bygginga. En það felur líka í sér handverksþekkingu, s.s. hvernig er torf skorið/stungið, hvernig byggirðu vegg eða gerir þak og ekki síst hvernig gerirðu við vegg eða þak. Hvort sem verið er að skera torf eða reisa hús þá eru notuð ákveðin handverkfæri og felur menningarerfðin einnig í sér þekkingu á notkun þeirra. Sumt af þessum verkfærum er enn notað eins og undirristuspaði og torfljár en í dag er jafnan notuð stunguskófla í staðinn fyrir pál. Í dag er torfhleðsla einkum notuð til þess að viðhalda húsum (torfkirkjur, torfbæir og útihús) í Húsasafni Þjóðminjasafnins (http://www.thjodminjasafn.is/thjonusta/safnkostur/husasafn/) og eru nýbyggingar úr torfi ekki algengar

Áður fyrr var torf notað sem byggingarefni. Það var notað í allar tegundir húsa, s.s. híbýli fólks, hús fyrir skepnur og önnur útihús. Veggir og þak voru jafnan gerð úr torfi eða torfi og grjóti og síðan var timburgrind sem að hélt uppi þakinu. Þar sem að nægilegt timbur var til staðar, voru húsin einnig þiljuð að innan (sést t.d. víða í baðstofum). Þó að efniviður sé í grunninn hinn sami, getur hlutfall þeirra verið ólíkt á milli mismunandi húsgerða og jafnvel á milli landshluta. Það fer eftir ýmsu, s.s. aðgengi að efni, veðurfari og hlutverki byggingar. Til dæmis var gjarnan meira af grjóti í húsum þar sem að skepnur voru hýstar. Handverks- og efnisþekkingin ferðaðist áður frá manni til manns í gegnum nýbyggingar og viðhald á húsum.
Tilgangur torfsins sem byggingarefnis hefur tekið gagngerum breytingum, frá því að vera grunn byggingarefni þjóðarinnar og í það að vera sýnishorn um húsakost og þróun húsagerðar á Íslandi. Það sem einu sinni var almennt og sjálfsagt er nú sjaldgæft og hverfandi.

Torfhleðsla er í dag einkum stunduð vegna viðhalds á húsum sem tilheyra Húsasafni Þjóðminjasafnins. Formlegt nám er ekki til í torfhleðslu en á undanförnum árum hefur verið boðið upp á stök námskeið m.a. á vegum: Fornverkaskólans (www.fornverkaskolinn.is), Landbúnaðarháskólans (lbhi.is) og Hleðsluskólans (http://islenskibaerinn.is/hledsluskolinn/). Námskeiðin eru ólík að lengd og áherslum en á þeim öllum er farið yfir ákveðin grunnatriði, s.s. stungu, ristu og hleðslu.

Handverks- og efnisþekking tengd torfi er á undanhaldi en þekkingin er enn til staðar og má þá nefna t.d. þá torfhleðslumenn sem hafa unnið að viðgerðum fyrir Þjóðminjasafnið og þá sem að hafa unnið með þeim. Einnig er enn til fólk sem ólst upp með því að gert væri við torfhús og kom jafnvel að þeirri vinnu. Síðan eru þeir sem að hafa sótt námskeið hjá fyrrnefndum aðilum og þannig öðlast grunnþekkingu á efninu en þarfnast frekari reynslu. Helsta ástæða þess að þekkingin er á undanhaldi er sú að torf er lítið sem ekkert notað sem byggingarefni í dag og helsta notkunin er við viðgerðir á gömlum byggingum. Þannig má segja að viðgerðirnar haldi þekkingunni á lífi. Það er þó ekki nóg því að það eru aðeins örfáir aðilar sem að hafa atvinnu af torfhleðslu og enginn í fullu starfi.

Það er ekkert formlegt ferli í gangi sem að viðheldur þekkingu á torfi sem byggingarefni. Þekkingin varðveitist í dag, fyrst og fremst í gegnum viðgerðir á húsum sem tilheyra Húsasafni Þjóðminjasafnsins. Í boði hafa verið stutt námskeið þar sem hægt er fá grunnþekkingu á torfi sem byggingarefni og notkun þess.

Fornverkaskólinn bíður upp á námskeið í torfhleðslu: http://www.glaumbaer.is/fornverkaskolinn

Í Íslenska bænum er hægt að fræðast um íslensku torfbæina og Hleðsluskólinn bíður upp á námskeið í torfhleðslu: http://islenskibaerinn.is/

Fornverk ehf. sérhæfir sig í torf- og grjóthleðslu: http://www.fornverk.is/

Stokkar og steinar taka að sér bæði torf- og grjóthleðslu: https://www.stokkarogsteinar.com/

Í gagnabanka Byggðasafns Skagfirðinga má finna rit um torf og gamla byggingahætti: http://www.glaumbaer.is/is/gagnabanki

Myndasafn

Hnausar eru stungnir með stunguskóflu, áður páli og síðan er rist undir þá með undirristuspaða.

Torf er myndað af rótarkerfi mýrarplantna sem hægt er að stinga með skóflu eða rista með ljá. Torf er oftast tekið úr mýrum en er einnig stungið úr þurrum sverði.

Strengur lagður ofan á klömbruhleðslu í bogahlöðnum hlöðuvegg á Tyrfingsstöðum í Skagafirði.

Helgi Sigurðsson hjá Fornverki ehf. notar torfljá til að snyrta til boghlaðnar tóftardyr á Tyrfingsstöðum í Skagafirði.

Gamalt og nýtt. Þegar gert er við veggi er reynt að halda í það sem heilt er af gamla veggnum en annars er nýtt efni notað. Það er kallað að gilda vegg.

Torf- og grjótveggir, auk timburþils (listaþils) í bænum á Þverá í Laxárdal.